fimmtudagur 26. nóvember 2015

„Maður er svo öruggur hérna“

Kirsten McCaffrey er 22 ára Kanadamær sem flutti til Ísafjarðar fyrir sléttum þremur mánuðum til að hefja nám á fyrsta ári í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Nú þegar hefur hún tekið að sér formennsku í nemendafélaginu Ægi, námið sækist vel og svo virðist sem hún sé að ná góðri fótfestu í íslensku samfélagi þrátt fyrir skamma dvöl.

Við báðum Kirsten að setja á blað hugleiðingar um komuna til Ísafjarðar, hvernig á því stóð að hún valdi Ísafjörð sem vettvang fyrir meistaranámið sitt og ráðleggingar til þeirra sem hugsanlega vilja feta í fótspor hennar. Heimahagarnir í Nova Scotia eru víðsfjarri, sem og Grenfell Campus Memorial University þar sem hún lauk BA gráðunni sinni í umhverfisfræði, en hún er augljóslega sátt við ákvörðun sína og nýtur lífsins hér á norðurslóðum.

Gefum Kirsten orðið:

Ljúfi hagfræðiprófessorinn

Þegar maður hugsar um Ísland kemur upp í hugann brjálæðislegt ísilagt land úti í buskanum þar sem enginn býr, hitastigið er út úr kortinu og allt fullt af ísbjörnum – kannast ekki örugglega einhver við þessa lýsingu? Þannig var það líka með mig þegar ég var að íhuga möguleikana mína til meistaranáms. Ekkert var fjær mér en að koma hingað á ísilagða „Langtíburtistan“ og ég var meira á því að besti valkosturinn væri að flytjast þvert yfir Kanada. Ástæðuna fyrir því að ég er nú komin hingað til Íslands, fimm gráður suður af norðurheimsskautsbaug, má rekja til ljúfasta hagfræðiprófessors sem ég hef nokkurn tíma kynnst, Gabríelu Sabau. Skrifstofuhurðin hjá Gabríelu var alltaf þakin allskyns bæklingum sem tengdust hinni árlegu hagfræðikennslu sem hún sinnir við Háskólasetur Vestfjarða. Svo vel vildi til að ég var á lokaárinu mínu í háskólanum heima ásamt April Blackwood, bestu vinkonu minni, sem var auðvitað í aðdáendaklúbbi Gabríelu líkt og ég.

Eins og að opna jólapakka

Rétt fyrir jólafrí í fyrra vorum við April að rúnta seint um kvöld, sötruðum koffínlaust kaffi frá Tim Horton og spjölluðum um hvað við ættum að gera um helgina. Haf- og strandsvæðastjnámið bar á góma og þar og þá sammæltumst við um að fara bara alla leið, hoppa út í djúpu laugina og sækja um námið (án þess kannski að ætla í alvörunni að fara). Það var síðan kaldhæðni örlaganna sem réði því að í vorfríinu, þegar við April vorum í heimsókn hjá foreldrum hennar, vöknuðum við einn morguninn og tölvupósturinn var kominn þess efnis að við hefðum verið samþykktar inn í meistaranámið. Við vorum eins og börn að opna jólapakka, við grétum og görguðum af spenningi, mömmur okkar grétu líka og við ætluðum aldrei að losna við taugatitringinn. Þá rann það upp fyrir okkur að við gætum hugsanlega verið að flytja á norðurslóðir innan örfárra mánaða og við urðum að gera upp hug okkar. Við létum slag standa.

Það var svo loks 21. ágúst sem við kvöddum fjölskyldur okkar fórum um borð í flugvél eftir að hafa lesið í þaula Lonely planet, Buzzfeed og óteljandi fleiri greinar um hentug föt, dagsbirtuna og notkun íslenska gjaldmiðilsins. Eftir ferðalag í 52 svefnlausar klukkustundir fundum við loks rauðan leigubíl á leið til Ísafjarðar. Bílstjórinn var eldri maður sem talaði enga ensku. Á endanum fundum við dvalarstaðinn okkar, við könnuðumst við húsið frá myndunum á vefsíðunni, og vöfruðum síðan um Ísafjörð í leit að matvöruverslun.

