Hafliði H Hafliðason

Svona gerum við.
Verkefnisstjóri hjá Þróunarfélagi Austurlands, vinnur náið með Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og öðrum hagsmunaaðilum að málefnum innflytjenda. BA í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MA í Global Political Economy frá University of Sussex.

Á Austurlandi hefur hlutfall innflytjenda af íbúafjölda hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Fyrir liggur að sveitarfélögin hafa ekki mótað sér stefnu varðandi þjónustu við þessa einstaklinga og víðast er hún því óviðunandi. Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi þótti því nauðsynlegt að kanna vel þarfir og aðstæður innflytjenda í austfirsku samfélagi.

SSA hefur verið virkur þátttakandi í umræðu og verkefnum tengdum innflytjendum í landshlutanum síðustu ár. Samþykkt var á aðalfundi SSA árið 2005 að skipa starfshóp um málefni innflytjenda á Austurlandi, þar sem kanna átti stöðu þeirra í fjórðungnum og vinna skýrslu sem gæti verið leiðarvísir fyrir hagsmunaaðila. Í framhaldinu kallaði SSA til liðs við sig sveitarfélög, einstaklinga, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök ásamt fulltrúum innflytjenda til að vinna verkefni um bætta þjónustu við innflytjendur á Austurlandi. Sérstök fimm manna verkefnisstjórn fékk það hlutverk á vordögum 2006 að móta og vinna verkefnið. Frá þeim tíma hafa verið haldnir fundir hjá verkefnisstjórn, verkefnahópar unnið og hagsmunaaðilar og sérfræðingar verið kallaðir til. Haldið var málþing í lok september 2006 og í febrúar 2007 kom út skýrslan Svona gerum við. Leiðir að fjölmenningarlegu samfélagi á Austurlandi. Efni fyrirlestursins er byggt á þeirri vinnu sem liggur að baki skýrslunni.