þriðjudagur 22. desember 2015

Plastétandi sjófuglar rannsakaðir á Ísafirði

Ég kom í fyrsta sinn til Íslands í febrúar árið 2010. Sól skein í heiði á Ísafirði þegar vélin lenti. Síðar komumst við að því að það var algjör undantekning. Snjór lá yfir öllu og við vorum spennt fyrir ævintýrunum framundan. Við (Carla, Marlous og ég, þýskir og hollenskir nemar við Van Larenstein háskólann í hagnýtum vísindum í Hollandi) stunduðum öll BA nám í haf- og strandsvæðastjórnun við skólann. Við fengum einstakt tækifæri til að fara erlendis í sex mánuði til náms, en ekki nóg með það heldur fengum við að fara alla leið til Ísafjarðar sem er að finna á hinum villta Vestfjarðarkjálka, en bærinn telur aðeins 2500 íbúa! Við vorum fyrstu nemarnir af okkar tagi sem höfðum möguleika á að stunda nám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða en síðan þá hafa hollenskir nemar heimsótt Vestfirði nær árlega. Það er frábært tækifæri fyrir nemendur og góð tilbreyting fyrir nemendasamfélagið í bænum.

Sjófuglar innbyrða fljótandi plast á yfirborði sjávar

Áður en ég fór að heiman hafði ég náð samkomulagi við Jan van Franeker, hollenskan sjávarlíffræðing við hafrannsóknastofnunina IMARES. Ef mér tækist að finna fjörutíu dauða fýla væri hann reiðubúinn til að leiðbeina mér í starfsnáminu, sem mér var skylt að taka eftir Íslandsdvölina. Hljómar þetta undarlega? Ég skal útskýra: Jan hefur stundað rannsóknir á fýlum á norðurslóðum allt frá því á níunda áratugnum. Fýllinn er einstaklega fallegur sjófugl sem finnst á öllu norðanverðu Atlantshafinu þar sem hann eyðir allri ævinni, ef frá er talinn fengitíminn. Þessi fuglategund hefur þann hræðilega sið að nærast reglulega á plasti. Ýmiss úrgangur, einkum plast, finnst í öllum höfum, á öllum dýptum, í allskyns stærðum, litum, lögun og af fjölbreyttum uppruna. Þú hefur væntanlega séð dapurlegar myndir af villtum dýrum flæktum í plastúrgangi, t.d. utan af drykkjarföngum eða veiðarfærum. Sú mengun er sýnileg. Hinsvegar eru fjölmargar dýrategundir í heiminum, einkum sjófuglar, þekktar fyrir að innbyrða litlar plastagnir sem fljóta á yfirborði sjávar.

Eins og ég nefndi hér að ofan stundaði Jan rannsóknir á þessum plastétandi fýlum og ég heillaðist samstundis af verkum hans. Hann hafði safnað upplýsingum um fugla af öllu Norðursjávarsvæðinu, allt frá Færeyjum og Bjarnareyju að norðausturhluta Kanada. Það var hinsvegar aðeins einn auður blettur á kortinu – Ísland. Þar sem Jan hafði ekki tekist að fjármagna víðtækari rannsóknir samþykkti hann að leiðbeina mér að því gefnu að mér tækist að finna a.m.k. fjörutíu dauða fýla á Íslandi.

Heimurinn verður svo agnarsmár á Íslandi

 Og hingað vorum við þá komin – í hörkugaddi umvafin vingjarnlegum nemendum og hjálpfúsum Íslendingum. Ég held að ég hafi haft samband við alla vísindamenn Íslands í örvæntingarfullri tilraun til að verða mér úti um þessa blessuðu fýla. Það kom svo loks í ljós að rétta manneskjan starfaði bara nokkrum hurðum fjær mér hér í Háskólasetri Vestfjarða, meira að segja undir sama þaki. Einmitt þetta lærði ég mjög hratt á Íslandi: Heimurinn er svo agnarsmár! Ef hann minnkar mikið meira verð ég á endanum minn eigin nágranni. Hjalti Karlsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar Íslands á Ísafirði, aðstoðaði mig við að ná fýlunum af línubátunum hér en fuglarnir hafna stundum óvart í veiðarfærunum. Þeir leggjast á línubeituna, flækjast í línunum og drukkna.

