Framtíðin að loknu námi í haf- og strandsvæðastjórnun
Ellyn Davidson er upprennandi sjávarvistfræðingur frá Kanada sem brennur fyrir málefni Norðurslóða. Hún útskrifaðist árið 2016 úr Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið með meistaragráðu í auðlindastjórnun.
Doktorsnám við Windsor háskóla í Kanada
Ellyn hefur áhuga á að auka áhrif vísinda þegar kemur að ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. Um þessar mundir vinnur hún að doktorsgráðu við Hussey rannsóknarstofuna við háskólann í Windsor í Ontario í Kanada þar sem hún nýtir staðgögn til að bæta fiskveiðistjórnun á norðurslóðum. Markmiðið er að meta heildaráhrif veiðanna til að unnt sé að stuðla betur að sjálfbærri nýtingu fiskistofna og minnka áhrif veiðanna á vistkerfið í heild. Megin áherslan er á hreyfingu grálúðu í þessu samhengi en rannsóknin gæti orðið lóð á vogarskálarnar til að ákvarða svæði þar sem æskilegt er að stunda fiskveiðar og eins að takmarka þær.
Góður undirbúningur við Háskólasetrið
Í námi sínu við Háskólasetrið tók Ellyn fjölmörg námskeið sem bjuggu hana vel undir doktorsnámið. Hún aflaði sér víðtækrar kunnáttu í landupplýsingakerfum (GIS), skipulagi strandsvæða, fiskveiðistjórnun og hagfræði og stefnumótun svo fátt eitt sé nefnt. Námskeiðin við Háskólasetrið eru lotubundin sem veitir nemendum tækifæri til að einbeita sér að einu viðfangsefni í einu.
Lokaritgerð hennar í haf- og strandsvæðastjórnun fjallaði um útbreiðslu hvalategunda í kringum Baffinflóa og Davis-sund á milli Kanada og Grænlands. Nemendur við Háskólasetrið þróa viðfangsefni meistaraprófsritgerða sinna í nánu samstarfi við kennara og starfsmenn en verkefnið mótast þó fyrst og fremst af áhugasviði og hugmyndum nemendanna sjálfra. Þetta gerir það að verkum að rannsóknir nemenda eru mjög fjölbreyttar og þeir hafa tækifæri til að stunda rannsóknir sínar hvar sem er í heiminum ef þeir óska þess.
Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun er þverfaglegt og það býr nemendur undir störf við rannsóknir sem og ráðgjafastörf í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Það má því segja að allar dyr standi útskriftarnemum opnar og þeim lukkast vel að velja sér áhugaverð og skemmtileg viðfangsefni að námi loknu.