Nútímavæðing, þjóðernishyggja og hnattvæðing

Ein mikilvægasta kenningin um íslenska nývæðingu er sú að henni hafi bæði verið hrint af stað og stýrt af þjóðernisvitund landsmanna og að vaxandi sjálfstæði þjóðarinnar með löggjafarvaldi og sérstaklega heimastjórn hafi beinlínis opnað dyrnar fyrir nútímanum á Íslandi. Hér er oft nefnd til sögunnar áhrif frjálslyndra þjóðernissinna á borð við Jón Sigurðsson, um leið og bent er á að nývæðingin á Íslandi var hvað hröðust á þeim tíma þegar þjóðin öðlaðist sjálfstæði frá Dönum. Ef við lítum á pólitíska orðræðu og stefnu nývæðingarinnar á Íslandi þá vakna ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi voru áhrif frjálslyndra þjóðernissinna nokkuð önnur en oft er haldið fram. Jón Sigurðsson eyddi t.d. stórum hluta ferils síns í frekar árangurslitlar deilur við Dani og var harkalega gagnrýndur fyrir það af flestum boðberum frjálslyndisstefnunnar á Íslandi sem vildu nota lagið til að breyta íslensku samfélagi. Í öðru lagi var sá nútími sem Íslendingar fengu mjög ólíkur þeim sem áköfustu þjóðernissinnar á Íslandi boðuðu. Fyrir þeim bjó kjarni íslenskrar þjóðmenningar í sveitum og því hlaut íslensk nútímamenning að verða reist á nútímalegum sveitum, því að annars væri þjóðmenningunni bráð hætta búin. Því tel ég nauðsynlegt að við endurhugsum samband þjóðernis og félagslegrar þróunar á Íslandi, og lítum fremur á sköpun þjóðríkisins sem eðlilegan þátt í nývæðingunni frekar en orsök hennar. Sú samfélagslega bylting sem óneitanlega varð á Íslandi við lok 19. aldar og fram eftir hinni 20. hófst vegna þess að á þessum tíma fléttuðust saman hrun gamla bændasamfélagsins og áhrif hnattvæðingar, bæði í formi nýrra hugmynda um félagslegt taumhald sem bárust erlendis frá (aukið frelsi einstaklingsins) og vaxandi áhrifa kapítalískra framleiðsluhátta. Þetta sést kannski best af því að íslensk þjóðernisstefna náði fyrst verulegri fótfestu þegar íslenskt þjóðfélag glataði flestum sérkennum sínum - þ.e. Íslendingar lögðu ofuráherslu á sérkenni sín á sama tíma og þeir tóku að líkjast nágrönnum sínum æ meir. Áhrif þjóðernisstefnunnar á Íslandi voru því að mínu mati ekki fyrst og fremst þau að hún ruddi nútímanum braut á Íslandi heldur varð hún aðferð til að túlka fortíðina. Þannig þýða Íslendingar erlendar hugmyndir inn í pólitískt táknkerfi sitt á grunni þjóðernisstefnunnar og endurskrifa söguna í sífellu þannig að hún passi við röksemdir hennar og forsendur.