Þegar upp var staðið hafði mér tekist að ná í 58 ferska, dauða og blauta fugla og enn á ný sýndu Íslendingarnir gestrisni sína í verki. Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík, sem er nágrannasveitarfélag Ísafjarðar, bauð mér aðstöðu á rannsóknastofunni sinni fyrir krufninguna. Ég er ekki viss um að þeir hafi fyrirfram gert sér grein fyrir afleiðingunum. Jafnvel nýdauðir fýlar gefa frá sér þessa undarlegu og einkennandi lykt sem smýgur um allt og situr á öllum og í öllu sem hún kemur nálægt. Jafnvel þótt maður notaði alltaf hanska við krufninguna var ekki hjá því komist að finna fýlabragð af samlokunum sínum í nokkra daga á eftir.

Niðurstöður rannsóknanna birtar í ritrýndu vísindatímariti

Niðurstöður rannsóknanna komu ekki á óvart en þær voru engu að síður dapurlegar. Þér kann að þykja Ísland afskekkt en þá hefurðu heldur ekki komið til Ísafjarðar. Á vetrum þarf oft að fella niður áætlunarflug vegna veðurs og sömuleiðis lokast stundum þær fáu landleiðir sem eru í boði vegna ófærðar. Þrátt fyrir að svæðið sé nánast í óbyggðum og víðsfjarri stærra þéttbýli kemur það ekki í veg fyrir að plast berist í fugla. Allt að 79 prósent af fuglunum mínum innihéldu a.m.k. eina plastögn. Að meðaltali höfðu fýlarnir innbyrt 0.13 gr af plasti og voru að meðaltali með sex plasthluti í maganum. Engu að síður er þetta mun minna en á þéttbýlli svæðum s.s. við Norðursjóinn þar sem plastagnir hafa fundist í allt að 95 prósent fugla (36 hlutir að meðaltali sem vógu 0.33 gr). Þessar niðurstöður urðu til þess að leiðbeinandinn minn gaf mér færi á að birta stutta grein í ritrýnda vísindatímaritinu Polar Biology.

Stuðningur heimamanna gerir doktorsnám mögulegt

Þegar þessu verkefni lauk ákváðum við Jan að halda samstarfi okkar áfram og allar götur síðan hef ég unnið fyrir hann og með honum að ýmsum verkefnum sem tengjast plastúrgangi. Síðan sneri ég aftur til Íslands árið 2014. Ég hafði þá lokið grunnnáminu mínu, öðlast reynslu á rannsóknastofnun og var reiðubúin til að hefja meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði. Fjöllin, hafið og snjórinn, vingjarnlegt fólk í lopapeysum, verslunin Hamraborg (þar sem þú færð ódýrar pizzur og ís langt fram eftir kvöldi), bjórbingó, pöbba-quiz, kajakróðrar og norðurljós. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað ég hafði í raun saknað alls þessa. Því miður tókst mér ekki að útvega fleiri fugla af línubátunum svo mér hefur enn ekki tekist að halda áfram með litlu íslensku rannsóknina mína. En hver veit?

Í meistaranáminu hitt ég stórkostlega einstaklinga, brjálaða lífræðinga, náttúruverndarsinna og æðislega stærðfræðinga og allir deila þeir sömu ástríðunni fyrir hafinu og fólkinu sem býr við það. Um þessar mundir er ég að leggja drögin að doktorsverkefninu mínu, og hvað heldurðu...? Það kemur væntanlega ekki á óvart að ég ætla að rannsaka plast í sjófuglum og Jan verður leiðbeinandinn minn. Ekkert af þessu væri mögulegt án stuðningsins sem ég hef fengið frá heimamönnum á Ísafirði, í þessum fallega litla bæ, sem húkir undir hlíðum snarbrattra fjalla. Ef þú færð einhverntímann tækifæri til að fara þangað, þá skaltu grípa það. Það kemur vissulega fyrir að það sé ást við aðra sýn því það getur tekið tíma að venjast aðstæðum, en svo munu töfrarnir taka völdin. Ísafjörður er ávandabindandi og þegar hann hefur klófest þig muntu skilja af hverju ég sit hér í Hollandi, skrifa þennan virðingarvott og dásama þennan litla stað lengst úti á norðurhjara veraldar.

Susanne Kühn

(Susanne lýkur meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða í janúar 2016. Í ritgerð sinn fjallar Susanne um ásókn fýla í línubeitu við Færeyjar. Fjallað er um efnahagslegt jafnvægi milli þess tjóns sem fýllinn veldur og þess kostnaðar sem hlytist af því að reyna að draga úr því að sjófuglar verði meðafli við strendur Færeyja.)


Susanne Kühn greinir sýni úr íslenskum fýl á rannsóknastofu Náttúrustofu Vestfjarða.
Susanne Kühn greinir sýni úr íslenskum fýl á rannsóknastofu Náttúrustofu Vestfjarða.
1 af 4