Ísafjörður og meistaranámið góður undirbúningur fyrir framtíðina
Fimm ár eru nú liðin síðan Joshua Mackintosh útskrifaðist úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er kanadískur að uppruna og lauk grunnháskólanámi sínu annarsvegar í Dalhousie Háskólanum og hinsvegar Acadia Háskólanum í Kanada. Áður en að útskriftinni frá Háskólasetrinu kom vorið 2011 hafði hann þegar verið ráðinn í áhugavert starf í Norðvesturhéruðum Kanada. Nú starfar hann á vegum hins opinbera í Alberta í Kanada og fullyrðir að námið og dvölin á Ísafirði hafi lagt góðan grunn að starfsframa hans. Hann tók afar vel í það þegar við báðum hann að deila sögu sinni hér:
Einföld spurning breytti öllu
“Vorið 2009 var ég að ljúka námi í skipulagsfræði við Dalhousie Háskólann í Nova Scotia í Kanada. Aðstæður á vinnumarkaði voru líka erfiðar fólki eins og mér, sem var með litla sem enga starfsreynslu. Hvað var þá til ráða? Jú, skella sér aftur í skóla!
Ísfirska ævintýrið mitt hófst á því að ég var að leita að mögulegum áfangastöðum fyrir sumarfríið mitt. Áður en ég vissi af varpaði Facebook fram einfaldri spurningu sem átti sennilega eftir að móta allt mitt líf: Hvernig væri að koma til Íslands í nám? Eftir að hafa kynnt mér meistaranámið frekar jókst áhugi minn og ég ákvað að sækja um fyrir veturinn 2009-2010. Umsóknin var samþykkt, ég pakkaði niður í töskur og hélt á vit ævintýranna.
Í dag bý ég í Alberta fylki í Kanada þar sem ég starfa fyrir fylkisstjórnina í Alberta í ráðuneyti samgöngumála sem pólitískur ráðgjafi í áætlana- og stefnumótunardeild. Áður en ég tók við því starfi var ég í ráðuneyti frumbyggjatengsla og umhverfismála. Í störfum mínum fyrir þessi tvö ráðuneyti hef ég m.a. veitt ráðgjöf á sviði frumbyggja og komið að opinberri stefnumótun frá öllum hliðum, allt frá því að móta lagasetningar og reglugerðir yfir í gerð framkvæmdaáætlana.
Einstaklega fjölbreytt námskeið í meistaranáminu
Námskeiðin sem boðið er upp á í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun eru einstaklega fjölbreytt og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þau námskeið sem mér fannst vera sérstaklega upplýsandi og gagnleg voru m.a. Integrated Coastal and Marine Management, Society and Natural Resources, Economics of Coastal and Marine Environment, Physical Processes of the Coastal and Marine Environment og Applied Methodology.
Það er einmitt þessi fjölbreytni í námskeiðunum sem býr nemendur svo vel undir verkefni af ólíku tagi. Námskeiðin þjálfa mann í stefnumótun og áætlanagerð, maður lærir að greina gögn, útbúa kynningar og eiga áhrifarík samskipti. Í mínu tilfelli urðu námskeiðin til þess að ég þurfti að kljást við ólík verkefni sem ég hefði hugsanlega ekki staðið frammi fyrir á námsbraut með þrengri fókus. Sem starfsmaður í opinberri stjórnsýslu þarf ég að geta framkvæmt nákvæma greiningarvinnu á skömmum tíma og koma niðurstöðum til skila á gagnorðan hátt. Námskeiðaloturnar í meistaranáminu eru einmitt þannig byggðar upp að nemendur þróa með sér hæfileika á borð við að greina gögn og skrifa stuttar samantektir, svo fátt eitt sé nefnt.
Þú myndar tengslanet til lífstíðar
Á heimasíðu Háskólasetursins segir: “Námsbakgrunnur nemenda okkar er fjölbreyttur, allt frá líffræði, verkfræði og umhverfisfræðum til laganáms og listnáms. Meistaranámið er einnig alþjóðlegt að því leyti að nemendur koma víðsvegar að úr heiminum.” Þetta er dagsatt. Ár hvert virðist koma sendinefnd frá Norður Ameríku og fulltrúar hvaðanæva að úr heiminum fylla hin nemendaplássin í hverjum árgangi. Veturinn 2009-2010 voru nemendur frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, Kanada, Íran, Íslandi, Máritaníu, Þýskalandi, Lettlandi og Álandseyjum. Í hverjum árgangi verður síðan til samstarfshópur sem samanstendur af öllum nemendum ásamt kennurum og starfsfólki Háskólasetursins.
Á meðan á námi stendur myndar maður tengslanet sem hægt er að nýta sér það sem eftir er ævinnar. Á sínum tíma, þegar ég var í náminu, komu kennarar okkar frá næstum jafn mörgum löndum og við nemendurnir. Að námi loknu býr maður ekki einungis að tengslum við samnemendur, starfsfólk og kennara frá ólíkum heimshornum, því einnig eru miklar líkur á því að maður sé orðinn félagi í allskyns félagasamtökum á borð við The Association of Early Polar Career Scientists, Coastal Zone Canada Association og The Ocean Management Research Network. Slíkt kemur að góðu gagni þegar atvinnuleitin hefst að námi loknu en er ekki síður gagnlegt þegar líður á starfsferilinn.
Íslenska loftslagið góður undirbúningur fyrir 69̊ Norður
Dvöl mín á norðlægum og afskekktum slóðum á Íslandi hefur veitt mér ýmis tækifæri sem ella hefðu ekki gefist. Að loknu meistaranáminu á Ísafirði flutti ég til Tuktoyaktuk í Norðvesturhéruðum Kanada. Þar fékk ég stöðu við rannsóknir á sviði landnýtingar á landsvæði Inuvialuit frumbyggjanna. Starfið mitt var í 800 manna vegalausu samfélagi á 69 breiddargráðu norður þar sem vetur stendur frá október og fram í júní. Það er auðvelt að sjá hvernig dvöl á Ísafirði undirbýr mann fyrir slíkt ævintýri.
Starfið veitti mér einstakt tækifæri til að vinna að greiningu og þróun stefnumótunar fyrir allt landssvæðið, t.a.m. í gegnum strandsvæðaskipulag, aðalskipulagsgerð og minjaskráningu. Ég stýrði einnig Inuvialuit Land Administration um eins árs skeið, en stofnunin hefur yfirumsjón með landnýtingu á 35.000 fermílna svæði. Sú reynsla og þekking sem ég öðlaðist í störfum mínum á þessum slóðum munu nýtast mér um ókomna tíð.
Fallegt land og gestrisið fólk
Ég er afar þakklátur fyrir tímann sem ég átti á Ísafirði og í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Ég tel að hæfni mína til að greina, samræma ólík sjónarmið og rökstyðja á hnitmiðaðan hátt megi rekja til meistaranámsins og þeirrar reynslu sem ég hef öðlast í framhaldi af náminu. Ísland er fallegt land og Íslendingar eru afar gestrisnir og skemmtilegir. Ég hvet hvern þann, sem er að íhuga þessa námsbraut, að láta slag standa. Það verður á allan hátt góð innistæða í reynslubankanum“.