föstudagur 10. júní 2016

Fagstjóri kveður eftir sjö ára starf

Nýverið auglýsti Háskólasetur Vestfjarða lausa til umsóknar stöðu fagstjóra meistaranámsbrautar í haf- og strandsvæðastjórnun. Undanfarin sjö ár hefur Dagný Arnarsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, gegnt starfinu en hún hverfur nú til annarra starfa hjá umhverfis-  og auðlindaráðuneyti. Þetta er ærið tilefni til þess að líta um öxl og ræða við fráfarandi fagstjóra, um það sem hefur áunnist og dvölina í landshlutanum  sem hún hafði aldrei heimsótt fyrir ráðningu í starfið.

Hefði verið gaman að ná hundrað

Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá Dagnýju enda hefur svokölluð „varnatörn“ staðið yfir, það er að segja það tímabil þegar nemendur á öðru ári verja meistaraprófsritgerðir sínar. Í lok sumars stefnir í að 95 nemendur verði búnir að verja lokaverkefni sín við Háskólasetur Vestfjarða og því nálgast hundrað ritgerða markið hratt. „Það hefði verið gaman að ná hundrað ritgerðum á þessu tímabili“, segir Dagný sem hefur haft veg og vanda að öllum meistaraprófsvörunum námsins til þessa. Þegar Dagný tók við af Sigríði Ólafsdóttur, fyrsta fagstjóra námsins, í desember 2009 var fyrsti nemendahópurinn að skila inn ritgerðum sínum. Fyrsta varnatörnin hófst því aðeins fáum vikum eftir fyrsta vinnudag Dagnýjar.

„Það er óhætt að tala um djúpu laugina fyrstu vikurnar og mánuðina í starfi. Ég hafði reyndar verið verkefnastjóri námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræðum hjá Háskóla Íslands um tveggja ára skeið og unnið náið með námsstjórn og námsbrautarstjóra þar. Sú reynsla kom sér gríðarlega vel. Ég hafði líka unnið við mannauðsstjórn og við kennslu. En svo að ég sé alveg hreinskilin kom sér samt best þarna fyrstu vikurnar að hafa unnið hjá fjarskiptafyrirtæki í nokkur ár!“

Hér vísar Dagný í fyrirkomulag meistaraprófskynninga og -varna sem fara oftast fram í gegnum Skype forritið, en eru þó skipulagðar sem opinn fyrirlestur í Háskólasetrinu. Í dag er sérstakur tæknimaður ábyrgur fyrir tæknihlið þessara viðburða en þegar fyrstu varnirnar fóru fram í janúar 2010 þurfti að leysa úr málum innanhúss og var runnið blint í sjóinn með þetta eins og ýmislegt annað. „Í vörn taka þátt þrír til fjórir aðilar sem eru sjaldnast á sama tímabelti! Auk þess er fólk með allavega nettengingar og búnað. En stundum var Háskólasetrið sjálft rót vandans þar sem rafmagn sló reglulega út á svæðinu einmitt á þessum tíma – sem er afar óheppilegt í miðri nettengdri meistaraprófsvörn eins og gefur að skilja! Nemendur okkar hafa því sumir hverjir uppfyllt þetta auka hæfniviðmið, sem er að halda haus í mikilvægri kynningu þrátt fyrir allt stefni lóðbeint niður á við vegna tæknimála. “

Eftir þessa eldskírn fyrsta árið eða svo hefur ríkt góður stöðugleiki í náminu og hefur hann aukist eftir því sem árin líða. Margir kennarar hafa verið með frá upphafi og halda áfram að koma vestur þrátt fyrir auknar vegtyllur heimafyrir. Einnig hefur myndast góður kjarni fastra prófdómara sem er lítilli námsbraut mjög dýrmætt. Það er einna helst í leiðbeinslu ritgerða sem nokkrir nýjir samstarfsaðilar verða til árlega. „Svo má ekki gleyma útskrifuðum nemendum sem eru komnir í flott störf um allan heim. Þeir eru boðnir og búnir að greiða götu Háskólaseturs og benda ósjaldan á ný tækifæri. “

