Ísland og Ísafjörður - Anddyri norðurslóðanna
Michael Honeth hefur kennt við Háskólasetur Vestfjarða síðastliðin fjögur ár. Hann er haffræðingur að mennt frá Dalhouse háskólanum í Nova Scotia í Kanada og hefur víðtæka reynslu á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar. Kennslan við Háskólasetrið er viðbót við fullt starf forstöðumanns sjávarrannsóknamiðstöðvar á Tobacco Caye, lítilli eyju á kóralrifunum í Belize. Þess utan vinnur Michael nú að því að koma á fót sjávarrannsóknamiðstöð á Ísafirði sem byggir á sömu hugmyndafræði og sú í Belize. Að mati Michaels er Ísafjörður fullkominn staður fyrir slíka stöð.
Michael tók sér tíma frá kennslunni á Ísafirði nú í október til að spjalla um þau fjölbreyttu verkefni sem hann er að fást við ásamt því að segja okkur frá því hvernig áhugi hans á Íslandi kviknaði.
Heimshornaflakkari búsettur í hitabeltinu
Michael er borinn og barnfæddur Svíi og sænska er móðurmál hans en hann ólst upp í Suður Afríku og stundaði framhaldsnám í Kanada. Hann er því sannkallaður heimshornaflakkari með alþjóðlegan bakgrunn ásamt því að starfa jöfnum höndum í hitabeltinu og á norðurslóðum.
Ísafjörður Subarctic Research Center, sem yrði rannsóknamiðstöð tengd norðurslóðum, gæti orðið að veruleika innan tíðar en Michael vinnur að stofnun stöðvarinnar ásamt Mathilde Loubeyres, sem er kærastan hans og jafnframt samstarfskona við stöðina í Belize. Þau vinna að rannsóknum sínum í samvinnu við þarlend stjórnvöld: „Megintilgangurinn með rannsóknamiðstöðinni í Belize er að fylgjast með ástandi kóralrifanna fyrir hönd stjórnvalda í Belize því þau eru ekki í færum til að stunda slíkar rannsóknir sjálf. Við fjármögnum starfsemina með því að hýsa rannsóknafólk og bjóða aðstöðu fyrir ýmisskonar námskeiðahald. Við kennum umhverfishaffræði með áherslu á hitabeltið, rannsóknaaðferðir neðansjávar og greiningu fisktegunda. Hóparnir eru hjá okkur í nokkra daga eða viku og við kennum þeim um hafsvæðin allt í kring. Námskeiðin standa undir kostnaði við rannsóknirnar sem við sinnum síðan á milli námskeiða.“
Ólíkir heimar?
Við fyrstu sýn virðast Ísland og Belize ekki eiga margt sameiginlegt í vísindalegum skilningi en Michael bendir á að líkindin séu umtalsverð: „Þessi lönd eru ekki eins ólík og ætla mætti í fyrstu. Ég lýsi Íslandi gjarnan sem köldu Belize og Belize sem heita Íslandi. Íbúafjöldinn er svipaður, búsetusvæðin eru álíka stór og bæði löndin byggja afkomu sína á hafinu og auðlindum þess. Við erum að fást við ofveiði, ólöglegar veiðar, ferðaþjónustu og skemmtiferðaskip – allt eru þetta svipuð málefni, jafnvel þótt löndin séu í gjörólíkum heimshlutum. Eini stóri munurinn er norðurslóðaumhverfið, jafnvel þótt Ísland sé á jaðrinum þá er landið einskonar anddyri að öllum norðurslóðunum.“
Tækifærin felast í hafinu
Að loknu grunnnámi í háskóla í stjórnsýslu- og upplýsingafræði ákvað Michael að venda kvæði sínu í kross og snúa sér að allt öðru. Hann skráði sig í meistaranám í haffræði: „Aðallega vegna þess að eftir grunnnámið vildi ég vinna utandyra en ekki sitja fastur í skrifstofubyggingu. Það var helsti hvatinn. En ég leit líka á hafið sem tækifæri. Hafið er sennilega minnst þróaða iðnaðarsvæði í heiminum og þegar ég reyndi að sjá fyrir mér starfsferilinn minn næstu fimmtíu árin áttaði ég mig á að í hafinu fælust flest tækifærin.“
