Evrópusamruninn: verndar hann þjóðríkin fyrir hnattvæðingunni eða þvingar hann þau til þátttöku í henni?

Hnattvæðingarandstæðingar, sem hafa verið mjög áberandi til dæmis í Frakklandi (José Bové), líta gjarnan á Evrópusambandið sem kerfi andstætt þjóðríkinu, sem þvingar það (þjóðríkið) til að beygja sig undir ýmsar verkanir hnattvæðingarinnar sem þeir (hnattvæðingarandstæðingarnir) skynja sem neikvæðar og ógnandi. Aftur á móti hafa aðrir bent á, að til að mynda landbúnaðarkerfi ESB verndar landbúnað í aðildarríkjunum fyrir því að vera eins berskjaldaður og hann annars væri fyrir áhrifum hnattvæðingarinnar (sbr. GATT-framhaldssamninga Heimsviðskiptastofnunarinnar, WTO, sem nú eru kenndir við Doha). Þetta hefur meira að segja leitt til þess, að framkvæmdastjóri íslenzku bændasamtakanna hefur látið hafa eftir sér, að íslenzkur landbúnaður kynni að njóta „skárra skjóls“ innan ESB en utan. Þetta gefur tilefni til að skoða betur hvort er réttara, að Evrópusamruninn verndi aðildarríkin fyrir hnattvæðingunni eða þvingi þau til þátttöku í honum – eða hugsanlega að hvort tveggja í senn eigi við, það er að Evrópusamruninn bæði verndi ríkin fyrir hnattvæðingunni og þvingi þau til þátttöku?