fimmtudagur 21. maí 2015

„Það var allt á floti allsstaðar“

Undanfarin tvö ár hefur Herdís Sigurjónsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, verið hluti af kennaraliði Háskólaseturs Vestfjarða í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Herdís, sem einnig er doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu og áfallastjórnun, starfar nú hjá VSÓ Ráðgjöf en starfaði áður hjá Rauða Krossi Íslands í áratug auk þess að vera um langa hríð virk í sveitarstjórnarmálum í Mosfellsbæ. Hún kennir námskeið í hamfarastjórnun og dvelur jafnan á Ísafirði í þrjár vikur í senn í tengslum við námskeiðin.

Í febrúarbyrjun á þessu ári, þegar Herdís var einmitt stödd á Ísafirði við kennslu dróg til tíðinda. Umtalsverðir vatnavextir ollu miklum skemmdum í bænum og skapaðist ástand sem kallaði á viðbrögð almannavarna. Í kjölfar flóðanna leituðu bæjaryfirvöld til Herdísar og föluðust eftir ráðgjöf hennar auk þess sem Herdís nýtti sér viðburðina sem kennsluefni.

Að kynnast nærsamfélaginu

Herdís féllst á að deila frásögn sinni af því hvernig hún upplifði atburðarrás þessara daga á Ísafirði og hvernig hún fléttaði hana inn í kennsluna. „Á námskeiðinu hef ég lagt áherslu á að búa nemendur undir störf á strandsvæðum með því að kynna þeim nærsamfélagið. Þrátt fyrir að nemendur komi alls staðar að úr heiminum og nokkur munur sé á uppbyggingu viðbragðskerfa eftir löndum byggja öll kerfin á ákveðnum grunnstoðum í nærsamfélaginu. Því hef ég valið að gefa þeim innsýn í viðbragðskerfið á Vestfjörðum.  

Vettvangsferðir eru mikilvægur þáttur í kennslunni og fá nemendur að sjá aðstæður með eigin augum og tækifæri til að spyrja ábyrgðar- og viðbragðsaðila milliliðalaust. Í upphafi námskeiðsins í febrúar tókum við hús á Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar sem fór yfir hlutverk sveitarfélagsins í skipulagi almannavarna og innviði samfélagsins. Við fórum einnig á slökkviliðstöðina og skoðuðum búnaðinn og aðgerðastjórnstöð almannavarna, sem þar er til húsa.

Nemendur fengu fræðslu m.a. um hlutverk slökkviliðsins, staðsetningar stöðva í umdæminu og verkefni. Ekki þótti þeim leiðinlegt að fá að máta slökkvigallana og fá mynd af sér með Þorbirni Sveinssyni slökkviliðsstjóra. Við komum við á lögreglustöðinni og ræddum við Hlyn Snorrason, yfirlögregluþjón á Vestfjörðum, og fleiri laganna verði á stöðinni Þetta árið fékk Tindur, fámáll og fjórfættur laganna vörður klárlega mesta klappið frá nemendum.

Við fengum líka til okkar gestafyrirlesara í tíma sem sögðu frá rannsóknum og viðbúnaði. Má þar nefna Hörpu Grímsdóttur hjá Snjóflóðasetri Veðurstofunnar sem staðsett er á Ísafirði og eins sagði Björn Erlingsson, annar starfsmaður Veðurstofunnar á Ísafirði, okkur frá merkilegum flóðarannsóknum sem hann hefur unnið að á svæðinu undanfarin ár. Ómar Már Jónsson, fyrrum sveitarstjóri í Súðavík, kom vestur og sagði frá snjóflóðunum sem urðu á Vestfjörðum árið 1995 og endurreisn samfélagsins.

Bryndís Friðgeirsdóttir frá Rauða krossinum fór yfir starfið og eins tóku nokkrir nemendur þátt í æfingu með björgunarsveitinni. Auk þessa kom Rögnvaldur Ólafsson frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjórans og kynnti hlutverk Almannavarna á landsvísu og í nærsamfélaginu. Hann er Bolvíkingur og vann lengi sem lögreglumaður á svæðinu sem gefur honum hagnýta staðþekkingu. Allt var þetta gert til að nemendur fengju heildstæða mynd af viðbragðskerfi samfélagsins.

Flóðadagurinn mikli

Þegar ég leit út um gluggann sunnudaginn 8. febrúar 2015 hugsaði ég með mér að þetta yrði nú ljúfur innidagur. Rigningin barði rúðurnar og sá ég að það yrði ekki erfitt að halda sér að verki við yfirlestur verkefna. Það var ekkert sem benti til þess að dagurinn yrði jafn afdrifaríkur og reyndin varð.

Vegna mikillar úrkomu og leysinga úr fjallinu fyrir ofan bæinn hófst dæling vatns upp úr kjallara Heilbrigðsstofnunar Vestfjarða á sama tíma og ég var að hefja verkefnayfirferð. Um hádegi fór einnig að flæða á öðrum stöðum í bænum. Niðurföll yfirfylltust vegna vatnsflaumsins úr fjallinu og flæddi því vatn upp úr holræsakerfinu. Starfs­menn Ísafjarðarbæjar, slökkvilið, lög­regla og björg­un­arsveitar­menn aðstoðuðu bæjarbúa við björgun verðmæta fram á nótt. Fólst björgun m.a.í því að koma fyrir öflugum vatnsdælum og nota sandpoka til að beina vatni frá húsum og öðrum mannvirkjum.