Nemendur öðlist skilning sem nýtist á vinnumarkaði
Sem stendur kennir Michael tvö námskeið við Háskólasetur Vestfjarða, annað er vistfræði hafs og stranda sem er almennt grunnnámskeið á meistarastigi. Hitt snýr að skipaflutningum og auðlindum á hafsbotni, þ.m.t. olía, gas og námugröftur ásamt öryggi á hafi og flutningaiðnaðurinn í heild sinni. Af og til kennir hann námskeið um eyjasamfélög í þróunarríkjum og stöðu þeirra í ljósi loftslagsbreytinga. „Hvað nemendur mína snertir er markmið mitt fyrst og fremst það að í gegnum námið öðlist þeir góðan skilning sem muni nýtast þeim þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn sem auðlindastjórnendur. Eitt af því sem mér líkar svo vel hér hjá Háskólasetrinu er að nemendahóparnir eru tiltölulega litlir svo þú kynnist öllum nemendunum þrátt fyrir að viðvera kennarans sé aðeins tvær til þrjár vikur í senn í þéttskipuðu námskeiði. Ég er leiðbeinandi í rannsóknaverkefnum fyrir þó nokkra af mínum gömlu nemendum. Margir eru komnir út á vinnumarkaðinn og við höldum góðu sambandi og hjálpumst að eftir þörfum. Maður getur því byggt upp víðtækt tengslanet hér.“
Að mati Michaels er margt líkt með meistaranáminu í haf- og strandvæðastjórnun hjá Háskólasetrinu og því námi sem hann þekkir frá Dalhouse háskólanum í Kanada. „Hinsvegar er námsleiðin hjá Háskólasetrinu mun almennari í nálgun sinni. Landfræðilega er þetta miðja vegu milli Evrópu og Norður Ameríku og sem slíkt einskonar anddyri að norðuslóðum. Námsefnið sem farið er yfir þarf því að vera þverfaglegt. Því segi ég við hvern þann nemanda sem er að íhuga framtíðarmöguleika tengda hafinu – sem verða klárlega mestir á norðurslóðum – Ísafjörður er tilvalinn staður.“
Mikill skilningur á haf- og strandsvæðamálefnum á Íslandi
Aðspurður um stöðu Íslendinga í haf- og strandsvæðamálefnum telur Michael hana vera sterka: „Ég held að Íslendingar séu í fremstu röð. Þeir eru nátengdari hafinu og strandsvæðunum en flestar aðrar þjóðir. Viðhorfin þeirra eru dálítið öðruvísi, sjónarhorn þeirra á fiskveiðar og sér í lagi hvalveiðar er annað en þú finnur til að mynda í Kanada, Svíþjóð eða Noregi. En þeir búa yfir víðtækri þekkingu og því er margt hægt að læra af þeim. Það kann að vera að hugmyndir þeirra falli ekki alltaf að hefðbundnum viðhorfum í umhverfismálum en það er einmitt eitt af því sem gerir það svo skemmtilegt að læra af Íslendingum.“
Norðurslóðirnar mikilvægari með degi hverjum
