Rannsókn um gildi kríuvarpa studd af Nýsköpunarsjóði námsmanna
Rannsóknahópur frá Háskólasetri Vestfjarða og Háskóla Íslands hefur lokið við verkefni sem fram fór í sumar og fjallar um gildi kríuvarpa fyrir æðarbændur og æðardúnsrækt. Verkefnið var stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og var ætlað sem framhald af meistaraprófsrannsókn Eliza-Jane Morin um áhrif æðarbúskapar á kríuvarp á Íslandi. Dr. Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur við Háskóla Íslands, var leiðbeinandi þess verkefnis en rannsóknin sem fram fór í sumar var einmitt leidd af henni og dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóra Háskólaseturs. Catherine og Freydís leibeindu tveimur nemendum í sumar, þeim Hjörleifi Finnssyni, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið og Sigurlaugu Sigurðardóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Eftirfarandi umfjöllun um verkefnið, eftir fjórmenningana, birtist í Bændablaðinu í október síðastliðnum. Niðurstöður verkefnisins, ásamt niðurstöðum ritgerðar Elizu Morin, vera svo birtar síðar sem hluti af viðameiri vísindaútgáfu.
Gildi kríuvarpa fyrir æðarbændur og æðardúnsrækt
Æðarrækt hefur verið stunduð skipulega á Íslandi a.m.k frá 19 öld og er hið einstaka samband manns og æðar, þar sem annar lætur té vernd en hinn dún, Íslendingum vel kunn. En hvaða áhrif hefur æðarrækt á aðrar fugla- og dýrategundir? Eru fleiri sem njóta góðs af þessu sérstaka sambýli?
Til að svara þessari spurningu fyrir hönd kríunnar hóf Eliza-Jane Morin, rannsókn á áhrifum athafna og viðhorfa æðarbanda á varpárangur kría, árið 2019. Rannsóknina gerði Eliza sem hluta af meistararitgerð sinni í haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða, undir enska heitinu Farming for Conservation: How Eiderdown Farmers’ Practices and Perspectives Impact Breeding Arctic Terns in Iceland, sem hún og varði í maí 2020. Leiðbeinendur Elizu voru þær Freydís Vigfúsdóttir, Háskóla Íslands og Catherine Chambers, Háskólasetri Vestfjarða.
Í beinu framhaldi, fengu svo Háskóli Íslands og Háskólasetur Vestfjarða styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna til að halda áfram rannsóknum á tengslum kría og æðarvarpa undir heitinu Gildi kríuvarpa fyrir æðabændur og æðardúnsrækt. Til verksins fengu leiðbeinendurnir Freydís og Catherine meistaranemanna, Sigurlaugu Sigurðardóttur og Hjörleif Finnsson til liðs við sig.
Líffræðilegar mælingar og viðtöl við æðarbændur
Sigurlaug tók upp líffræðirannsóknir Elizu og mældi ýmsa varptengda þætti t.d. rúmmál eggja og mat líkamsástand fullorðinna kría innan og utan varðra æðarvarpa, til að leiða í ljós hvort munur væri á varpárangri og líkamsástandi kría eftir varpstöðum. Hjörleifur tók viðtöl við valda æðarbændur til að dýpka skilning á ýmsum félaglegum þáttum tengdum æðarvörpum og vörnum þeirra sem Eliza hafði hafið rannsókn á með spurningakönnun sinni. Allar þessa rannsóknir voru gerðar með hjálp og í samstarfi við æðarbændur og Æðarræktarfélag Íslands, en án þeirra hefði lítið orðið úr rannsóknum.
Niðurstöður, væntar og óvæntar
Eflaust þykir mörgum reynslumiklum æðarbændum margar niðurstöður vísindamannanna fyrirsjáanlegar, en engu að síður er mikilvægt að koma sjálfsagðri þekkingu á vísindalegt form. Hinsvegar, þegar spurninga er skipulega spurt, koma oftast einhverjir óvæntir hlutir í ljós. Hér á eftir fylgir örstutt og einfölduð umfjöllun um helstu niðurstöður rannsóknanna.
Hvers vegna æðarrækt
Að meðaltali eru flestir æðarræktendur er komnir af léttasta skeiði og hafa flestir stundað æðarrækt í meira en 20 ár. Samkvæmt rannsóknunum virðast ástæður fólks fyrir að stunda æðarrækt ekki vera fyrst og fremst efnahagslegar. Hlutfall heilsársbúsetu (minna en helmingur) og þeirra sem svara að tekjur af æðarrækt skipti litlu eða engu máli bendir til áhugamennsku frekar en atvinnumennsku þeirra. Aðrir þættir á borð við átthagatengsl, fjölskyldutengsl og tengsl við náttúruna virðast ráða miklu um það að fólk fari út í æðarrækt.