Ég fór líka um bæinn og skoðaði flóðavæðið. Ég var búin að sjá nokkrar myndir á netinu yfir daginn, en að sjá með eigin augum var upplifun. Ég sá vatn gjósa upp úr brunnlokum, straumharða á renna niður brekku sem venjulega er akvegur í íbúðahverfi og nýja árfarvegi við húsgafl. Þegar ég kom að íþróttavöllunum um kvöldið voru bændur í óðaönn að dæla vatni af völlunum með haugsugum, sem að mínu mati var gott dæmi um að hugsa út fyrir kassann.

Þennan dag flæddi inn í hús við Túngötu, Pólgötu, Sólgötu, Strandgötu, Hrannargötu og Urðarveg. Á Gamla sjúkrahúsinu sem hýsir bóka-, skjala- og ljósmyndasafn varð einnig mikill leki og við Sundlaugina á Suðureyri rifnaði upp heitur pottur og leiðslur brotnuðu. Greinilegt var að allir lögðust á eitt í samfélaginu. Þetta voru mikil flóð, það mesta sem ég hafði séð fram að þessu, en alls ekki ósvipað því sem ég átti eftir að upplifa sjálf í heimabæ mínum Mosfellsbæ nokkrum vikum síðar þegar mikill snjór bráðnaði á nokkrum klukkutímum og allt fór á flot.

Lærdómsskýrsla og verkferlar

Þar sem ég starfa jafnframt hjá VSÓ Ráðgjöf varð það úr að Ísafjarðarbær fékk mig til aðstoðar eftir flóðin. Verkefnið felst í því að taka saman lærdómsskýrslu sem byggir á reynslu starfsmanna bæjarins og annarra við vinnuna, sem felst m.a. í fundum með starfsmönnum og að sjá hver gerði hvað og með hverjum, skoða áhrifasvæði vatnsflóðanna og bera saman við fyrri flóð og leggja til úrbætur byggðar á niðurstöðum úttektarinnar. Loks felst í verkefninu að móta verkferla fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins til að bregðast við slíkum flóðum og byggja þá á niðurstöðu skýrslunnar. Verkferlunum er ætlað að auka viðbragðsflýti, tryggja upplýsingagjöf  og gera starf og samhæfingu markvissari.  Með því að  tryggja sameiginlegan skilning allra hlutaðeigandi aðila fyrirfram er líka dregið úr líkum á því að dýrmætur tími fari í skipulagningu og misskilning þegar mikið liggur við.

Rannsóknir í nærsamfélaginu

Flóðin og viðbrögð á svæðinu urðu þannig hluti af hamfaranámskeiði mínu hjá Háskólasetrinu og upplýsti ég nemendur um vinnuna jafn óðum og eins hvernig tekist var á við afleiðingar vatnsflóðanna í samfélaginu. Þegar ég fór að skoða málið betur fann ég hamfaratengdar rannsóknir sem fyrrum nemendur höfðu unnið samfélaginu til góðs. Háskólasetrið átti einnig aðkomu að starfi Pollnefndarinnar svokölluðu sem skoðaði framtíðarskipan sportbátaaðstöðu og sjóvarna við Pollinn í Skutulsfirði. Skemmtilegt samfélagsverkefni þar sem skoðaðar voru mögulegar útfærslur af sjóvörnum fyrir Pollgötuna á Ísafirði sem gætu jafnframt nýst sem aðstaða fyrir sportbáta og hvernig hægt væri að auka aðgengi íbúa að fjörum og sjó við Pollgötu og Skutulsfjarðarbraut. 

Háskólasetrið og samfélagið

Ljóst er í mínum huga að tilvist Háskólaseturs í samfélaginu hefur leitt til rannsókna nemenda, nærsamfélaginu til góðs. Vísindaportið hefur einnig vakið athygli á því sem er að gerast á hverjum tíma og haldið opna fræðslufundi. Þess má geta að á föstudeginum eftir flóðin var haldinn fundur um flóðin sem bar yfirskriftina „Það var allt á floti alls staðar“, þar sem undirrituð fór yfir flóðin og afleiðingar. Þar skapaðist góð umræða þó svo að nokkrir fundargestir væru ómyrkir í máli og segðu farir sínar ekki sléttar í samskiptum við bæjaryfirvöld. Voru allir sem tjáðu sig þó sammála um að gott væri að ákvörðun lægi fyrir um að læra af reynslunni og bæta kerfið, þannig að betur tækist til ef til slíkra aðgerða kæmi í framtíðinni.

Tengsl við Háskólasetur Vestfjarða

Ég hef nokkuð velt fyrir mér við þessi skrif mín hvað Háskólasetrið er í raun mikils virði fyrir Vestfirði. Ég er ekki sérfræðingur í því hvernig hlutirnir hafa verið, en af því sem ég hef séð er ég sannfærð um að hægt sé að auka tengsl Háskólaseturs við samfélagið enn frekar. Ef ég horfi á hamfararannsóknir þá er mikil reynsla á svæðinu sem þarf að nýta með markvissum hætti og einnig niðurstöður þeirra rannsókna sem unnar hafa verið á svæðinu. Tengja þarf saman nemendur, fyrirtæki og stofnanir í samfélaginu og hvetja til frekari rannsókna á þessu sviði. Margþættur ágóði væri af slíkri tengingu. Myndi það bæði gefa tækifæri til rannsóknartengdra verkefna fyrir meistaranema á ýmsum þáttum nærsamfélaginu og auka um leið viðnámsþrótt samfélagsins.“

Herdís Sigurjónsdóttir


Nemendur á námskeiði Herdísar Sigurjónsdóttur í heimsókn á skrifstofu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Gísla Halldórs Halldórssonar.
Nemendur á námskeiði Herdísar Sigurjónsdóttur í heimsókn á skrifstofu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Gísla Halldórs Halldórssonar.
1 af 10