Háskólasetrið

Háskólasetur Vestfjarða er lítil stofnun á háskólastigi sem sett var á stofn árið 2005 en tók til starfa í janúar 2006. Við Háskólasetrið sjálft starfa að jafnaði um níu manns auk lausráðinna kennara. Í húsnæði Háskólaseturs starfa í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum. 

Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónar um 100 fjarnemum, það starfrækir meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði fyrir um 60-80 meistaranema auk einstaklingsmiðaðrar námsleið á meistarastigi í sjávartengdri nýsköpun sem nú er í endurskipulagningu. Þess utan býður Háskólasetrið upp á fjölbreytt sumarnámskeið.

Í gegnum fjarnámið sækja Vestfirðingar menntun án þess að þurfa að flytja úr heimabyggð sinni. Háskólasetrið sér fjarnemum fyrir hópvinnuaðstöðu og lestrarsölum. Fjarnemarnir hafa að jafnaði verið um 100 á ársgrundvelli. Síðustu ár hefur þróunin verið í átt að fleiri og smærri hópum, en heildarfjöldi hefur haldist stöðugur.

Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun var sett á laggirnar í september 2008 af þáverandi menntamálaráðherra og meistaranámið í sjávarbyggðafræði árið 2018. Námsmenn útskrifast frá Háskólanum á Akureyri en öll kennsla fer fram í Háskólasetri Vestfjarða. Námsleiðirnar eru alþjóðlegar, þverfaglegar og kenndar í lotum. Allar loturnar eru opnar þátttakendum frá íslenskum og erlendum háskólum og úr atvinnulífinu. Rúmlega 40 manns eru skráðir á fyrsta ári í námsleiðirnar auk álíka fjölda annars árs nemenda.

Meistaranám í sjávartengdri nýsköpun, sem nú er í endurskipulagningu, er einstaklingsmiðað nám sem boðið var upp á í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og HA. Markmið þess er að efla nýsköpun á Vestfjörðum og auka framboð staðbundins framhaldsnáms fyrir heimamenn.

Auk þessa skipuleggur Háskólasetrið fjölda sumarnámskeiða á Vestfjörðum og stendur jafnframt fyrir klæðskerasaumuðum námskeiðum fyrir innlenda og erlenda vettvangsskóla. Árlega leiðir starfsemi Háskólaseturs af sér um 4000 gistinætur.

Háskólasetur Vestfjarða er stærsta stofnunin í Vestrahúsinu á Ísafirði og leiðandi í samstarfi stofnana í rannsóknaklasa Vestfjarða. Alla jafna sinnir Háskólasetrið þó ekki rannsóknum nema í samstarfi við rannsóknarstofnanir innan og utan Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða er aðili að alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á vegum Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic), og hefur tekið þátt í verkefnum Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins.

Háskólasetur Vestfjarða leggur áherslu á gæðastarf og fylgir Bologna-kröfum evrópskra háskóla í samvinnu við innlenda og erlenda samstarfsháskóla sína.

Háskólasetrið er ung og sveigjanleg stofnun. Starfsmenn leggja sig fram við að þjóna nemendum og rannsóknarfólki á Vestfjörðum sem allra best samhliða því að veita öllum þeim, sem eru utan Vestfjarða og vilja tengjast litlu en heillandi rannsóknarumhverfi á Vestfjörðum, fyrirtaks þjónustu.