Háskólasetur Vestfjarða býður upp á framhaldsnámskeið á stigi B2. Námskeiðið er hannað til að mæta þörfum nemenda sem eru lengra komnir í íslenskunámi og vilja bæta við færni sína. Námskeiðið fer fram á Ísafirði og er staðsetning námskeiðsins notuð á fjölbreyttan hátt í kennslunni.
Námskeiðslýsing
Námskeiðið tekur mið af evrópska tungamálarammanum og verður leitast við að æfa alla fimm þætti hans á gagnvirkan hátt (hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir). Námskeiðið fer allt fram á íslensku. Því er nauðsynlegt að þátttakendur hafi góðan skilning á íslensku og geti haldið uppi skilvirkum samræðum. Þeir þurfa til dæmis að skilja að mestu leyti það sem er í fréttum og geta lesið sér til gagns og gamans.
Lögð er áhersla á orðaforða með lestri valdra texta: blaðagreinar; brot úr skáldsögum; pistla og ljóð. Eins og í öðrum námskeiðum Háskólaseturs verður einnig lögð áhersla á efni sem tengist Vestfjörðum og Ísafirði, meðal annars menningu, sögu og náttúru svæðisins. Kennslan verður í fyrirlestraformi og samræðum í tímum en einnig verður farið í heimsóknir á valda staði á Ísafirði og nágrenni, hlustað á kynningar og talað um viðfangsefni kynninganna.
Nemendur setja saman texta um heimsóknir og upplifun sína með aðstoð kennara. Eftir kennslu hvers dags fá nemendur heimaverkefni sem kennarinn fer yfir og aðstoðar nemendur með það sem betur má fara. Á námskeiðinu horfa nemendur á valdar íslenskar kvikmyndir með íslenskum texta ásamt kennara.
Ekki er lögð áhersla á málfræði en þó verður eitthvað farið í málfræðiatriði sem hæfa þessu stigi.
Vinsamlegast hafið samband við islenska@uw.is ef þið hafið einhverjar spurningar.
Kennarar
Eiríkur Sturla Ólafsson (f. 1976 í Reykjavík) er með BA-gráðu í þýsku og sagnfræði sem og MA-gráðu í þýðingafræði, og lauk námi 2005. Hann lærði í Reykjavík, Köln og Berlín.
Hann er dulítill nörd þegar kemur að tungumálum og þá sérstaklega málfræði, og hefur sérstakan áhuga á latínu, þýsku, íslensku (nema hvað), japönsku og orðsifjafræði.
Eiríkur (eða Eiki eins og flestir kalla hann) hefur kennt íslensku sem erlent mál síðan 2007 þegar hann byrjaði að kenna í Zürich í Sviss. Eftir að hafa kennt í Berlín í 6 ár, flutti hann sig um set til Kína og hefur kennt þar við Beijing-háskóla erlendra fræða síðastliðin 8 ár, en þó með hléum undanfarið vegna heimsfaraldursins. Það er þó að breytast til batnaðar.
Eiki hefur gert eitt og annað meðfram kennslustörfum sínum, stundað íþróttir, ferðablaðamennsku, þýðingar og skrif. Hans aðaláhugamál eru ferðalög og kennslan er það sömuleiðis. Hann tekur sundferðir sínar afar alvarlega og skilur ekki landa sína sem hanga bara í heita pottinum í stað þess að taka góðan sprett í lauginni.
Marc Daníel Skipstað Volhardt er málvísindamaður frá HÍ en hefur líka stundað nám við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Háskólann í Tromsø í Noregi, sérsvið hans er hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, Norðurlönd og Norðurlandamál, mállýskur, frumbyggjamál og hefur hann meðal annars stundað rannsóknir í Mexíkó á málinu otomí. Hann Kennir íslensku sem annað mál, dönsku sem annað mál, skandinavísk fræði ásamt almennum málvísindum við HÍ
Í frístundum sínum hefur hann gaman af ferðalögum, ljósmyndun, náttúru og finnst best að fá sér uppáhellt brúsakaffi á bensínstöð.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson Ólafur Guðsteinn Kristjánsson hefur umtalsverða reynslu af því að kenna íslensku sem annað mál og hefur kennt við marga skóla og stofnanir í gegnum tíðina. Frá árinu 2010 hefur hann kennt íslensku við Háskólasetur Vestfjarða auk þess sem hann hefur kennt fyrir SIT vettvangskólann síðan 2014. Þar að auki kennir hann íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands og er, um þessar mundir, umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs.
Hann er áhugasamur kennari sem hugnast vel forvitnir nemendur og vel fær um að útskýra allt milli himins og jarðar hvort sem það eru óreglulegar sagnir eða íslensk tónlist.