miðvikudagur 14. desember 2016

„Doktorsnemaherbergið mun laða fleiri að“

Fyrsti leigjandinn er þegar fluttur inn í hið nýja doktorsnemaherbergi sem Háskólasetur Vestfjarða býður nú í fyrsta skipti til leigu. Um er að ræða  rúmgóða skrifstofu sem getur hýst tvo doktorsnema í senn. Skrifstofan er á besta stað í húsakynnum Háskólaseturs en henni fylgir aðgangur að allri þjónustu setursins. Með því að bjóða upp doktorsnemaherbergi vill Háskólasetrið leggja sitt af mörkum til að auðga hið akademíska umhverfi á Ísafirði, en doktorsnemar eru ekki aðeins sérfræðingar á sínum sviðum heldur stunda þeir oft ýmsa kennslu á svæðinu og nýtast auk þess í ýmis staðbundin verkefni, mögulega tengd atvinnulífinu.

Tímabundnu störfin leiddu til líffræðinnar

Sá fyrsti til að nýta sér hina nýju aðstöðu er Ísfirðingurinn Sigurður Halldór Árnason, en hann leggur stund á rannsóknir á villtum stofnum dvergbleikju á Íslandi til að leita svara við því hvaða vistfræðilegu þættir hafa áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Sigurður er fæddur á Ísafirði  árið 1980 og ólst hér upp til tíu ára aldurs en þá fluttist hann til New Jersey í Bandaríkjunum, þar sem hann lauk bæði grunn- og framhaldsskólanámi. Hann kom þó alltaf heim á Ísafjörð á sumrin sem unglingur til að vinna, bæði í fiskvinnslu og í bæjarvinnunni og átti síðar eftir að koma víða við á vinnumarkaði: „Með og eftir menntaskóla vann ég meðal annars sem uppvaskari, þjónn, kokkur, garðyrkjumaður, húsgagnasendill, pítsusendill, GIS tæknimaður og landvörður. Við þessi störf varð ég stöðugt vitni að því hvernig hagkerfi nútímans og neytendasamfélagið er að rústa vistkerfunum sem halda öllu lífi á jörðinni í jafnvægi. Þetta var alveg andstæða þeirrar villtu og ósnortnu náttúru sem ég upplifði í fjölmörgum útilegum og útivistarferðum, sem við félagarnir fórum í á þessum árum, bæði hér á Íslandi og víðsvegar um Bandaríkin. Ég myndi segja að þessi reynsla hafi haft mjög sterk áhrif á mig og það hvernig ég upplifi heiminn.“

Lélegur námsmaður í upphafi skólagöngu

„Ég var aldrei neitt sérstaklega góður í þessari hefðbundnu skólagöngu, sem við þurfum öll að ganga í gegnum. Ég var eiginlega bara svolítið lélegur í þeim efnum. Það sem kom mér á þessa braut sem ég er á núna var bæði ást og virðing fyrir náttúrunni sem og ábyrgðin sem mér fannst við öll hafa til þess að skilja, og til þess að hjálpa öðrum að skilja, þá ferla sem leitt hafa til þess að lífríki jarðar hefur myndast. Þegar við erum öll orðin meðvituð um það þá fyrst getum við byrjað að skilja hvað þarf til þess að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Að safna gögnum, greina þau og upplýsa síðan samfélagið er meginskylda vísindamannsins, sama hver sérhæfing hans er.

Sniglar, plöntur, erfðir og vistfræði

Eftir að hafa unnið víða og ferðast mikið um Bandaríkin ákvað Sigurður loks að einhenda sér í háskólanám og skráði sig í líffræði. Hann útskrifaðist með A.Sc. gráðu í líffræði frá Brookdale Community College í New Jersey árið 2005. Þá lá leiðin í Háskólann í Hawaí  þaðan sem hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu árið 2008. „Í Hawaí vann ég einnig fyrir The Center for Conservation, Training and Teaching á rannsóknarstofu Dr. Roberts Cowie en þar rannsakaði ég fjölbreytta þurrlendissnigla sem þróast hafa á Hawaíeyjum. Árið 2011 flutti ég svo aftur til Íslands og útskrifaðist  frá Háskóla Íslands árið 2013 með M.Sc.gráðu í líffræði með sérhæfingu í grasafræði og stofnerfðafræði. Samhliða meistaraverkefninu vann ég einnig sem umsjónarmaður rannsóknarstofu  í plöntuerfðafræði við HÍ og sem aðstoðarkennari. Í dag er ég að vinna að doktorsverkefni í líffræði með áherslu á vist- og þróunarfræði í við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands.“

