Samfélag haf- og strandsvæðanema á stóran stað í hjarta mínu
Fyrir tæpum sex árum flutti William Davies frá London til Ísafjarðar til að hefja nám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ýmsar ástæður réðu því að Will ákvað að yfirgefa heimaborg sína og setjast að í litlum og afskekktum bæ, sem bar nafn sem hann gat alls ekki borið fram og leit undarlega út á landakorti. Hann hafði aldrei komið til Íslands en ævintýraþrá og löngunin til að brjótast út úr viðjum vanans leiddu hann til Ísafjarðar haustið 2010.
Landafræði og menning Íslands heillaði
Nú er hann kominn vel á veg í doktorsnámi sínu í Leeds í Bretlandi og nýtir hvert tækifæri sem býðst til að koma til Íslands. Hann kynnti doktorsverkefni sitt á ráðstefnunni Arctic Circle í Reykjavík í október auk þess sem hann ætlar að verja bróðurpartinum af komandi sumri hér á landi. Við báðum Will að deila reynslu sinni af dvölinni á Ísafirði og hvernig það hefði komið til að hann á sínum tíma valdi Ísafjörð og meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun:
Flóttaleið úr „9-5 fangelsinu“
Í fyrsta lagi langaði mig að snúa aftur á vettvang sem ég var áhugasamur um og hafði stundað nám í (landafræði og sjálfbær þróun). Í öðru lagi virtist námið geta orðið flóttaleið út úr „9-5 fangelsinu“ í skrifstofuveröld höfuðborgarinnar. Í þriðja lagi var námsleiðin í boði á Íslandi sem hafði alltaf haft mikið aðdráttarafl í mínum huga, bæði vegna landafræðinnar og menningarinnar. Á þessum tíma hafði ég enga hugmynd um hve mikil áhrif þessi ákvörðun gæti haft á framtíð mína. Þegar ég lít núna til baka geri ég mér grein fyrir hve mikið dvöl mín á Ísafirði hefur mótað líf mitt. Og allt til hins betra.
Ísland kveikti áhugann á málefnum Norðurslóða
Það má í raun segja að ávinningurinn af náminu mínu í haf-og strandsvæðastjórnun sé þríþættur: Starfsframinn, útivistaráhuginn og vináttan. Hvað starfsferlinum viðkemur þá hefur þetta styrkt mig sem fræðimann, ekki síst vegna þeirra fjölbreyttu námskeiða sem í bjóðast í náminu. Mestu skiptir að reynsla mín á Íslandi kveikti áhuga minn á öllu því sem viðkemur málefnum Norðurslóða. Þegar gamli háskólinn minn heima á Englandi auglýsti doktorsnámsstöðu þar sem einblínt yrði á auðlindastjórnun á Norðurslóðum hafði ég þegar gott forskot. Örlög mín voru ráðin! Ég er að ljúka síðasta árinu mínu í doktorsnáminu þar sem ég rannsaka ýmsar hliðar á olíuleit á hafsbotni á Norðurslóðum. Þar skoða ég sérstaklega Grænland og þær hugmyndir sem uppi eru um tengsl mannsins við náttúruna. Þessar rannsóknir hafa leitt mig um allar norðurslóðir Evrópu. Ég hef verið gestarannsóknarmaður í miðstöð Norðurslóða í Lapplandi í Finnlandi, farið allmargar ferðir til Norðvestur-Grænlands og verið formlegur þátttakandi í bresku sendinefndinni á Arctic Circle ráðstefnunni í Reykjavík í haust. Allt er þetta ómetanleg reynsla sem ég get að hluta þakkað átján mánaða dvöl minni í litlum afskekktum bæ á Íslandi.
Áhuginn á útivist fékk loks að blómstra
Alla tíð hefur blundað í mér áhugi á náttúrunni og útivist en það var ekki fyrr en ég kom til Vestfjarða sem ég gat loks sleppt þeim áhuga lausum. Skyndilega varð afþreying miðborgarlífsins að víkja fyrir áhugamálum á borð við flugustangveiðar, fjallgöngu, gönguskíði og smölun á sauðfé. Ég tók þennan nýfundna útivistaráhuga með mér heim og nýti nú öll tækifæri sem gefast til útivistar. Það er erfitt að gleyma vestfirsku landslagi, svo óendanlega fallegt og stórbrotið sem það er. Ljúfar minningar í bland við svipmyndir af hafi og fjöllum hafa meitlað undirmeðvitund mína. Einlægur áhugi minn á vestfirsku umhverfi sést best í grein sem ég skrifaði nýlega um hjólreiðar á strandvegum.
Dýrmætur vinskapur sem varð til fyrir vestan
Þegar allt kemur til alls eru það trúlega vinaböndin, sem ég batt við furðulegan og dásamlegan hóp af fólki fyrir vestan, sem hefur haft einna mestu áhrifin á mig. Þetta er sérkennileg blanda af heimamönnum og heimshornaflökkurum þar sem allir eru sláandi ólíkir en eiga samt svo margt sameiginlegt. Þótt meira en fimm ár séu liðin hefur vinskapurinn við marga samnemendur mína haldist traustur. Frá útskrift hef ég heimsótt þá og þeir hafa sótt mig heim. Við höfum leitað að hnísum við Pembrokeshire ströndina, farið í gönguskíðaferðir í mánaskini og fjörlegum norðurljósum í Norður-Noregi, tjaldað í óbyggðum Bresku Kólombíu og kófsvitnað í sauna um borð í mikilfenglegu viðarskipi sem liggur við festar í miðborg Helsinki. Samfélag haf- og strandsvæðanema á því stóran stað í hjarta mínu.
Ætlar að upplifa íslensk sumar í fyrsta skipti
Ég er svo lánsamur að vera aftur á leið til Ísafjarðar í sumar þar sem ég ætla að dvelja í Háskólasetrinu um hríð. Ég hlakka til að sjá hvernig Háskólasetrið og meistaranámsleiðin hafa þróast á þessum árum sem liðin eru. Ég er líka spenntur fyrir því að upplifa íslenskt sumar í fyrsta skipti. Þótt ég hafi margoft komið til Íslands hefur mér einhvern veginn tekist að vera bara þar um haust og vetur og ég vil mjög gjarnan leiðrétta það.