miðvikudagur 7. desember 2016

Þang, þari og efld tengsl við Grænland

Í byrjun nóvember lögðu leið sína til Grænlands samstarfsmennirnir og nafnarnir Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, og Peter Krost, kennari í sjávareldi við Háskólasetrið. Ferðin var farin í þeim tilgangi að tengja Háskólasetrið betur samstarfsaðilum á Grænlandi. Einnig kynntu þeir félagar sér notkun þangs og þara og sóttu heim ýmsar stofnanir og fyrirtæki í Grænlandi. Til ferðarinnar nutu þeir styrks frá north2north verkefni Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic) sem sérstaklega er ætlað starfsmannaskiptum til og frá Danmörku, Grænlandi og Færeyja. Háskólasetrið hefur verið meðlimur í UArctic samtökum norðurslóðaháskólatofnanna frá árinu 2006.   

Tildrög Grænlandsferðarinnar má rekja til þess að Peter Krost var boðið sem aðalfyrirlesara á málþing um nýtingu þangs og þara hjá Matís í Reykjavík í janúar s.l., en málþingið var á vegum Det Kongelige Selskap for Norges Vel. Málþingsgestir voru m.a. frá Grænlandi og Danmörku og hvöttu þeir fulltrúa Háskólasetursins til að kynna sér betur möguleika á samstarfi við Grænland.

Tengslanetið eflt

Burtséð frá áhuga kennarans Peters á þangi og þara var meginmarkmið ferðarinnar að tengjast aftur og betur samstarfsaðilum Háskólasetursins á Grænlandi, en setrið var um skeið í Erasmus-samstarfi við Danmarks Tekniske Universitet/Artek í Sisimiut, sem sinnir aðallega tæknilegri menntun á Háskólastigi á Grænlandi. Auk þess hefur Háskólasetrið verið í reglulegu sambandi við Háskólann á Grænlandi allt frá árinu 2008 þó svo að grænlenskur nemandi hafi aldrei komið til Vestfjarða í tengslum við það samstarf. Á hinn bóginn hafa nemendur frá Háskólasetrinu farið til Grænlands í tengslum við nám í haf- og strandsvæðastjórnun. Má þar nefna Alexander Stubbing frá Iqaluit/Nunavut sem var skiptinemi Háskólaseturs hjá DTU/Artek á sínum tíma og Hildi Sólveigu Elvarsdóttur sem skrifaði lokaritgerð sína á Grænlandi.

Sjálfbær nýting þangs

Peter og Peter hittu á ferð sinni nær alla þá sem sem fást við nýtingu þangs og þara á Grænlandi en margar hugmyndir eru þar uppi um nýtingu á slíkum sjávargróðri. Í Sisimiut er að finna eina núverandi þangframleiðandann, eins og sakir standa, en það er Ulrik Lyberth og fyrirtæki hans Maki Seaweed. Hann rær á báti og tínir blaðþang sem rofnar eftir storma, þurrkar það og selur sem matvöru. Vænta má að hann fái betra verð fyrir kílóið en vestfirskir þangframleiðendur þótt heildarmagnið sé sennilega hverfandi. Rætt var um stækkunarmöguleika, endurnýjunartíma þangs og ýmis leyfismál auk möguleika á samstarfi. Þar sem Ulrik fiskar blaðþang, sem hefur hvort sem er rofnað, er ekkert rask á umhverfinu af þeirri starfsemi og má kalla það mjög sérstakt. Annars er talið að þang hafi um fimm ára endurnýjunartíma (þumalputtaregla) og þarf því að gæta þess að ganga ekki á auðlindina. Þess má geta að Hafrannsóknastofnun er einmitt um þessar mundir að meta sambærilegt vegna nýtingar í Breiðafirði. Á Grænlandi er vissulega nokkuð langt í að verið sé að ganga á auðlindina.

Uarctic – samtök háskólastofnana á norðurslóðum

Háskólasetur Vestfjarða hefur um árabil, eða allt frá árinu 2006, verið aðili að UArctic, samtökum háskólastofnana á norðurslóðum og var ferðin sem fyrr segir styrkt af north2north áætlun UArctic.

Í Nuuk áttu þeir félagar langt samtal við Dr. Ole Geertz-Hansen á Náttúrustofu Pinngortitaleriffik, sem sinnir m.a. stofnstærðarmælingum á Grænlandi og er aðili að UArcitc. Ole hefur verið í leiðangri við austurströnd Grænlands, þar sem eru þaraskógar langt norður með ströndinni, þrátt fyrir ísinn á þeim slóðum.

Einnig heimsóttu þeir DTU/ARTEK í Sisimiut og ræddu nemendaskipti við aðstoðarrektor og alþjóðafulltrúa hjá Ilisimatusarfik/Grønlands Universitet ásamt því að skoða ýmis fyrirtæki.

 

Grænlenskar kræsingar

Þeir félagar Peter og Peter þáðu að sjálfsögðu kostaboð í grænlenskar kræsingar en fyrstur til að bjóða var Kåre Henriksen, kennari við DTU/Artek. Hann bauð kollegunum frá Háskólasetrinu heim í moschus uxa en rektor Háskólans á Grænlandi, Tíne Pars, bauð síðan heim í hreindýrasteik, sem eiginmaður hennar hafði veitt sjálfur.

Afskekkt er afstætt

Það var skrýtið að stíga um borð í flugvélina í Vatnsmýrinni, þá sömu og fer venjulega til Ísafjarðar, heyra sömu flugfreyju kynna sama öryggisbúnað en fara síðan alla leið til Grænlands. Á heimleiðinni var það hinsvegar orðið sjálfsagt. Ferðalangar voru minntir á að spenna beltin þegar vélin flaug frá Grænlandsjökli út á Grænlandssund, en þá, hálfnuð í þriggja klukkustunda flugi í niðamyrkri, sáust ljós á jörðu niðri – ljósin frá Tasiilaq/Kulusuk. Ef einhverjum hefur nokkurn tímann dottið í hug að við værum afskekkt hér á Vestfjörðum þá er full ástæða til að endurskoða það í ljósi aðstæðna á Grænlandi.

 


Í Nuuk á Grænlandi.
Í Nuuk á Grænlandi.
1 af 5