Skipulagsskrá fyrir Háskólasetur Vestfjarða

1. gr. - Heiti, heimili og varnarþing
Stofnunin heitir Háskólasetur Vestfjarða ses. Heimili þess og aðalstarfsstöð er að Suðurgötu 12 á Ísafirði.


2. gr. - Tilgangur
Tilgangur Háskólasetursins er að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu háskólamenntunar, rannsókna og þekkingarstarfs á Vestfjörðum, vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla- og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar.


3. gr. - Form og aðild
Háskólasetur Vestfjarða ses. er sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur og starfar á grundvelli laga nr. 33/1999. Stofnendur sjálfseignarstofnunarinnar eru: Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Tækniháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Hafrannsóknastofnunin, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Veðurstofa Íslands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Náttúrustofa Vestfjarða, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., Snerpa ehf., Vestfirðir á miðöldum, Sýslumaðurinn á Ísafirði, Vestri ehf., Fjarðanet ehf., Miðfell ehf., Ísfang ehf., Vesturbyggð, FSÍ/HSÍ, Félagsmálaráðuneytið f.h. Fjölmenningarseturs, Atkonur, Vífilfell hf., Tónlistarskóli Ísafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Rætur, Skógur ehf, Ylgur ehf., Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Agar.

Stofnframlag sjálfseignarstofnunarinnar er kr. 5.250.000.- og greiðir hver stofnaðili kr. 150.000-. Aðilar að Háskólasetrinu geta orðið stofnanir, félög og fyrirtæki sem í rekstri sínum fást við rannsóknir, fræðslu, þróun eða annað þekkingarstarf og tveir þriðju hluti stofnenda samþykkir.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.


4. gr. - Fulltrúaráð og stjórn
Allir þeir sem eiga aðild að Háskólasetri Vestfjarða ses. eiga einn fulltrúa í fulltrúaráði, og einn til vara, sem fer með æðsta vald stofnunarinnar. Fulltrúaráð kýs stjórn sem í umboði fulltrúaráðsins mótar stefnu um rekstur þess, vinnur að markmiðum skv. 2. gr. samþykktanna og kemur fram fyrir hönd setursins. Fulltrúaráð kemur saman að minnsta kosti einu sinni á ári.

Í stjórn Háskólasetursins skulu sitja fimm fulltrúar. Þar af skulu sitja a.m.k einn fulltrúi Ísafjarðarbæjar, einn fulltrúi háskóla og einn fulltrúi rannsóknarstofnana. Kjósa skal varafulltrúa fyrir hvern stjórnarmann. Stjórnin fer með æðsta vald setursins á milli funda fulltrúaráðsins. Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn og skiptir hún sjálf með sér verkum. Stjórnin skal koma saman að minnsta kosti þrisvar á ári. Formanni stjórnar er skylt að boða til stjórnarfundar ef 1/3 hluti stjórnarmanna krefst þess og sama gildir um fulltrúaráð. Það sem gerist á fundum fulltrúaráðs, stjórnar og á ársfundi skal skráð í gerðabók og undirritað af viðstöddum fundarmönnum.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn sjálfseignar- stofnunarinnar veitir prókúrumboð fyrir stofnunina.


5. gr. - Framkvæmdastjóri
Stjórn Háskólaseturs Vestfjarða ses. ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun hans og starfskjör. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur setursins eða gera verksamning við einhvern aðildarfélaga þess um að annast daglega stjórnun. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn og vinnur samkvæmt ráðningarsamningi og starfslýsingu, samþykktum þessum og fyrirmælum stjórnar. Hann fer jafnframt með fjármál og reikningshald setursins í umboði stjórnar og fulltrúaráðs. Sama ábyrgð og starfsskyldur hvíla á aðildarfélaga sem tekur að sér framkvæmdastjórn samkvæmt verksamningi.

Framkvæmdastjóri á rétt á að sitja stjórnar- og fulltrúaráðsfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt nema stjórn eða fulltrúaráð ákveði annað í einstökum tilvikum.


6. gr. - Ársfundur
Ársfundur Háskólasetursins skal haldinn á tímabilinu mars til maí ár hvert. Ársfundinn skal boða með tryggilegum hætti og að lágmarki tíu daga fyrirvara. Dagskrá ársfundar skal vera eftirfarandi:

1. Skýrsla stjórnar.
2. Afgreiðsla reikninga.
3. Fjárhagsáætlun.
4. Kosning stjórnarmanna (þegar við á).
5. Kjör skoðunarmanna eða endurskoðanda.
6. Ákvörðun um þóknun til stjórnar.
7. Tillögur um breytingar á skipulagsskrá og starfsháttum.
8. Önnur mál

 

