Framtíð sjávarbyggða á Vestfjörðum

Ráðstefnan Framtíð sjávarbyggða á Vestfjörðum verður haldin þann 22. september 2012 á Ísafirði. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunar má nálgast á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Á ráðstefnunni verða margir af helstu sérfræðingum landsins um málið og eru bundnar vonir að ráðstefnan verði fjölsótt og leiði til upplýstrar umræðu um stöðu og framtíð svæðisins. Sjávarútvegur er ein af lykilatvinnugreinum Vestfjarða, atvinnugreinin byggir á sjávarauðlindinni og er framtíð svæðisins samofin því hvernig til tekst að ná sem mestum verðmætum úr auðlindinni með sjálfbærum hætti. Staða atvinnulífs og viðvarandi fólksflótti á Vestfjörðum eru áhyggjuefni sem íbúar, sveitarstjórnarmenn, ríkisvald og atvinnulíf þurfa að hugsa um með lausnamiðuðum hætti. Búið er að bjóða sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum og ráðherrum til ráðstefnunnar og það er von skipuleggjanda að íbúar og atvinnulíf fjölmenni á fundinn. Markmið skipuleggjenda ráðstefnunnar er að ráðstefnan sjálf geti verið mikilvægt innlegg í upplýstri og faglegri umræðu um framtíð sjávarbyggða á Vestfjörðum og verður gefið út ráðstefnurit með greinum byggt á erindum fyrirlesara. Það kostar ekkert inn á ráðstefnuna og þeir sem hafa áhuga á að koma á þessa ráðstefnu eru beðnir um að skrá sig á reception@uwestfjords.is til þess að auðvelda skipulagningu ráðstefnunnar.