fimmtudagur 15. september 2016

Rannsókn á nýtingu varma úr sjó

Nýverið varði Majid Eskafi meistarprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun um möguleika þess að nýta varma úr sjó við strendur Íslands. Rannsókn hans byggir á mælingum sem gerðar voru í Önundarfirði á tólf mánaða tímabili frá 1. apríl 2015 til 1. apríl 2016. Majid setti saman skemmtilegt myndband sem sýnir m.a. sjósettningu mælitækjanna á mismunandi stöðum í Önundarfirði ásamt gagnaöflun og viðhaldi þeirra yfir tímabilið.

Mælitækin og staðsetning þeirra

Ólíkir staðir í Önundarfirði voru valdir til að afla gagnanna. „ Í rannsókninni er sjávarhitinn mældur með tveimur tegundum mælitækja sem var sökkt í Önundarfirði með aðstoð GPS staðsetningarbúnaðs“, segir Majid Eskafi. Bæði mælitækin eru framleidd og þróuð á Íslandi annarsvegar er um að ræða Starmon mini tækið frá Stjörnu-Odda og hinsvegar SM4 sem ísfirska fyrirtækið Póls hefur þróað.

Fjórar staðsetningar voru valdar fyrir gagnaöflunina en ákveðnir þættir stýrðu staðsettningunni. „Almennt séð er reynt að staðsetja mælipunkta svona rannsókna nálægt hitaveitukerfi eða þéttbýli. Þetta er gert til að drag úr kostnaði við hugsanlega uppsetningu búnaðar til að afla varma úr sjó. Það var því mikilvægt að afla gagna fyrir rannsóknina nálægt Flateyri. Þessvegna var mælitækjunum komið fyrir í kringum eyrina sem þorpið stendur á,“ útskýr Majid.

Erfið veðrátta

Veðuráttan á Íslandi getur verið krefjandi fyrir svona verkefni sérstaklega yfir vetrartímann. Rannsókn Majids fór ekki varhluta af þessu en smávægileg vandamál komu upp vegna veðurs. „Eitt mælitæki var staðsett við sunnanverðan Önundarfjörð nærri Valþjófsdal, en við töpuðum því um veturinn, sennilega vegna erfiðrar veðráttu og aðstæðna í sjó.“ Sem betur fer gat rannsóknin þó áfram haft fjóra mælipunkta því Gísli Jón Kristjánsson gaf aðgang að mælingum tækis sem var í eldissjókví í firðinum.

Samstarf nemanda við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu

Meistaraprófsverkefni Majids var unnið í samstarfi við Orkubú Vestfjarða. Útibú Hafrannsóknarstofunuar á Ísafirði hafði umsjón með vettvangsvinnu og söfnun gagna fyrir Orkubúið. „Þetta samstarf gekk allt saman mjög vel og eins samstarfið við Gísla Jón, eignda bátsins, og Póls á Ísafirði. Allt var mjög skipulagt og fumlaust og það kann ég mjög vel að meta“, segir Majid.

Majid er frá Íran en þar í landi hefur hann talsverða reynslu af vettvangsrannsóknum, mælingum, gagnaöflun og viðhaldi mælitækja. „En ég hafði enga reynslu af vinnu í köldum sjó sem gat jafnvel verið við frostmark. Hvað þá af vinnu við erfiða veðráttu á borð við þá sem hér getur verið. Svo þetta var nokkuð erfitt en að sama skapi mjög áhugavert“, segir Majid og bætir því við að almennt séð finnist honum öll vísindavinna áhugaverð, hvort sem það er í heitu eða köldu loftslagi.

Rannsóknarvinna Majids hefur staðið yfir í næstum 17 mánuði og nú þegar verkinu er lokið er áhugavert að vita hvert stefnan sé tekin næst. „Það er þekkt að sjávarhiti og sjávarstraumar spila stóra rullu hvað fiskeldi varðar. Módelið sem ég nota í meistaraprófsverkefninu mætti yfirfæra á ólíka firði þar sem fiskeldi er stundað. Ég hef fundað með fiskeldisaðilum varðandi þetta. Kannski fer ég af stað með nýtt verkefni með einhverjum af þeim og vonandi getur þetta nýst fiskeldinu á svæðinu. Engu að síður er ég alvarlega að íhuga að halda áfram í doktorsnám og stefna þannig á starfsframa í vísindum, eins og ég nefndi við vitali við BB fyrr á þessu ári.“

Hvert sem Majid stefnir í framtíðinni er a.m.k. ljóst að verkefni hans hefur svarað ákveðnum spurningum hvað varðar nýtingu á varma úr sjó auk þess sem það gæti nýst á öðrum sviðum á borð við fiskeldi.


Majid Eskafi rannsakaði möguleika á nýtingu varma úr sjó sem orkugjafa í meistaraprófsverkefni sínu.
Majid Eskafi rannsakaði möguleika á nýtingu varma úr sjó sem orkugjafa í meistaraprófsverkefni sínu.