Nema úti í guðsgrænni náttúrunni
Undanfarin ár hefur það verið fastur liður á haustönn nýrra haf- og strandsvæðastjórnunarnema Háskólaseturs Vestfjarða að fara í vettvangsferð á afskekkt svæði í nálægð Ísafjarðar. Ferðin er daglöng og í henni kynnast nemarnir ýmsu af því besta sem náttúra Vestfjarða hefur upp á að bjóða.
Nýnemar haustsins 2017 fóru í hina árlegu ferð nú í lok september og urðu Hesteyri í Jökulfjörðum og Vigur í Ísafjarðardjúpi fyrir valinu. Ferðin tókst í alla staði vel og naut hópurinn lífríkis Vestfjarða í einmuna blíðu, eins og sjá má á myndum sem fylgja hér.
Fjölbreyttir fyrirlestrar hér og þar
Siglt var með Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar áleiðis til Hesteyrar þar sem nemendur fengu bæði að njóta náttúrufegurðar og kyrrðar en ekki síður fræðast um mannlíf svæðisins og tengsl þess við líffræðilega þætti eins og hvala- og síldargengd. Með hópnum voru þær Catherine Chambers, fagstjóri haf- og strandsvæðastjórnunarnámsins, og Kristín Ósk Jónasdóttir, kennslustjóri Háskólaseturs, en Kristín Ósk er einnig landvörður í friðlandi Hornstranda og þekkir vel til svæðisins. Þær stöllur höfðu undirbúið fyrirlestra fyrir daginn sem haldnir voru á hinum ýmsu stöðum; í landi á Hesteyri, í Vigur og í bátnum á leiðinni heim.
Á Hesteyri
Gengið var um þorpið og inn að hvalstöðinni á Stekkeyri. Á leiðinni má segja að nemarnir hafi gengið í gegnum dálitla eldskírn en þeir urðu að vaða berfættir yfir ískalda á til að komast leiðar sinnar að hvalstöðinni. Allir komust þeir heilir yfir og kveinkuðu sér ekki.
Á Stekkeyri fræddust nemarnir um þau meistaraverkefni sem hafa verið unnin á svæðinu og rætt var um möguleg rannsóknarverkefni sem þeir gætu sjálfir íhugað. Dýralífið var fjölskrúðugt við Hesteyri þennan dag og á meðan hópurinn dvaldi þar sveimaði haförn yfir, selir sóluðu sig í fjörunni og hvalur svamlaði nánast í fjöruborðinu.
Í Vigur
Eftir að hafa dvalið í um þrjá klukkutíma á Hesteyri var förinni heitið í eyjuna Vigur. Í Vigur fræddust nemarnir um lífið í eyjunni en hefðbundnum búskap hefur verið hætt en þar er rekin skemmtileg ferðaþjónusta og umfangsmikið æðavarp.
Yfir þjóðlegum veitingum í Vigur hélt Catherine fyrirlestur um staðbundna þekkingu í rannsóknum, t.a.m. mikilvægi þeirrar þekkingar sem sjómenn búa yfir, sem oft er nefnd fiskifræði sjómannsins, til að skilja betur flókið lífkerfi hafsins. Fyrirlesturinn er hluti af námskeiðinu CMM Fall Seminar, þar sem fjallað erum það sem efst er á baugi í haf- og strandsvæðastjórnun sem og nýjustu rannsóknir í faginu. Gera varð hlé á fyrirlestrinum í Vigur og honum síðan framhaldið í bátnum á leiðinni heim þar sem hópurinn þurfti að yfirgefa Vigur fyrr en áætlað var vegna vaxandi ölduhæðar við eyjuna. Eftir fyrirlesturinn um borð fengu nemarnir svo smávegis kennslu í íslenskum söngvum og orðatiltækjum.
Það var þreyttur en ánægður hópur nema og starfsmanna sem lagði að bryggju í Ísafjarðarhöfn snemma þetta kvöld eftir vel heppnaða vettvangsferð. Óhætt er að fullyrða að ferðir af þessum toga séu mikils virði og gefi nemum dýrmæt tækifæri til að komast í beina snertingu við vestfirska náttúru og fræðast um leið.
---