fimmtudagur 17. ágúst 2017

„Vestfirðir gagntóku mig“

Ellefu ár eru nú liðin síðan íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða hófu fyrst göngu sína og eru þau löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi Háskólasetursins og mannlífi Vestfjarða, einkum á síðsumrum. Þegar þetta er ritað um miðjan ágúst sitja tæplega sjötíu nemendur allsstaðar að úr heiminum yfir íslenskubókunum, sumir á sínu fyrsta íslenskunámskeiði en aðrir lengra komnir. Nærri má geta að hátt í þúsund einstaklingar hafi sótt Vestfirði heim á þessum áratug í þeim tilgangi að læra hið einstaka tungumál Íslendinga. 

Ingi Björn Guðnason, verkefnastjóri við Háskólasetrið, hefur til margra ára haft  veg og vanda að allri skipulagningu námskeiðanna, en fyrsta námskeiðið var haldið sumarið 2007. Árið eftir gerði Háskólasetrið samning við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, sem þá var, um að halda íslenskunámskeið fyrir alla Erasmus og Nordplus skiptinema sem kæmu til náms þá um haustið í íslenska háskóla. Hefur það námskeið síðan verið hornsteinninn í íslenskunámskeiðunum.

Hinir einu sönnu „Íslandsvinir“?

Að sögn Inga Björns er nemendahópurinn jafnan mjög blandaður,áberandi eru skiptinemar og nemendur sem eru að hefja fullt nám á Íslandi: „En svo er alltaf stór hópur fólks, á öllum aldri, sem hefur þennan brennandi áhuga á Íslandi og vill læra tungumálið til að tengjast landinu enn betur. Kannski eru þetta hinir sönnu „Íslandsvinir“? Svo fáum við einnig fólk sem hefur einfaldlega unun af því að læra ný tungumál og þá einmitt tungumál sem eru sérstök af einhverjum ástæðum. Fljótlega eftir að námskeiðin komust á ról urðum við líka vör við eftirspurn eftir námskeiðum fyrir lengra komna. Við höfum því verið að þróa slík námskeið undanfarin ár. Í ár er þessi hópur óvenju stór og telur 22 nemendur, þ.á m. nemendur sem eru að koma í annað, þriðja og jafnvel fjórða skiptið til okkar.“

Gott samstarf stofnana þvert yfir landið

Sambærileg námskeið eru haldin árlega í júlí á höfuðborgarsvæðinu á vegum Stofnunar Árna Magnússonar og Háskóla Íslands. Þau námskeið hafa lengi verið í boði og hefur alla tíð verið gott samstarf milli Háskólaseturs og Árnastofnunar á þessum vettvangi. Námskeiðin á Vestfjörðum eru jafnan í ágúst og er þeim nemendum sem ekki komast vestur á þeim tíma vísað suður - og öfugt. Einnig hefur nokkuð verið um að nemendur sæki vestfirsku námskeiðin eftir að þeir ljúka námskeiðunum í Reykjavík.

Hefðbundin kennsla brotin upp

Í grunninn eru námskeiðin þannig byggð upp að á morgnana sitja nemendur hefðbundna bekkjarkennslu þar sem kerfisbundið er farið í gegnum námsefnið með einum og sama kennaranum í eina, tvær eða þrjár vikur, allt eftir því hvaða námskeið um ræðir. Eftir hádegi eru svo ýmist í boði valnámskeið eða vettvangsferðir. Ingi Björn telur að valnámskeiðin séu ekki síðri kostur til að læra íslenskuna en hin hefðbundna kennsla: „Í valnámskeiðunum nálgumst við tungumálakennsluna eftir öðrum leiðum. Nemendur fara t.d. í búðarrall, syngja í kór til að æfa framburð, læra að blóta á íslensku og fræðast um íslenska rímnahefð svo eitthvað sé nefnt. Í þessum námskeiðum reynum við að nýta fólk á svæðinu sem er með tiltekna sérfræðiþekkingu. Þetta brýtur daginn upp og er oft kærkomið. Við höfum einnig farið í ferð á slóðir Gíslasögu í Haukadal og boðið nemendum upp á einleik Elfars Loga Hannessonar, leikara og leikstjóra í Kómedíuleikhúsinu, um Gísla. Þá hafa nemendur einnig verið duglegir að sækja Act Alone, einleikjahátíðina á Suðureyri, og stundum tekið mjög virkan þátt í hátíðinni.“

