mánudagur 29. maí 2017

Farsælt samstarf um vettvangsskóla í áratug

Í sumar verða tíu ár liðin frá því að Háskólasetur Vestfjarða og School for International Training (SIT) í Bandaríkjunum tóku upp samstarf um vettvangsskóla á Vestfjörðum. Námið er sniðið að þörfum bandarískra nemenda í grunnháskólanámi sem velja að verja einni önn í námi sínu erlendis.  Vel á þriðja hundrað nemendur hafa komið vestur í tengslum við SIT á þessum áratug sem liðinn er. Þeir hafa sett svip sinn á vestfirskt mannlíf og kynnst heimamönnum vel, einkum í gegnum heimagistingar sem eru fastur liður í náminu og gerir nemendum kleift að kynnist betur menningu og siðum landsins.

Vettvangsnám um víða veröld

Höfuðstöðvar World Learning/SIT eru í Vermont í Bandaríkjunum og hefur skólinn verið starfræktur allar götur síðan á fjórða áratug síðustu aldar. Skólinn býður upp á fjölbreyttar námsleiðir með ýmsum og ólíkum viðfangsefnum um heim allan en á Íslandi hefur einkum verið lögð áhersla á umhverfisstjórnun og auðlindanýtingu. Vettvangsnámskeiðin eru þannig upp byggð að nemendur eru við grunnnám við bandaríska háskóla en taka staka önn eða hluta úr önn við SIT. Önnin er síðan metin til eininga í þeim háskóla þar sem nemandinn stundar nám.

Allskonar nemendur

Nemendahóparnir eru fjölbreytilegir, bæði í samsetningu og fjölda og bakgrunnur nemenda er ólíkur. Alls hafa um 240 nemendur komið til Ísafjarðar á vegum SIT á undanförnum tíu árum og von er á 24 nemendum í sumar. Fjölmennasti hópurinn til þessa taldi 29 manns en sá fámennasti 17. Hin síðari ár hafa konur verið í meirihluta en nemendurnir koma víðsvegar að frá Bandaríkjunum og einnig hafa nokkrir Kanadamenn verið í hópunum auk nema frá öðrum löndum sem hafa verið skiptinemar í Bandaríkjunum. Í flestum tilfellum greiða foreldrar kostnaðinn við vettvangsnámið en einnig er nokkuð um styrkþega. Sumir nemendur hafa ferðast um víða veröld á meðan aðrir hafa lítið séð af heiminum utan Bandaríkjanna. 

SIT færir út kvíarnar á Íslandi

Allt þar til á síðasta ári var samstarfi Háskólaseturs og SIT þannig háttað að nemendahópar komu eingöngu að sumarlagi og vörðu sumarönn á landinu. Síðastliðið haust varð breyting þar á þegar fyrsti hópurinn kom til að verja haustönn í vettvangsnámi. Síðla vetrar kom síðan fyrsti hópurinn til að stunda nám á vorönn og því eru hóparnir orðnir samtals þrír yfir árið. Það má því með sanni segja að SIT sé að auka verulega við umfang sitt á Íslandi og þá um leið á Vestfjörðum.

Eitt af vinsælustu námskeiðum SIT

Á sumarönninni er umfjöllunarefnið endurnýjanlegir orkugjafar og umhverfissstjórnun og stendur námskeiðið yfir í sjö vikur. Það sækja aðallega nemendur sem eru að læra verkfræði, umhverfisfræði, stjórnun eða hagfræði.  David Dvorak, prófessor í vélaverkfræði við Háskólann í Maine, hefur séð um að kenna orkutækni og boðið er upp á stutta fyrirlestra, kynningar og vettvangsferðir sem tengjast viðfangsefninu. Má þar nefna kynningu á starfsemi Orkubús Vestfjarða, skoðunarferðir í rafstöðvar og  viðkomu í heimarafstöð á sveitabæ.

Einnig fer fram kennsla í íslenskri tungu og menningu. Farið er á slóðir Gísla sögu Súrssonar í Haukadal í Dýrafirði og í siglingu að Hesteyri í Jökulfjörðum þar sem hópurinn fær að fræðast um forna tíma. Hóparnir verja einnig nokkrum dögum í Friðarsetrinu í Holti í Önundarfirði, þar sem tækifæri gefst til að njóta náttúrunnar, fara á ströndina eða í fjallgöngur.

Námið fer að mestu fram á norðanverðum Vestfjörðum en einnig í Reykjavík þar sem ýmsar stofnanir á sviði umhverfis og orku eru heimsóttar. Þetta tiltekna námskeið á Íslandi hefur verið á meðal vinsælastu námskeiða SIT síðustu ár og skorar það jafnan mjög hátt í viðhorfskönnunum meðal nemenda.