Áhyggjulaus úti í myrkrinu

Nú er kominn 22. nóvember 2015 og ég hef dvalið hér í slétta þrjá mánuði. Ég vissi svo lítið þegar ég kom en nú finnst mér ég vera að ná góðum tökum á hlutum. Það er mikilvægt að halda því til haga að Ísland er nokkurn veginn öruggasta landið í öllum heiminum. Maður upplifir sig svo öruggan hér og það að ganga heim í myrkrinu er eðlilegasti hlutur og á engan hátt ógnvekjandi (það er ástæða til að segja foreldrum frá þessu áður en þið farið að heiman sérstaklega ef mamma ykkar er eitthvað í líkingu við mömmu mína... hún er endalaust með áhyggjur). Nú ætla ég að þylja upp nokkrar staðreyndir beint frá hjartanu, þær eru á engan hátt fegraðar, svona er upplifun mín af því að búa hér.

Á puttanum út í búð

Eitt af því sem kemur manni spánskt fyrir sjónir, en undirstrikar auðvitað hversu öruggt er að vera hér, er sú staðreynd að ungabörn og smábörn eru skilin eftirlitslaus eftir í kerrunum sínum fyrir utan verslanir í miðbænum á meðan foreldarnir sinna innkaupum (já, þetta er stórundarlegt og ólíkt því sem þekkist í Kanada en þetta sýnir auðvitað öryggið hérna). Almenningssamgöngur eru afar takmarkaðar. Ég hafði aldrei ferðast á puttanum áður en ég kom til Íslands þótt það sé örugglega ein besta leiðin til að kynnast fólki. Flest af því sem maður þarfnast er að finna í miðbænum og þá er best að ganga. Stóra matvöruverslunin Bónus er þó í 45 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum og þar sem hér rignir tölvuert er afskaplega þægilegt að geta ferðast á puttanum. Heimamenn líta á það sem sjálfsagðan hlut og því er frekar auðvelt að næla sér í far. Talandi um rigningu þá þykir þeim, sem vanir eru köldu veðri í Kanada, ótrúlega hlýtt hér á Ísafirði, einkum þegar haft er í huga að bærinn er því sem næst á norðurslóðum. Hitastigið hér fer sjaldnast niður fyrir mínus 10 gráður.

Lært að prjóna á methraða

Norðurljósin eru stórkostleg. Þau eru að öllu leyti eins og myndir segja til um og þau eru vel sýnileg spölkorn frá ljósmengun Ísafjarðar. Í byrjun september byrjar fólk að fylgjast af áhuga með vedur.is þar sem norðurljósaspáin segir til um sýnileika ljósanna. Þú ferð líklega að gráta í fyrsta sinn sem þú sér þau. Á þessum tímapunkti hefurðu ábyggilega aldrei gúgglað Ísland jafnt oft og nú og væntanlega hefurðu komist að því prjónaskapur er vinsælt tómstundagaman og allir vilja prjóna sér peysur, vettlinga, sokka og húfur. En það merkilega er að prjónaskapur er ótrúlega skemmtileg dægradvöl. Prjónabúðin hér á Ísafirði býður ókeypis prjónatíma  á mánudagskvöldum og nemendur eru velkomnir þangað. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá komu minni hingað hafa nær allir nemendurnir lært að prjóna, eða í það minnsta gert tilraun til þess.

Ótrúlegasta jógúrt á jarðríki

Hér á Ísafirði er hægt að nálgast flestar af þeim matvörum sem við þekkjum að heiman. Ég lagðist á bæn um það að Bónus eða Samkaup, sem er hin matvöruverslunin í bænum, seldu karríduft. Mér varð að ósk minni! Það tók mig reyndar nokkrar vikur að finna íslenska heitið yfir það en það tókst. Þetta er lítið dæmi um hindranirnar sem geta orðið á vegi manns. Íslensku orðin yfir ýmis matvæli hér eru mjög löng og óskaplega erfið en á endanum lærast þau. Ef maður vill finna ótrúlegustu jógúrt sem fyrirfinnst á jarðríki þá lumar Ísland á henni. Hún er kölluð skyr og það er hreinasta himnaríki á jörðu. Að öllu jöfnu tekur það tvöfalt lengri tíma að versla í matinn hér en það er í góðu lagi svo lengi sem maður fær að borða.

 

Íslendingar nota ensku mun meira en maður hefði getað ímyndað sér. Þótt íslenskan sé vissulega erfitt þá nær maður smátt og smátt tökum á algengustu orðum og frösum. Gott dæmi er við afgreiðslukassann í matvörubúðinni. Ég hef enga hugmynd um hvað afgreiðslufólkið er að segja en ég er farin að þekkja ferlið. Fyrst gefa þeir manni upp verðið í krónum, þú segir til um hvernig þú ætlar að greiða, þá spyrja þeir á íslensku hvort þú þurfir á poka að halda og svo biður þú um kvittun. Sama sagan endurtekur sig í hvert skipti svo það er ekkert að óttast.