Ótvíræð samfélagsleg áhrif

Nærri lætur að um eitt þúsund einstaklingar hafi farið í gegnum íslenskunámskeiðin við Háskólasetrið frá upphafi. Slíkur gestafjöldi hefur ótvíræð áhrif á samfélagið hér fyrir vestan þótt erfitt geti reynst að leggja mælistiku á þau. Ávallt hefur hluti kennaranna komið annarsstaðar frá, þrautreyndir íslenskukennarar sem sérhæfa sig í kennslu fyrir útlendinga. En Háskólasetrið hefur einnig lagt sig fram við að nýta mannauðinn hér á svæðinu til kennslu og skapa þannig atvinnu, segir Ingi Björn og er ekki í vafa um samfélagslegu áhrifin: „Það segir sig sjálft að tugir nemenda sem dvelja á svæðinu í allt að þrjár vikur hljóta að vera ansi verðmætir ferðamenn. Þegar námskeiðin voru sem fjölmennust voru hér u.þ.b. 170 nemendur í þrjár vikur, það eru tæplega 3.600 gistinætur!

Ómetanlegt fyrir íslenska tungu og menningu

Ingi Björn bendir einnig á að nemendur bindast svæðinu mjög sterkum böndum og mjög margir snúa aftur, ýmist sem nemendur eða ferðamenn: „Ég gæti líka trúað að einmitt þetta fólk, sem er tilbúið að leggja það á sig að læra íslensku séu bestu sendiherrar Íslands og Vestfjarða á sínum heimaslóðum. Þetta er fólk sem hefur mikinn áhuga á landi og þjóð og ber hróðurinn víða. Það eru líka dæmi þess að nemendur sem hafa byrjað að læra íslensku hjá okkur hafi náð svo langt að þeir séu farnir að þýða íslenskar bókmenntir og nytjatexta. Slíkt fólk er ómetanlegt að mínu viti fyrir íslenska tungu og menningu.“

Með meistarapróf í annarsmálsfræðum

Einn af þeim reyndu kennurum sem lagt hafa leið sína vestur til að leggja íslenskunámskeiðunum lið er Gísli Hvanndal en hann kennir nú við Háskólasetrið annað sumarið í röð. Hann er íslenskufræðingur að mennt og hefur kennt íslensku sem annað mál í áratug. Í fyrra lauk hann einnig meistaranámi í annarsmálsfræðum í Brussel. Hann starfaði um fjögurra ára skeið sem íslenskukennari við Háskóla erlendra fræða í Beijing og hefur síðan kennt íslensku sem annað mál með nokkrum hléum, bæði hjá Mími símenntun og Háskóla Íslands.

Í fyrra hafði Gísli val um að kenna sumarnámskeið í Reykjavík eða breyta til og skella sér vestur. Hann valdi síðari kostinn: „Ég hafði þá ekki komið til Ísafjarðar nema einu sinni sem barn og hafði mikinn áhuga á að kynnast betur þessum hluta landsins og kenna í nýju umhverfi. Mér líkaði veran mjög vel í fyrra og lýsti strax yfir áhuga á að koma aftur, sem varð raunin. Mér þótti einstaklega vel staðið að allri skipulagningu og utanumhaldi námskeiðanna, þjónustan við kennara og nemendur var einstaklega góð og umhverfið frábært, hvort tveggja á Ísafirði og í Dýrafirði.“

Persónulegri dvöl fyrir vestan

Sum námskeiðanna fara fram á Ísafirði á meðan önnur eru aðeins í boði á Núpi í Dýrafirði, þar er rekið er sumarhótel en áður var þar starfræktur héraðsskóli. Gísli telur það hafa ýmsa kosti í för með sér fyrir nemendur að koma vestur á námskeið í stað þess að dvelja einvörðungu á höfuðborgarsvæðinu: „Ég held að það breyti ýmsu fyrir nemendurna, þó að það sé eflaust talsvert ólíkt fyrir Núps- og Ísafjarðarnemana. Ég þykist viss að tveggja vikna dvöl á Ísafirði sé talsvert persónulegri heldur en tveggja vikna dvöl í Reykjavík, sem er auðvitað mjög mikilvægt til þess að fá tækifæri til að nota tungumálið.“

Gísla heyrist jafnt á heimamönnum sem nemendum á íslenskunámskeiðunum að flestum líki þetta stutta samlífi mjög vel. „Ísfirðingar eru margir meðvitaðir um að hér sé fólk að læra íslensku og tekur nemunum því ekki ósjálfrátt sem ferðamönnum. Hvað tækifæri til íslenskunáms varðar hafa nemendur fyrst og fremst gott næði til að læra og njóta náttúrunnar, en einnig mjög góðan aðgang að kennurum sínum. Nemendurnir taka einnig valnámskeið á Ísafirði og hafa möguleika á að fara í ýmsar dagsferðir. Það þarf svo ekkert að fjölyrða um muninn á því að vera á Núpi eða í miðbæ Reykjavíkur í þrjár vikur.“

Íslenskan er fallegt tungumál

Líkt og Gísli Hvanndal þá er Stéphanie Klebetsanis, þýðandi frá Sviss sem búsett er í Berlín, komin vestur annað árið í röð, en hún kemur sem nemandi. Hún lifir og hrærist í tungumálum, móðurmálið er franska en hún talar einnig reiprennandi þýsku og ensku, smá í ítölsku og lærir nú íslensku af kappi.