Kynnast bæði Íslandi og Grænlandi

Á haustönn 2016 hófst svo í fyrsta sinn kennsla í vettvangsnámi um loftslagsbreytingar á  Norðurslóðum. Námið stendur í 15 vikur og var boðið upp á það bæði á haustönn og vorönn 2017. Vel tókst til í alla staði og er von á nýjum hópi næsta haust. Nemendur ferðast víða um Ísland auk þess að dvelja á Grænlandi í tvær vikur þar sem þeir fá ítarlega kynningu á landi og þjóð. Á Ísafirði dveljast nemendurnir í fjórar vikur samtals og búa þeir hjá íslenskum fjölskyldum í þrjár af þessum fjórum vikum.

Þessum nýju áföngum svipar mjög til sumaráfangans með fyrirlestrum, kynningum og vettvangsferðum en þó eru gerðar meiri kröfur til nemenda. Hver nemandi vinnur einstaklingsverkefni (ISP – Indepent Study Project) og fær til þess fimm vikur. Verkefnið má vinna hvar sem er á landinu en finna þarf leiðbeinanda fyrir hvern nemanda. Nemendur velja verkefnin út frá eigin áhugasviði og námi. Þetta gerir einnig kröfur um ákveðið sjálfstæði þar sem nemendur þurfa húsnæði á viðkomandi stað. Sem dæmi hafa nemendur valið að vinna verkefni sín á Húsavík,  í Reykjavík og á Ísafirði. Undir lok vettvangsnámsins kemur hópurinn aftur saman þar sem nemendur kynna verkefni sín og fagna annarlokum.

Heimagistingin skapar mikilvæg tengsl við samfélagið

Frá árinu 2012 hefur nemendum SIT skólans staðið til boða að gista hjá fjölskyldum á Ísafirði og í nágrenni. Hafa þessar heimagistingar orðið að mikilvægum hluta námsins og reynst dýrmætt veganesti fyrir nemendur. Markmiðið er þannig fái nemendur menningu og siði landsins beint í æð og gefist jafnframt kostur á spreyta sig á íslensku.

Í kringum 60 fjölskyldur hafa tekið þátt í þessu skemmtilega verkefni frá árinu 2012, flestar á Ísafirði en einnig hafa fjölskyldur í Hnífsdal og í Bolungarvík opnað heimili sín fyrir SIT nemendum. Sumar fjölskyldur hafa gefið kost á sér oftar en einu sinni og ein þeirra hefur verið með frá upphafi. Stundum eru tveir nemendur saman á heimili og hefur það gefist ágætlega.

Gestgjafarnir hafa verið duglegir við að sýna gestum sínum allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða, farið er í skoðunarferðir, sund og fjallgöngur, á söfn og tónleika svo fátt eitt sé nefnt. Heimamenn vilja gjarnan tefla fram því besta í íslenskri matargerð og leyfa gestunum að smakka á séríslenskum mat, svo sem hrefnukjöti, harðfiski, hákarli og hangikjöti. Almenn ánægja er meðal gestgjafanna með heimagistingarnar og þykja þær bæði lærdómsríkar og skemmtilegar. Ánægja nemenda er einnig greinileg en í námsmati kemur fram að nemendum finnst heimagistingin oft vera sá hluti námsins sem stendur upp úr dvölinni á Íslandi.

Margfeldiáhrifin ótvíræð

Það gefur auga leið að nemendahópar á borð við þá sem koma í gegnum SIT vettvangskólann auðga mannlífið hér fyrir vestan og hafa þar að auki ýmis jákvæð efnahagsleg áhrif á samfélagið. Samstarfssamningurinn við Háskólasetrið rennir styrkari stoðum undir starfsemi setursins auk þess sem störf hafa orðið til á síðustu tíu árum í tengslum við SIT þar sem ráðnir hafa verið fagstjórar námsins og aðstoðarmenn þeirra.

Ýmsir hafa gegnt starfi fagstjóra í SIT náminu eða unnið sem aðstoðarmenn á þessum tíu árum sem liðin eru frá því fyrsti hópurinn kom til Ísafjarðar. Gaman er að geta þess að í hópi starfsmannanna eru nokkrir fyrrverandi nemendur í haf- og strandsvæðastjórnum við Háskólasetrið. Má þar nefna Astrid Fehling, Alëx Elliott, Alexöndru „Alex“ Tyas og Jennifer Smith.

Háskólasetur Vestfjarða fagnar auknum umsvifum SIT vettvangsskólans á Vestfjörðum enda má ætla að jákvæð áhrif hans á samfélagið hér fyrir vestan aukist enn frekar. Er það sérlega ánægjuleg þróun og til vitnis um það að Vestfirðir, jafnt landsvæðið sem samfélagið, eru eftirsóknarverðir á alþjóðlegan mælikvarða.


Kveðjuhóf í Arnardal (sumar 2015).
Kveðjuhóf í Arnardal (sumar 2015).
1 af 10