Varnir Æðarvarpa
Varnir æðarvarpa eru í raun grunnforsenda æðarræktar envarnirnar eru kjarninn í samvist manns og æðar. Sögulega er ljóst að stór og þétt æðarvörp á landi verða fyrst til með skipulegum vörnum. Þungamiðjan í vörnum æðarvarpa er vöktunin, sem er í dag óaðskiljanleg skotveiðum og/eða fælingu með skotvopnum. Lang mesti tíminn (og þar með óbeint fjármagnið) fer í vöktunina, sem beinist í vörpum á landi að miklu leyti að refnum. Það er ljóst að hin mikla vöktun (allt að 3 á vakt allar nætur) væri æðarbændum afar dýr, ef hún væri ekki að stórum hluta rekin með sjálfboðaliðum. Glíman við refinn virðist draga að sér áhugamenn um þær veiðar, svo aldrei er skortur af sjálfboðaliðum, ef vöktunin er eigendum sjálfum ofviða. Engu að síður, er það mögulega mikilvægt fyrir æðarrækt í landinu að þróa aðrar aðferðir en vöktun með skotveiðum, þó ekki væri til annars en að auka arðsemi greinarinnar. Notkun myndavéla og hreyfiskynjara, betri refagirðingar og aðferðafræði óðalshelgunar með lykt, hundum og fælingu gefa vísbendingar um hvar væri mögulegt að þróa frekari varnir og áhugavert væri að rannsaka frekar.
Krían nýtur góðs af vörnum
Það að afræningjum sé haldið skipulega frá varplandi dregur að sér kríur. Mælingar á upphafi varptíma, rúmmáli eggja, hreiðurstærð og líkamsstuðli kría sýna að afkoma þeirra og varpárangur er betri innan varins æðarvarps en á óvörðum svæðum. Ennfremur eru vísbendingar þess eðlis að stór þétt kríuvörp fyrst orðið til í kjölfar æðarræktar á vörðum svæðum hennar. Hið eina neikvæða fyrir kríur í gegnum tíðina hefur verið að þar hefur oft verið stunduð tínsla á kríueggjum, og stundum í svo miklu magni einhverjir að sumir viðmælenda okkar hafi talið eftirá að sú tínsla hafi valdið hruni í fjölda kría í vörpum sínum. Þessi hefð virðist þó að miklu leyti vera að leggjast af.
“Hugaður hetjufugl”
Það kemur ekki sérstaklega á óvart að æðarbændur hafa mjög jákvæða afstöðu til kría í varpi sínu, og vilja lang flestir fá fleiri kríur til sín. Enda er það svo að kríur taka þátt í vörnum æðarvarps með árásum sínum á afræningja, þótt flestir séu sammála um það að hún hreki ekki burt mink eða ref. Æðarbændur eru þó almennt sammála um að krían sé viðvörunarbjallan þeirra. Þeir geta séð af hegðun hennar hvaða afræningi er mættur og tilfelli refs og minks nákvæma staðsetningu hans. Þyrillin, eða trektin, sem kríuger myndar yfir mink og ref, vísar svo nákvæmlega á þá að æðarbóndi sagði að hann gæti skotið blindandi á ref með því að miða neðst í trektina. Einn galla hefur þó krían sem aðstoð við varnir, og það er að hún mætir helst til seint. Æðarvarp er iðulega hafið í kringum 10 maí en sjaldgæft er að krían sé orpin fyrr en í lok maí eða byrjun júní.
Tengsl æðarbænda við náttúruna
Fáir eyða jafn miklum tíma út í náttúrunni og æðarbændur á vorin við vöktun varpa sinna, sem óneitanlega leiðir til tengslamyndunar við æðarfuglinn, afræningjana og náttúruna almennt. Tengsl æðarbænda eru hinsvegar flóknari en svo að segja megi að viðhorf þeirra til hennar mótist af einhverjum einum þætti. Sem dæmi væri það ekki órökrétt tilgáta að ætla æðarbændum að vera í nöp við varga í réttu hlutfalli við skaðsemi þeirra fyrir æðarvarpið. Niðurstöður rannsóknanna styðja það hinsvegar ekki. Þvert á móti, benda þær til þess að æðarbændur hafi frekar jákvæð viðhorf til refs og hrafns þrátt fyrir gríðarlega fyrirhöfn þeirra að verja vörp fyrir þeim fyrrnefnda. Hrafni og ref fylgdu (í viðtölunum) oftar en ekki lýsingarorðin, “skemmtilegur, klókur, stórkostlegur” ólíkt máfi og mink sem fylgdu lýsingarorðin “leiðinlegur” og “grimmur”. Þessi tengsl þurfa þó frekari rannsókna við.
Lokaorð
Meginniðurstaða rannsóknanna er að kríum vegni betur innan varinna æðarvarpa og þar með að æðarækt sé mikilvægur þáttur í verndun hennar á Íslandi. Krían hefur átt undir högg að sækja á síðustu og verstu árum hamfarahlýnunnar með sveiflum á fæðustofnum hennar eins og sandsíli. Ef æðarrækt hnignar, t.a.m vegna ástands markaða, og vörðum æðarvörpum fækkar má búast við verri afkomu kríu í kjölfarið. Því er æðarrækt ekki aðeins mikilvæg fyrir afkomu æðarfugla, heldur einnig kríu, og mögulega fjölda annara fuglategunda, en það á enn eftir að rannsaka.
Höfundar vilja þakka öllum sem tóku þátt í rannsókninni, þeim sem lögðu henni lið, Guðrúnu Gauksdóttur og Æðarræktarfélagi Íslands fyrir samvinnuna.
Höfundar:
Dr. Catherine Chambers
Eliza Jane-Morin
Dr. Freydís Vigfúsdóttir
Hjörleifur Finnsson
Sigurlaug Sigurðardóttir