Stéphanie er á framhaldsnámskeiði í íslensku og byggir þannig ofan á það sem hún lærði sem byrjandi í fyrrasumar. En hvaða notagildi hefur íslenskan fyrir hana? „Meginástæðan fyrir því að ég er að læra tungumálið er sú að mér finnst það svo fallegt. En þar sem ég er þýðandi gæti svo farið að ég bætti tungumálinu við pakkann hjá mér þegar fram í sækir. Mér vitanlega eru ekki mjög margir þýðendur á markaðinum sem þýða úr íslensku yfir á frönsku.“

Sigur Rós og Björk voru agnið

Áhugi fólks á erlendum tungumálum kviknar af ýmsum ástæðum en hvernig skyldi Stéphanie hafa komist í tæri við Ísland og íslenskuna? „Það er næstum því klisjukennt en ég uppgötvaði tónlistarmennina Sigur Rós og Björk um aldamótin og ég varð heilluð af íslenska tungumálinu. Ég var búsett í Montreal á þeim tíma og tók nokkra íslenskukúrsa þar en þá flutti kennarinn minn aftur heim til Reykjavíkur.  Þótt lífið gengi sinn vanagang blundaði Ísland alltaf í undirmeðvitundinni. Það var svo árið 2015 sem nánir vinir mínir buðu mér í óvissuferð til Reykjavíkur og meðfram suðurströndinni. Ég kolféll fyrir landinu. Þegar ég kom aftur heim til Þýskalands gúgglaði ég „íslenskukennari í Berlín“ og fann þá Ólaf Kristjánsson [innskot: Sem hefur kennt á íslenskunámskeiðum Háskólaseturs til margra ára]. Óli lagði til að ég kæmi til Ísafjarðar á byrjendanámskeiðið í fyrra, sem hann kenndi, og ég fór að ráðum hans.“

Þarf að leggja hart að sér til að leiðast

Stéphanie sér ekki eftir þeirri ákvörðun og hikaði ekki við að koma aftur í ár: „Vestfirðir gagntóku mig. Námskeiðið var vel skipulagt, það var krefjandi en einnig skemmtilegt. Og ég hitti ótrúlegt fólk sem ég hef haldið góðu sambandi við. Það gat því miður ekki komið aftur í ár en ég veit að viljinn var fyrir hendi. Íbúarnir hér eru almennt mjög vingjarnlegir og opnir og greinilega vanir erlendum nemendum og útlendingum. Þrátt fyrir smæð sína býður Ísafjörður upp á ótrúlegt úrval af menningarviðburðum. Maður þarf eiginlega að leggja hart að sér til að láta sér leiðast.“

Vaxandi áhugi sem Háskólasetrið vill byggja undir

Ljóst má vera af spjallinu við þremenningana Inga Björn, Gísla og Stéphanie að íslenskunámskeiðin sem Háskólasetur Vestfjarða hefur nú staðið fyrir í heilan áratug hafa lagt grunninn að aukinni íslenskukunnáttu fjölda fólks og án efa viðhaldið áhuga og þekkingu gestanna á landi og þjóð. Þótt fjöldi nemenda á námskeiðunum fyrir vestan hafi sveiflast milli ára má merkja vaxandi áhuga útlendinga á því að læra þetta framandi tungumál. Á meðan svo er mun Háskólasetrið áfram leggja sín lóð á vogarskálarnar og byggja á þeirri góðu reynslu sem orðin er til hér fyrir vestan.

---


Gísli Hvanndal, íslenskukennari, Stéphanie Klebetsanis, þýðandi og framhaldsnemi í íslensku, og Ingi Björn Guðnason, verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða og umsjónarmaður íslenskunámskeiða setursins.
Gísli Hvanndal, íslenskukennari, Stéphanie Klebetsanis, þýðandi og framhaldsnemi í íslensku, og Ingi Björn Guðnason, verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða og umsjónarmaður íslenskunámskeiða setursins.
1 af 6