Fyrir utan kennsluna vinnur Michael nú að því, ásamt Mathilde, að setja á stofn rannsóknamiðstöð í norðurslóðamálefnum á Ísafirði með stuðningi Háskólasetursins og annarra rannsóknastofnana á svæðinu. „Við erum í grunninn að byggja á vel heppnaðri viðskiptaáætlun sem við höfum unnið eftir í Belize, þar sem boðið er upp á námskeið og þau tvinnuð saman við rannsóknir á meistarastigi. Nemendur geta þannig orðið þátttakendur í rannsóknaferlinu, jafnvel í grunnámi, og rannsóknafólk getur fengið nauðsynlega aðstoð. Þetta hefur gengið afar vel í Belize og við teljum að Ísafjörður sé einstaklega vel til þess fallinn að stýra héðan rannsóknum á norðurslóðum. Fjölmargar rannsóknastofnanir eru starfandi í hitabeltinu en norðurslóðirnar verða mikilvægari með degi hverjum, verslun og viðskipti eru stöðugt að aukast og tækifærunum fjölgar ört. Við viljum klófesta þá nemendur sem eru að læra um norðurslóðirnar og málefni þeirra.“
Ísafjörður útvörður norðurslóða
Parið Michael og Mathilde höfðu augastað á fleiri stöðum en Ísafirði þegar þau í upphafi íhuguðu staðsetninguna fyrir miðstöðina. Noregur, Kanada og Alaska í Bandaríkjunum komu öll til greina en Ísland hafði á endanum betur af ýmsum orsökum: „Fyrir það fyrsta er Ísland mjög miðsvæðis, það er auðvelt að koma nemendum til landsins frá öllum heimshornum. Í annan stað er umhverfi Ísafjarðar eins konar útvörður norðurslóða; hér eru firðir og jöklar og þú kemst á sjó með því einu að stíga fram af bryggjunni. Og þú getur stundað alla haffræðina þína hér auk þess sem hér eru allar nauðsynlegar rannsóknastofnanir og mjög traust grunngerð samfélagsins. Þriðja ástæðan er síðan sú að verðlag á Íslandi er mjög hagfellt, sér í lagi í samanburði við hin Norðurlöndin.
Ísafjörður er heimsborg ... eða þannig
Mörgum kann að þykja Ísafjörður afskekktur hluti Íslands en Michael er á öðru máli: „Slíkt er alltaf afstætt. Þegar þú kemur frá Belize eða Marshall eyjum þá er Ísafjörður sannkölluð heimsborg – þið eruð meira að segja með kvikmyndahús! Ísafjörður hefur upp á allt að bjóða sem þú mögulega þarft á að halda. Ef þú á hinn bóginn ert að koma frá New York, Toronto, Montreal eða London kann þetta að horfa öðruvísi við þér. Helsta umkvörtunarefnið sem ég hef heyrt hér er þegar innanlandsflugið gengur ekki sem skyldi vegna veðurs. En það er einmitt það sem gerir dvölin hér svo áhugaverða, sérstaklega fyrir nemendur sem stunda ævintýraferðamennsku og vilja komast í nánari snertingu við náttúruna. Þessi óútreiknanleiki gerir þetta allt miklu meira spennandi.“
Hvað eiga víkingarnir, skák og Háskólasetrið sameiginlegt?
Áhugi Michaels á Íslandi er einlægur og spannar næstum heila mannsævi: „ Ég hef haft áhuga á Íslandi frá blautu barnsbeini. Það kann að hljóma einfeldningslega en sem Svía finnst mér ég tengjast víkingunum. Svíþjóð, Danmörk og Noregur hafa glatað víkingamenningu sinni en í mínum huga var Ísland síðasta vígi víkinganna. Ísland heillaði mig alltaf af þessum sökum. Seinna meir var það svo skákeinvígi Fischers og Spassky í Reykjavík sem efldi Íslandsáhugann enn frekar en ég var ákafur skákáhugamaður á þeim tíma og þessi viðburður var risastór. Ég stökk því á tækifærið til að heimsækja landið í fyrsta skiptið þegar Háskólasetrið bauð mér að koma til að kenna fyrir fjórum árum. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að ég myndi verða fyrir vonbrigðum vegna væntinganna sem ég hafði byggt upp innra með mér í öll þessi ár. En ég er yfir mig hrifinn af landinu. Það fór fram úr mínum björtustu vonum!“
---