Viltu smakka hvalspik og grænlenskan hákarl?

Bakaríin í bænum er enn ein gersemin hér og ilmurinn eltir mann á hverjum degi á leiðinni í skólann. Svo er það aðalsjoppa bæjarins, Hamraborg, sem býður pizzur á hálfvirði á þriðjudögum og helmingsafslátt af nammibarnum á laugardögum (pizzan þeirra er reyndar alveg frábær). Fiskbúðin niður við höfn selur ferskan fisk og fiskbúðareigandinn er einstaklega vingjarnlegur Íslendingur sem býður manni að smakka hvalspik og grænlenskan hákarl. Einhversstaðar verðum við að fá að upplifa þessar íslensku matarhefðir. Og svo eru það kettirnir, það eru kettir út um allt og þeir eru einstaklega vinalegir þannig að ef þú ert einmana þá skreppurðu bara út og finnur þér kött til að klappa. Áður en þú stígur út fyrir hússins dyr heima hjá þér skaltu síðan fullvissa þig um að bréfberinn hafi ekki skilið póstinn þinn eftir fyrir innan dyrnar (þetta er enn einn undarlegur siðurinn sem ég hef komist að... þú setur nafnið þitt á útidyrahurðina og bréfberinn stingur póstinum inn fyrir dyr).

Hornstrandaferð í undirbúningi

Ég tók virkan þátt í nemendafélaginu í gamla háskólanum mínum og þegar ég fór að spjalla við eldri nemendur sem höfðu tekið þátt í nemendafélaginu  Ægi við Háskólasetrið í gegnum tíðina ákvað ég að láta til mín taka þar og gerðist formaður. Það er ákveðin áskorun að vera formaður í félagi sem telur aðeins 23 nemendur en það er þó ekki eins erfitt og ég hafði ímyndað mér, ekki síst vegna þess að ég hef fjóra aðra nemendur með mér í stjórn (Holly, Jessica, Josh og Anika) og við hjálpumst að. Við skipuleggjum ýmsa viðburði opna almenningi á pöbbunum í bænum eins og trivia, karaoke, Halloween partý og fljótlega verður jólapartíið. Peningarnir sem við söfnum  verða síðan notaðir í bekkjarferðalag á Hornstrandir í vor. Með því að taka þátt í nemendafélaginu hef ég náð að kynnast nýju fólki, íslenskri menningu og öðlast betri skilning á því hvernig lífið gengur fyrir sig hér á Vestfjörðum.

Sólinni fagnað með sólarpönnukökum

Fyrir nemendur er gott að hafa í huga að Háskólasetrið stendur fyrir kaffisjóði sem þú greiðir í mánaðarlega og þá geturðu drukkið ÓTAKMARKAÐ magn af kaffi eða tei... já, já ég sagði ótakmarkað. Á Ísafirði hittir maður nýtt fólk um hverja helgi, fólk frá öllum heimshornum sem á bara leið um. Þú sérð ekki sólina í nokkra mánuði og dagurinn er því mjög stuttur en um leið og sólin snýr aftur í lok janúar eru pönnukökur bakaðar í hverju húsi og við vitum að allir elska pönnukökur.

Ísland er úti í ballarhafi og það er ansi hreint flott að stunda nám inni í miðjum firði. Maður áttar sig fljótt á því að bekkjarfélagarnir verða þínir bestu vinir og jafnvel þótt þvottavélin sé bara á íslensku þá verður þvotturinn þinn hreinn eftir nokkrar atrennur. Allt hefur tilgang, hlutir falla í réttar skorður og nám og ferðalög erlendis verða að veruleika. Ég myndi ekki vilja breyta nokkrum sköpuðum hlut. Eftir tuttugu ár mun eftirsjáin tengjast því sem maður lét ógert en ekki því sem maður valdi að gera.

Kirsten McCaffrey


Kirsten McCaffrey í kennslustofu í Haf- og strandsvæðastjórnunarnáminu við Háskólasetur Vestfjarða.
Kirsten McCaffrey í kennslustofu í Haf- og strandsvæðastjórnunarnáminu við Háskólasetur Vestfjarða.
1 af 9