Brottfallsnemar nánast jafn margir doktorsnemum

Um 150 manns hafa innritast í námið frá upphafi þess haustið 2008. Í haust er von á árgangi sem telur á þriðja tug - þriðja árið í röð. Mjög vel gengur að laða að sterka nemendur og Dagný vekur sérstaka athygli á jákvæðum brottfallstölum. „Þann 17. júní næstkomandi verða brautskráningar orðnar 92 og eru um 40 manns aktívt að vinna í sinni ritgerð til viðbótar. Hreint brottfall, þar sem nemandi hefur alveg hætt námi á fyrsta námsári eða að því loknu, er mjög lítið, um tíu prósent. Sama hlutfall innritaðra fer að lokinni útskrift í doktorsnám annars staðar. Það hlýtur að vera einhvers konar met.“

Margir nemendur hafa sest að á Vestfjörðum eða Íslandi og á þetta ekki síst við þá sem valið hafa sér vestfirsk rannsóknarefni. „Fólk sem kýs að beina sjónum að Vestfjörðum í sinni meistararannsókn dvelur oftast í tvö ár í stað eins. Margir hafa ílengst, fundið vinnu eða skapað sér atvinnutækifæri á svæðinu og jafnvel stofnað fjölskyldu. Það er því samfélags- og efnahagslega mikilvægt að gera vestfirskar rannsóknir meira aðlaðandi fyrir nemendur með litlum einstaklingsstyrkjum í anda styrkja sem til skamms tíma voru í boði í gegnum Vaxtarsamning Vestfjarða. Það er líka mikilvægt að halda vel utan um þennan hóp sem vill beina kröftum sínum að nærsvæðinu í stað þess að leita út í heim eftir útskrift. Við höfum verið heppin með samstarfsaðila sem hafa verið í aðstöðu til að bjóða nemendum upp á að vinna lokaverkefni hjá sér, til dæmis kollega okkar í Bolungarvík í gegnum tíðina, hjá Náttúrustofu Vestfjarða og Rannsóknasetri HÍ. En ég held að stærsta uppbyggingarverkefnið núna sé að leita leiða við að styðja við þá sem geta hugsað sér að vera áfram fyrir vestan.“

Dýrmætur tími og tækifæri fyrir vestan

„Eftir útskrift hjá mér árið 2009 velti ég fyrir mér að fara beint í doktorsnám. Þegar fagstjórastarfið bauðst var það sett á bið og ég sé ekki eftir því. Þetta hefur auðvitað verið mikil vinna og raunar hefur hún aukist ár frá ári. En með góðu samstarfsfólki er þetta skemmtilegt – og raunar grínumst við með það að Háskólasetrið sé rekið eins og lítið fjölskyldufyrirtæki.“ En fyrir utan þessar fimm ritgerðir sem vantar upp á hundrað, var eitthvað sem ekki gekk eftir? „Nei, ég var svo heppin að upplifa það í starfi að ná þeim markmiðum sem ég setti mér í upphafi. Ég neita því þó ekki að hafa í gegnum tíðina skeggrætt við samstarfsfólk mitt í Háskólasetrinu um eitt mál, sem er íslenska heiti námsins, Haf- og strandsvæðastjórnun. Þó svo að þetta sé líklega besta þýðing á enska heitinu Coastal and marine management þá er það kannski ekki sérlega lýsandi fyrir marga. En ég er ekkert endilega með betri tillögu sjálf!“

Mikilvægt er að fagstóri sé til staðar á skrifstofu sinni fyrir nemendur lungan úr skólaárinu. „En það hafa gefist nokkur tækifæri á því að ferðast og uppúr stendur þriggja vikna leiðtoganámskeið í fimm fylkjum Bandaríkjanna sem ég fór í á vegum bandaríska sendiráðsins fyrir réttu ári síðan. Það að fagstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða hafi verið tilnefndur af sendiráðinu og valinn af bandarískum stjórnvöldum sýnir okkur að við erum komin á heimskortið á okkar sviði.“


Dagný Arnarsdóttir á Holtsodda nú í vor. Hún hefur starfað sem fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun síðan í desember 2009. Á næstu vikum kveður hún þennan starfsvettvang.
Dagný Arnarsdóttir á Holtsodda nú í vor. Hún hefur starfað sem fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun síðan í desember 2009. Á næstu vikum kveður hún þennan starfsvettvang.
1 af 2