föstudagur 22. febrúar 2019

Dróni notaður við rannsóknir á hnúfubak í Ísafjarðardjúpi

Náttúran í kringum Ísafjörð veitir óþrjótandi tækifæri fyrir nemendur til að sinna rannsóknum. Í raun þarf bara að fá góða hugmynd og hrinda henni í framkvæmd. Gott dæmi er meistaraprófsrannsókn Justins Brown, annars árs nemanda í haf- og strandsvæðastjórnun, sem hafði áhuga á að rannsaka hvali á Vestfjörðum. Síðastliðið sumar vann hann á hvalaskoðunarbátnum Ölver, sem rekin er af Amazing Westfjords. Samhliða vinnu sinni á bátnum safnaði Justin gögnum og kortlagði staðsetningu og ferðir hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi. Til að auðvelda þessa gagnaöflun sótti Justin um styrk til IDEA WILD sjóðsins til að festa kaup á Mavic Air Pro dróna til að ljósmynda hvalina.

Rannsóknardróni í eigu Háskólaseturs

IDEA WILD eru góðgerðarsamtök sem vinna að því að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika um allan heim. Þau veita einstaklingum styrki til að kaupa búnað af ýmsu tagi sem hægt er að nota við rannsóknir á lífríkinu. Eitt skilyrði slíkrar styrkveitingar er að tækið nýtist áfram til rannsókna og af þeim sökum fékk Háskólasetrið tækið til vörslu að gagnaöflun Justins lokinni. Dróninn er því tiltækur í Háskólasetrinu fyrir nemendur og rannsóknarmenn sem geta nýtt hann til rannsókna hér á svæðinu. Drónar gegna sífellt stærra hlutverki í ýmsum rannsóknum þar sem loftmyndir gagnast. Má þar nefna rannsóknir á sjávarspendýrum og kortlagningu og vöktun á haf- og strandsvæðum svo fátt eitt sé nefnt. Drónar nýtast sérstaklega vel við rannsóknir þar sem háskerpu ljósmyndir nýtast við rannsóknir. Vonir standa til að tækið nýtist því vel í framtíðinni ekki síst við nemendarannsóknir hjá Háskólasetrinu.

Hnúfubakar á Íslandi

Fremur lítið er vitað um fæðuvist hvala við Ísland. Með greiningum á ljósmyndum af hvölum má ákvarða lengd dvalar þeirra á ákveðnum svæðum, fylgjast með ferðum þeirra auk þess sem slíkar myndir geta verið lóð á vogarskálar við mat á stofnstærð. Með því að rýna í gögn sem safnað var með athugunum og drónamyndum hefur Justin Brown greint 34 einstaklinga úr stofninum. Þessi greining var unnin í nánu samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, þar sem hvalarannsóknir fara fram, og í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Með því að skoða sónarmyndir og bera þau gögn saman við upplýsingar úr viðtölum við sjómenn tókst Justin einnig að staðfesta að áta og síld var iðulega nærri á þeim stöðum sem hvalir sáust á. 

Með þessari þverfræðilegu aðferð getur rannsókn Justins veitt almenna innsýn í það mynstur sem hnúfubakar fylgja í Ísafjarðardjúpi. Einnig getur hún gefið upplýsingar um það hlutverk sem fæða hvalanna hefur á dreifingu þeirra og hegðun á svæðinu. Enn fremur geta gögnin hjálpað til við að ákvarða stærð tímgunarstofns hnúfubakaá þessu svæði en eru lóð á vogarskálarnar á heimsvísu við að greina ljósmyndaða hnúfubaka m.t.t. ferða þessara hvala um heimshöfin. Að lokum má nefna að sú þekking, á hegðun hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi, sem safnað hefur verið í rannsókn Justins getur gagnast yfirvöldum við auðlindastjórnun í framtíðinni.

Þessi tækjabúnaður sem Háskólasetrinu hefur áskotnast mun án efa nýtast vel í framtíðinni. Sérstaklega verður spennandi að sjá hvernig aðgengi að tækinu getur kveikt hugmyndir að áhugaverðum rannsóknum á næstu misserum og árum.


Justin Brown afhendir Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs Mavic Air Pro drónann. Tækið verður tiltækt fyrir nemendarannsóknir og aðrar rannsóknir hér á svæðinu.
Justin Brown afhendir Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs Mavic Air Pro drónann. Tækið verður tiltækt fyrir nemendarannsóknir og aðrar rannsóknir hér á svæðinu.
1 af 6