Áhrif dýpis á kynþroskaferli og gæði ígulkerja í Breiðafirði

Mánudaginn 13. maí kl. 13:00 mun Tasha Eileen O’Hara  verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Í rannsókninni er skoðað hvort dýpi hefur áhrif á kynþroskaferli, gæði hrogna og jafnframt hvort markaðshæf hrogn skollakopps ígulkerja finnist á meiri dýpt en á hefðbundnum veiðisvæðum í Breiðafirði. Nánari lýsingu má nálgast í útdrætti hér að neðan. Ritgerðin ber titilinn A depth-dependent assessment of annual variability in gonad index, reproductive cycle (gametogenesis), and roe quality of the green sea urchin (Strongylocentrotus droebachiensis) in Breiðafjörður, Iceland. Vörnin fer fram í Háskólasetrinu og er opin almenningi.

Leiðbeinendur eru dr. Guðrún Þórarinsdóttir, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun – Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Prófdómari er Dr. Bree Witteveen frá Háskálanum í Alaska. Prófdómari er dr. James Kennedy, sérfræðingur við Hafrannsóknarstofnun, BioPol á Skagaströnd og kennari við meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun.

Útdráttur

Litlar veiðar hafa verið stundaðar á skollakoppi (Strongylocentrotus droebachiensis) í norður Atlantshafi en á Íslandi teljast þær þó verðmætar. Rannsóknir á þessari tegund hafa verið takamakaðar á Íslandi en aukin þekking á vexti, nýtingarmöguleikum og þróun veiða er nauðsynleg fyrir sjálfbæra nýtingu og stjórnun. Markmið núverandi rannsóknar var að skoða hvort dýpi hefði áhrif á kynþroskaferil, gæði hrogna og hvort markaðshæf hrogn skollakopps finndust dýpra en hefðbundin veiðisvæði í Breiðafirði. Til rannsókna var sýnum safnað mánaðarlega á 32 og 60 m dýpi frá september 2016 til ágúst 2017. Kynþroski og hrygningartími voru metin út frá kynþroskastuðli (GI; hlutfall þyngdar hrogna af heildarþyngd) og kynþroskaferli þar sem hlutfall forðanæringarfruma og kynfruma í hrognum var metið með skoðun vefjasýna. Niðurstöður leiddu í ljós að ferill kynþroskastuðuls yfir árið á báðum dýpum var eins og yfir lágmarks kröfum markaðarins (10%) á veiðitíma.  Grynnra var þó kynþroskastuðullinn alltaf hærri eða 12-48% eftir mánuðum. Sömuleiðis voru niðurstöður kynþroskaferlis út frá vefjasýnum svipaðar á báðum dýpum sem bendir til þess að dýpi hafi hér ekki áhrif á þroskun kynfruma. Hrygning hófst í mars, samtímis á báðum dýpum. Ekki var munur á kynþroskaferli á milli kynja á báðum dýpum og á milli mánaða. Kynjahlutfall var 1:1 og engir tvíkynja einstaklingar fundust. Hrogn voru metin með hliðsjón af markaðskröfum bæði varðandi lit og kynþroskastuðul (GI). Markaðskröfum var fullnægt frá ágúst til mars, eða á veiðitíma, á báðum dýpum þar sem ómarkaðshæf hrogn voru sjaldgæf. Dýpi hafði þó neikvæð áhrif, þar sem gæðin voru í flestum tilfellum aðeins minni á meira dýpi þó markaðskröfum væri náð. Í þessari rannsókn er einnig fjallað um stjórnun veiða og markaði sem er verðugt rannsóknarefni framtíðar svo veiðar megi haldast sjálfbærar.