Baráttan endalausa?

Þegar sjálfstæðisbaráttunni lauk með stofunun lýðveldisins 1944, lýsti Sveinn Björnsson forseti því yfir að þetta væri ekki lokaskrefið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Lokaskrefið mættu Íslendingar ekki taka, því slíkt lokaskref þýddi endalok sjálfstæðis. Sjálfstæðisbaráttan héldi því áfram, án baráttuanda glötuðu landsmenn sjálfstæði sínu. Frá lýðveldisstofnun hefur því oft og einatt verið haldið fram á opinberum vettvangi að sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar lyki aldrei. Þessu viðhorfi hefur einnig verið lýst með almennari hætti: sjálfstæðisbaráttu smáþjóða lýkur aldrei og þar með lýkur ekki sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Útfærsla landhelginnar var túlkuð í þessu ljósi, auk þess sem ýmis deilumál á borð við veru bandaríska hersins og aðildar að EFTA og síðar EES og hugsanlega ESB voru lituð af þessum viðhorfum. Í erindinu verður gerð grein fyrir bakgrunni þessara hugmynda í orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar og rætt um stöðu þeirra í ljósi alþjóðavæðingar samtímans.