7. gr. - Fjármál
Stofnfé Háskólaseturs Vestfjarða ses. er kr. 5.250.000.- sem stofnendur greiða með reiðufé. Tekjur Háskólasetursins eru samningsbundin framlög aðila að setrinu, opinber framlög, styrkir og sjálfsaflafé. Sem sjálfseignarstofnun hefur Háskólasetrið sjálfstæðan fjárhag og ber því eitt ábyrgð á skuldbindingum sínum. Fulltrúaráð skal kjósa einn eða fleiri löggilta endurskoðendur eða skoðunarmenn ásamt varmönnum. Skulu þeir rannsaka reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár og eigi síðar en mánuði eftir samþykktir ársreikninga, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, skal senda stjórnvaldi því er tekur við ársreikningum félaga ársreikning eða samstæðureikning stofnunarinnar ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningurinn var samþykktur. Endurskoðendur eða skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins. Starfsár og reikningsár Háskólasetursins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir út með fundarboði ársfundar og síðan lagðir fyrir til afgreiðslu á fundinum. Ef hagnaður verður af rekstri stofnunarinnar skal færa hann yfir á næsta reikningsár. Ef tap verður af rekstri á rekstri stofnunarinnar skal niðurgreiða það með fjárframlögum næsta árs. Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 30. mars ár hvert.

 

8. gr. - Breytingar á skipulagsskrá
Skipulagsskrá þessari má aðeins breyta á ársfundi Háskólaseturs Vestfjarða ses. með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða í fulltrúaráði, sbr. og 36. gr. laga nr. 33/1999.

 

9. gr. - Slit eða sameining
Háskólasetri Vestfjarða ses. verður aðeins slitið eða það sameinað annarri stofnun með ákvörðun skv. 36. gr. laga nr. 33/1999 á þar til boðuðum fundi fulltrúaráðs. Verði starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða ses. hætt og það lagt niður skal eigum þess varið til eflingar háskólamenntunar á Vestfjörðum.

 

10. gr. - Úrsögn
Aðilar að Háskólasetrinu geta sagt sig úr því og skal beiðni þar að lútandi vera skrifleg og send til stjórnar. Úrsögn tekur gildi frá og með næsta ársfundi eftir að úrsagnarbeiðni berst stjórn. Stofnframlög og önnur framlög eða árgjöld ef innheimt hafa verið eru óafturkræf og aðilar geta ekki gert kröfu um hlutdeild í eignum Háskólasetursins við úrsögn.

Skipulagsskrá þessi er samþykkt á stofnfundi Háskólaseturs Vestfjarða ses. að Suðurgötu 12 á Ísafirði.


Ísafirði, 12. mars, 2005


Þorsteinn Gunnarsson, rektor, f.h. Háskólans á Akureyri
Rögnvaldur Ólafsson, f.h. Háskóla Íslands
Þorkell Sigurlaugsson, f.h. Háskólans í Reykjavík
Valgeir Bjarnason, aðstoðarskólameistari, f.h. Háskólans á Hólum
Stefán Kalmansson, f.h. Viðskiptaháskólans á Bifröst
Ólafur Proppé, rektor, f.h. Kennaraháskóla Íslands
Hjálmar H. Ragnarsson, rektor, f.h. Listaháskóla Íslands
Ágúst Sigurðarson, rektor, f.h. Landbúnaðarháskóla Íslands
Dóra Hlín Gísladóttir, f.h. Skóga ehf.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri, f.h. Hafrannsóknarstofnunar
Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri, f.h. Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins
Þorkell Sigurlaugsson, f.h. Tækniháskóla Íslands.
Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, f.h. Veðurstofu Íslands
Smári Haraldsson, f.h. Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, f.h. Ísafjarðarbæjar
Einar Pétursson, bæjarstjóri, f.h. Bolungarvíkurkaupstaðar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, f.h. Sýslumannsins á Ísafirði
Ragnheiður Hákonardóttir, f.h. Fjórðungssambands Vestfjarða
Þorleifur Eiríksson, f.h. Náttúrustofu Vestfjarða
Matthildur Helgadóttir, f.h. Snerpu ehf.
Kristján G. Jóhansson, f.h. Hraðfrystihúss Gunnvöru
Jón Sigurpálsson, f.h. Vestfjarða á miðöldum
Gísli Jón Hjaltason, f.h. Vestra ehf.
Magni Örvar Guðmundsson, f.h. Fjarðarnets ehf.
Elías Oddsson, framkvæmdastjóri, f.h. Miðfells ehf.
Ólafur Bjarni Halldórsson, f.h. Ísfangs ehf.
Elsa Arnardóttir, f.h. Félagsmálaráðuneytis, f.h. Fjölmenningarseturs Vestfjarða
Stefán Torfi Sigurðsson, f.h. Vífilfells
Sigríður Ragnarsdóttir, f.h. Tónlistarskóla Ísafjarðar
Aðalsteinn Óskarsson, f.h. Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða
Valdimar Halldórsson, f.h. Róta
Sigurborg Þorkelsdóttir, f.h. Atkvenna
Ragnheiður Hákonardóttir, f.h. Ylgs ehf.
Kristján G. Jóakimsson, f.h. Agar
Guðrún Guðmannsdóttir, f.h. Lífeyrissjóðs Vestfirðinga.