Heimsókn á Svalbarða
Nýverið heimsóttu þær Kristín Ósk Jónasdóttir, kennslustjóri og Dagný Arnarsdóttir, fagstjóri Háskólaseturs Vestfjarða kollega sína í Háskólasetrinu á Svalbarða. Bækistöðvar þess eru í norska bænum Longyearbyen, sem er á 78. breiddargráðu og því 12 breiddargráðum norðar en Ísafjörður.
Til að komast til Longyearbyen þurftu Kristín og Dagný að taka fjögur flug og tekur ferðalagið yfirleitt um 48 tíma með stoppum. Millilent var í Tromsö og farið í gegnum vegabréfaskoðun þar sem Svalbarði undir fjölþjóðlegri stjórn og ekki hluti af Shengen.
Á þessum árstíma er dimmt allan sólarhringinn, þó sjá megi líka dökkgráa tóna á himni við rétt skilyrði. Sólarvika er haldin hátíðleg í mars ár hvert. Afþreying fyrir vetrarferðamenn er töluverð þrátt fyrir að myrkrið sé algjört í nokkra mánuði. Boðið er til dæmis upp á ferðir á hundasleðum, snjósleðum og skíðum. Norðurljósaskoðun er vinsæl. Á sumrin koma gjarnan stór skemmtiferðaskip við og þá fjölgar verulega á götum bæjarins.
Svalbarði er toll- og skattfrjálst svæði enda er verslun mjög blómleg miðað við íbúafjölda. Um 2000 manns hafa búsetu í bænum að staðaldri; um þriðjungur vinnur við námugröft, þriðjungur við rannsóknir og þriðjungur við ferðaþjónustu og aðra þjónustu. Aldurssamsetning bæjarbúa er ólíkt flestum bæjum og mikill meirihluti íbúa er ungt fólk. Til gamans má geta að þrír leikskólar starfa í bænum.
Háskólasetrið á Svalbarða (UNIS)
Háskólasetrið á Svalbarða (UNIS) býður upp á mörg vettvangsmiðuð námskeið á sviði líffræði og jarðfræði og fer kennsla fram á ensku. Um 500 nemendur stunda nám á hverju ári við setrið, en nemendur geta í mesta lagið tekið áfanga við skólann í eina önn og margir koma í 1 – 2 námskeið. Þó dvelja meistara og doktorsnemar lengur á Svalbarða við rannsóknir.
Berlega kom í ljós að norska ríkið styður myndarlega við bakið á UNIS og skólinn mjög vel búinn öllum tækjum og tólum sem þarf til að halda úti vettvangskennslu í heimskautaloftslagi. Samkvæmt ársskýrslu UNIS frá árinu 2013 var árlegt framlag norska menntamálaráðuneytisins rúmar 112 norskar milljónir, eða tæpir tveir milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.
Talsverðar breytingar á atvinnuháttum eru að eiga sér stað í Longyearbyen þar sem hlutverk námugraftar mun dvína á næstu misserum. Norsk stjórnvöld leita nú leiða til að aðlaga samfélagið að þessum hröðu breytingum á atvinnuháttum. Mjög er litið til UNIS í þeirri vinnu sem nú stendur yfir.
Háskólasetur Vestfjarða þakkar kærlega fyrir góðar móttökur kollega sinna hjá UNIS. Heimsókn þessi er án nokkurs vafa upphafið að enn frekara samstarfi og nemendaskiptum, en þess má geta að nú þegar hafa nokkrir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða sótt námskeið hjá UNIS á Svalbarða. Auk þess kemur einn kennari Háskólaseturs frá UNIS.
Hinum norsk-íslenska Vísindasamstarfssjóði (Science Cooperation Fund) er einnig þakkað fyrir styrk til fararinnar.