Ísafjörður vel fallinn til vettvangsferða
Háskólasetur Vestfjarða minnir oft og tíðum á lestarstöð í erlendri borg þar sem fólk af allskyns þjóðernum kemur saman í hinum ýmsu erindagjörðum. Meistaranemendur Háskólaseturs koma víðsvegar að úr heiminum auk þess sem kennarar og starfsfólk setursins er af ýmsum uppruna. Alþjóðlegir vettvangsskólar eru einnig að sækja til Vestfjarða í auknum mæli í samvinnu við Háskólasetrið.
Á útmánuðum bættist enn í flóruna en þá kom til setursins Dr. Brack Hale, bandarískur prófessor í umhverfisfræði við Franklin háskólann í Sviss, en Brack er í rannsóknarleyfi við Háskólasetrið þessa önnina þar sem hann skoðar m.a. samhengi vettvangsskóla og ágangs á vinsæla ferðamannastaði á Vestfjörðum. Hann er þó ekki ókunnur Vestfjörðum því hann hefur komið vestur með hóp nemenda í vettvangsskóla frá Franklin í nokkur ár og er væntanlegur aftur síðar á árinu. Hann kann svo vel við sig á Íslandi að hann hefur lagt það á sig að læra íslensku og hefur náð náð mjög góðum tökum á henni.
Á faraldsfæti frá blautu barnsbeini
Það er engin nýlunda fyrir Brack að búa erlendis. Hann er upprunalega frá Arkansas fylki í Bandaríkjunum en þar sem pabbi hans var í bandaríska flughernum flutti fjölskyldan oft búferlum þegar Brack var lítill. Eftir skilnað foreldra hans flutti hann til Wisconsin fylkis með móður sinni en varði sumarleyfum hjá pabba sínum hvort heldur sem hann var staðsettur í Þýskalandi, Englandi eða Mississippi fylki.
Ferðalögin héldu áfram á hjá Brack á háskólaárunum: „Ég tók grunnháskólanámið mitt við Duke háskólann í Norður Karólínu fylki og innifalið í því var ársdvöl við háskólann í Wurzburg í Þýskalandi. Ég hélt síðan áfram í Duke og tók meistaranámið þar en ákvað að fara í doktorsnámið í Wisconsin háskólann í Madison fylki. Í doktorsritgerðinni minni fjallaði ég um um vistfræði og stjórnun skóglendis við árbakka, bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Að því loknu kenndi ég um tíma við Duke en var síðan ráðinn í stöðu prófessors við Franklin háskólann í Sviss og þar hef ég verið allar götur síðan. Það er virkilega gott að búa í Sviss ef þú ert áhugamaður um skíði og fjallgöngur og það sama má reyndar einnig segja um Íslands.“
Vinsældir vettvangsnáms vaxa til muna
Eins og flestir þekkja hefur straumur ferðamanna til Íslands aldrei verið meiri. Met eru slegin í nær hverjum mánuði í fjölda ferðamanna sem sækir landið heim. Einn angi af þessari ferðamennsku fer einnig vaxandi og það eru svokallaðar vettvangsferðir eða námsferðir, þar sem nemendur frá hinum ýmsu háskólum heimsins, koma til landsins og dvelja í lengri eða skemmri tíma, allt upp í heila önn.
Brack er vel kunnugur þessari tegund ferðamennsku þar sem hann hefur komið með slíka námshópa til landsins um langt árabil. Með dvöl sinni nú og rannsóknum, sem styrktar eru að hluta af Vísindaráði Sviss, vill hann hinsvegar skoða hvaða áhrif ferðir á borð við hans eigin hópa geta haft á umhverfið og þá áfangastaði sem verða fyrir valinu í ferðunum. Náttúra Vestfjarða er um margt viðkvæm og henni getur staðið ógn af vaxandi ferðamennsku.
