laugardagur 6. apríl 2019

Hvaðan kemur fiskurinn á diskinn?

Við spyrjum okkur kannski ekki oft þeirrar spurningar hvaðan maturinn sem endar á diskinum okkar kemur. Með aukinni meðvitund um þau umhverfisáhrif sem flutningur matvæla á milli heimshluta veldur verður þessi spurning þó meira knýjandi og fleiri og fleiri varpa henni upp og bregðast við í tengslum við sitt eigið neyslumynstur.

Jennifer Grace Smith útskrifaðist úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun árið 2014 og fékkst einmitt við þetta viðfangsefni í lokaritgerð sinni. Þar rannsakaði hún áhrif staðbundinna fæðukerfa eða „Local Food Networks“ á Vestfjörðum.

Staðbundið fæðukerfi á Vestfjörðum

Rannsóknir á staðbundnum fæðukerfum fást við að skilgreina og auka þekkingu á hreyfingum sem stuðla að aukinni neyslu matvæla sem eru framleidd nálægt neytandanum af ólíkum félagslegum, pólitískum og umhverfislegum ástæðum. Í lokaverkefninu leitaðist Jennifer við að skilgreina hvernig slíkt staðbundið matvælakerfi gengur fyrir sig í vestfirskum sjávarbyggðum þegar kemur að fiski. Einnig skoðaði Jennifer hvernig mögulegt aukið aðgengi að fiski í smásölu gæti stækkað og styrkt þetta kerfi. Niðurstöður hennar benda til þess að neytendur kjósi frekar fisk sem er landað og unninn í nærsamfélagi neytendanna þrátt fyrir að reglugerðir og pólitískar ákvarðanir miði einkum að því að uppfylla þarfir alþjóðlegs markaðar með fisk.

Lokaverkefnið og lífið

Jennifer hefur verið búsett á Ísafirði allt frá því hún hóf námið við Háskólasetrið. Auk þess að sinna fræðunum hefur Jennifer einnig fært viðfangsefni lokaverkefnisins inn í sitt daglega líf því með sambýlismanni sínum rekur hún fiskbúðina Sjávarfang á Ísafirði og sér nærsamfélaginu á Ísafirði því fyrir ferskum fiski daglega.

Leiðbeinandi Jennifer í lokaverkefninu var Dr. Catherine Chambers sem nú starfar sem fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun, auk þess að sinna tímabundið fagstjórastarfi námsleiðar í sjávarbyggðafræði. Jennifer og Catherine birtu niðurstöður rannsóknarinnar í greininni „Where Are All The Fish?: Local Fish Networks in the Westfjords of Iceland“ sem birtistí ritrýnda tímaritinu Environment, Space, Place haustið 2015.

Opið námskeið um matvælaöryggi og fæðukerfi í maí

Í nýja meistaranáminu í sjávarbyggðafræði er boðið upp á fjölmörg áhugaverð námskeið. Meðal þeirra er valnámskeið sem fjallar einmitt um þetta viðfangsefni. Námskeiðið verður kennt í maí og ber titilinn „Coastal Food Systems“ eða  fæðukerfi í strandbyggðum. Námskeiðið er opið þátttakendum sem ekki eru skráðir í meistaranámið og því tilvalið sem endurmenntun eða sem hluti af öðru meistaranámi. Kennari námskeiðsins er Dr. Kirsten Lowitt, dósent við landfræði og umhverfisdeild Brandon háskóla í Kanada.

Lokaverkefni Jennifer, Where is all the fish? er aðgengilegt á Skemmunni og greinin sem birtist haustið 2015 er einnig aðgengileg hér.


Jennifer Grace Smith rannsakaði áhrif staðbundinna fæðukerfa eða
Jennifer Grace Smith rannsakaði áhrif staðbundinna fæðukerfa eða "Local Food Networks" á Vestfjörðum í lokaritgerð sinni.
1 af 6