föstudagur 24. janúar 2014

Ræða rannsóknir á hættumati vegna sjávarflóða

Prófessor Mike Phillips, fastur gestakennari við Háskólasetrið, og Björn Erlingsson, sérfræðingur í sjávarflóðum við útibú Veðurstofunnar á Ísafirði, ræddu sameiginlegt rannsóknarsvið sitt, áhættumat vegna sjávarflóða, á meðan á dvöl prófessor Phillips stóð hér á Ísafirði fyrr í mánuðinum.

Prófessor Phillips er aðstoðarrektor rannsókna og nýsköpunar við háskólann í Wales og ritstjóri nýlegrarbókar um áhættumat sjávarflóða láglendra ferðamannstaða á litlum eyjum. Hann hefur verið viðloðandi meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun frá upphafi bæði með kennslu og leiðbeiningu lokaverkefna. Áður en prófessor Phillips tók við aðstoðarrektorsstöðunni í hinum nýsameinaða háskóla í Wales var hann sviðsforseti Swansea Metropolitan School of Built and Natural Environment þar sem hann stundaði rannsóknir og kennslu í strandsvæðastjórnun bæði frá sjónarhorni hafeðlisfræði og mannvistarlandfræði. Námskeið prófessors Phillips við Háskólasetrið, Physical Processes of Coastal and Marine Environments, fjallar meðal annars um eðlisræna ferla stranda og breytingar strandlínunnar vegna loftslagsbreytinga og hækkunar sjávarmáls. Auk þess er fjallað um viðbrögð til að verjast landbroti hvort sem það er með stórtækum framkvæmdum eða mýkri lausnum. „Það er alltaf betra að láta öldurnar vinna með þér í staðinn fyrir að vinna gegn þeim“, útskýrir prófessor Phillips og tekur fram að mýkri lausnir hugnist honum betur, „að minnsta kosti ef það er pláss fyrir slíkar lausnir.“ Sem dæmi fjallaði hann um tækifæri og takmarkanir manngerðra neðansjávarrifa, sem ekki eru sýnileg, til að verja ströndina.

Björn Erlingsson vinnur að hættumati sjávarflóða fyrir Veðurstofu Íslands í útibúi hennar hér á Ísafirði. Síðastliðið haust hóf sjávarflóðadeild VÍ, Í samstarfi við Teiknistofuna Eik, vinnu við tilraunaverkefni um áhættumat fyrir láglendar byggðir á Vestfjörðum sem er hliðstætt hættumati Snjóflóðaseturs VÍ vegna snjóflóða. „Þótt sama hafið liggi að smáum og stórum byggðalögum glíma smærri byggðalöginn við annarsskonar áskoranir“, bendir Björn á. „Vanalega er um að ræða stærra landsvæði í þessum smáu byggðalögum og minni fjármuni til að fást við vandann en janframt færri mannvirki sem þarf að verja. Þetta þýðir að kostnaðar og ábatagreining getur leitt til gjörólíkra lausna en í tilfellum stórra borga.“

Verkefni þeirra Björns Erlingssonar og Mike Phillips tengjast náið og því er ekki að undra að þeir séu farnir að skoða möguleika á samstarfi í rannsóknum sínum. Mike Phillips orðaði þetta vel á eftirfarandi hátt: „Þú kemur á heimsenda, kennir skörpum nemendum og rekst svo á vísindamenn sem hafa sömu rannsóknaráhugamál og þú sjálfur. Þetta er magnað og einmitt það sem mér líkar svo vel við Ísafjörð.“