Féll kylliflatur fyrir Íslandi
Áhuga Bracks á Íslandi má rekja aftur til þess þegar bandaríski herinn hafði aðsetur á Keflavíkurflugvelli. „Ég hafði heyrt sögur um Ísland frá stjúpmóður minni, sem hafði verið staðsett hér á áttunda áratugnum, og frá vini mínum í jarðfræði sem hafði stundað rannsóknir hér, og mig langaði virkilega til að heimsækja landið. Þegar ég hóf kennslu við Franklin var Ísland gjarnan tekið sem dæmi í hinum ýmsu fræðibókum sem við notuðum í umhverfisfræðinni. Í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér hvort það væri ekki upplagt að fara með námshóp til landsins og úr varð að ég fór til Íslands 2009 til að kanna þann möguleika. Ég féll kylliflatur fyrir landinu og mætti með fyrsta hópinn minn strax næsta ár. Ég hef komið með nemendahópa til landsins allar götur síðan. Þess utan fannst mér ég þurfa að kunna íslensku svo ég skráði mig því á sumarnámskeið við Háskóla Íslands strax fyrsta ári.“
Dáist að afkastagetu Háskólasetursins
Nokkrum árum síðar, árið 2013, sótti Brack svo sumarnámskeið í íslensku fyrir fyrir vestan, sem var í boði á vegum Háskólaseturs, og nú hefur hann sótt þrjú slík námskeið í röð. „Þegar ég kom á mitt fyrsta námskeið ræddi ég við Peter (Weiss, forstöðumann Háskólaseturs Vestfjarða) um vettvangsferðirnar sem Franklin háskólinn skipuleggur til að kanna möguleikann á samstarfi um einn af hópunum okkar. Samstarfið komst á og hefur gengið stórvel, svo vel að við erum að koma aftur með fjórða hópinn okkar síðar á þessu ári. Þegar kom að því að fara í rannsóknarleyfið mitt lá beinast við að leita til Háskólasetursins, bæði hentaði það rannsókninni og ég gat nýtt mér þau góðu tengsl sem ég á þar. Ég er fullur aðdáunar yfir því hverju Háskólasetur Vestfjarða áorkar, með sitt fámenna starfslið. Franklin er líka lítil stofnun svo ég kannast vel við þær áskoranir sem slíkar stofnanir standa jafnan frammi fyrir. Ég hef kunnað afar vel við mig hér og átt gott samstarf við alla, og þetta segi ég ekki bara vegna þess að þið hafið sýnt íslenskunni minni þolinmæðiJ.“
Kostir og gallar þess að rannsaka á Vestfjörðum
Aðspurður segist Brack gjarnan vilja snúa aftur til Vestfjarða í rannsóknartengd verkefni. „Ég sé strax fyrir mér ýmis verkefni sem gætu komið í framhaldi af rannsóknum mínum núna. Ég kem aftur með nemendahóp í október og það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Ísland hentar mjög vel til vinnu af þessum toga. Náttúran og umhverfið allt er viðkvæmt og vöxturinn í ferðaþjónustu mjög hraður. Slíkar aðstæður eru áhugavert rannsóknarefni og það er vissulega kostur fyrir þá sem stunda rannsóknirnar en ekki endilega kostur fyrir umhverfið sjálf. Þess utan er almennt mjög gott að vinna með Íslendingum því þeir eru upp til hópa afslappaðir. Einn af stærstu ókostunum við Ísland er sá að framfærslukostnaðurinn er hár. Sviss er líka dýrt land, þannig að sjálfur er ég vanur slíku, en það eykur vissulega á álagið þegar sýslað er með takmarkaða rannsókna- og námsstyrki.“
Nýtur lífsins og samfélagsins á Ísafirði
Þegar þetta er skrifað eru páskar nýliðnir en árlega umbreytist Ísafjörður um páska þegar Skíðavikan gengur í garð ásamt tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Mörg af stærstu nöfnunum í íslenskri tónlist stíga á stokk á þessari hátíð og gestafjöldinn er mikill. Brack lét sig ekki vanta og naut hátíðarinnar í hópi góðra vina. Hann hefur einmitt nýtt tímann sinn vel á Ísafirði og kynnst bæði heimamönnum og nemendum við Háskólasetrið. Hann syngur t.a.m. með Sunnukórnum, sem er elsti blandaði kór á landinu og hann nýtur þess einnig að komast út í náttúruna, bæði í gönguferðum og á skíðum í vestfirskum fjöllum.
Brátt lýkur rannsóknarleyfinu og Brack heldur heim til Sviss til að taka upp kennslu á nýjan leik. En ef marka má hversu vel hann hefur aðlagast ísfirsku samfélagi og Háskólasetri Vestfjarða mun hann áfram sækja Ísafjörð og vestfirskt samfélag heim. Það er í það minnsta okkar von.