föstudagur 8. júní 2018

Háskólasetrið hýsir Fulbright NFS fræðimann

Dr. Brad Barr, sem lengi hefur kennt við Háskólasetur Vestfjarða sem fastur gestakennari í haf- og strandsvæðastjórnun, er nú staddur á Ísafirði í öðrum erindagjörðum en venjulega. Þessa dagana sinnir Dr. Barr rannsóknarverkefni þar sem hann kannar varðveislu og ástand hvalveiðistöðva á Íslandi. Verkefnið er styrkt af Fulbright stofnuninni á Íslandi og er hluti af Fulbright National Science Foundation rannsóknastyrkjum til rannsókna á sviði málefna norðurslóða. Í verkefni Dr. Barr er sjónum beint að því að kortleggja ástand sögulegra minja um hvalveiðar á Íslandi. Einnig verða settar fram tillögur að því hvernig megi varðveita minjarnar og túlka þær.   

Þessar sögulegu hvalveiðistöðvar á Íslandi eru staðsettar á Vestfjörðum og Austfjörðum og voru þær flestar starfandi undir lok 19. aldarinnar og í byrjun 20. aldar. Eða allt fram að því að íslensk yfirvöld settu á hvalveiðibann árið 1915. Hafsvæðið í kringum Íslands var búsvæði fremur stórra hvalastofna, rétt eins og það er í dag, og vakti því athygli fjölmargra hvalveiðifyrirtækja við norðanvert Atlantshaf á þessum tíma. Þótt flestar hvalveiðistöðvarnar hafi veitt vel, og verið árangursríkar á þann hátt, skera þær sig úr vegna þeirra tækniframfara sem áttu sér stað í þeim á fremur stuttum tíma. Þessar tækniframfarir má segja að hafi breytt gangi sögunnar og því er um afar mikilvægar minjar að ræða.

Dr. Brad Barr hefur dvalið á Íslandi frá því í byrjun apríl og hefur haft aðsetur við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri á meðan hann beindi sjónum sínum að hvalveiðistöðvum á Austfjörðum. Nú hefur hann fært sig úr stað og heldur vinnunni áfram við Háskólasetrið á meðan hann kannar þær stöðvar sem eftir eru en þær eru allar á Vestfjörðum. Í júní mánuði mun Dr. Barr rannsaka u.þ.b. tíu hvalveiðistöðvar. Að rannsókninni lokinni verða niðurstöðurnar afhentar íslenskum yfirvödum til að aðstoða þau við að varðveita þessar mikilvægu minjar.


Brad Barr við hvalveiðistöðina á Stekkeyri í Hesteyrarfirði.
Brad Barr við hvalveiðistöðina á Stekkeyri í Hesteyrarfirði.
1 af 4