Rannsakar náttúrulegt val og þróun dvergbleikju

Doktorsverkefnið sem Sigurður vinnur nú að ber heitið „Natural selection and the evolution of phenotypic diversity of small benthic Arctic charr (Salvelinus alpinus) in Iceland“ sem á íslensku útleggst „Náttúrulegt val og þróun svipgerðsbreytileika í villtum stofnum af dvergbleikju (Salvelinus alpinus) á Íslandi. „Í stuttu máli er ég að nota fjölmarga (35) fjölbreytta stofna af dvergbleikju, sem hafa þróast samhliða (parallel evolution) og aðskildir í ferskvatnslindum víða á Íslandi, til að fá innsýn í fyrstu skref í þróun lífræðilegrar fjölbreytni og til þess að bæta skilning á því hvaða þátt vistkerfið og náttúrulegt val gegnir í þeim ferli.

Sigurður bendir á að líffræðileg fjölbreytni eigi við allan fjölbreytileika sem er að finna í lífkerfum jarðar. Hægt er að skoða þennan fjölbreytileika frá mörgum sjónarhornum; allt frá því að skoða fjölbreytileika innan lífríkja, vistkerfa eða samfélaga, til fjölbreytileika á milli og innan tegunda og stofna, sem og erfðafræðilegan fjölbreytileika. Þessi fjölbreytileiki er undirstaða tilveru allra lífvera sem finna má á jörðinni. Án þessarar fjölbreytni munu lífkerfin, sem viðhalda til dæmis núverandi andrúmsloftsskilyrðum, bókstaflega hrynja. Ítarlegur skilningur á þeim ferlum sem móta líffræðilegan fjölbreytileika er því lykilatriði, bæði fyrir verndun þess hér Íslandi og til þess að geta spáð fyrir um hvernig lífverur munu bregðast við loftlagsbreytingum á heimsvísu.

„Í þessu verkefni er ég til dæmis að nota kvarnir (eyrnabein) til að kanna hvort að það sé breytileiki á vaxtarmynstri meðal 35 stofna af dvergbleikju. Einnig athuga ég hvernig sá breytileiki tengist umhverfisþáttum, s.s. þáttum náttúrulegs vals, t.d. gerð linda (lækur eða tjörn), hitastig, botngerð, rafleiðni, sýrustig, fæðuframboð, straumur o.s.frv. Sterkt samband á milli vaxtarhraða og þessara umhverfisþátta getur bent til þess að náttúrulegir valkraftar hafi áhrif á breytileika í vaxtarhraða á milli þessara stofna. Einnig mun ég fylgja einstaklingum úr sjö af þessum 35 stofnum í fjögur ár. Hér merki ég einstaklinga með rafmerkjum (PIT tag) sem gerir mér kleift að taka sýni úr sömu einstaklingum tvisvar sinnum á ári til að kanna hvort samband fæðu og útlits, á milli sem og innan stofna, sé stöðugt í gegnum tíma og til þess að athuga hvort þetta samband sé einnig breytilegt á milli sem og innan stofna.“

Sigurður undirstrikar að þessi rannsókn sé mikilvæg vegna þess að mjög lítið sé vitað um með hvaða hætti vistfræðilegir þættir móta líffræðilega fjölbreytni. Slík þekking er aftur á móti nauðsynleg þegar meta á mikilvægi búsvæða og vistkerfa í náttúrunni, t.d. fyrir nýtingu og verndun. „Helsta gagnsemi og hagnýtt gildi verkefnisins er fyrst og fremst að það skilar nýrri þekkingu um samband umhverfisþátta og þróunar líffræðilegrar fjölbreytni. Það má nota þessa þekkingu til að móta framtíðarstefnu um umgengni við og verndun líffræðilegrar fjölbreytni í íslenskum vatnakerfum. Þetta á ekki síst við áætlanir og skipulag fiskeldis og orkuvera sem hafa áhrif á vatnakerfi.“

Aðstaðan í Háskólasetrinu laðar brottflutta heim

Sigurður er afar ánægður með nýju aðstöðuna í Háskólasetrinu og segir hana tvímælalaust geta laðað að fleiri í hans sporum: „Aðstæðan hér er rosalega fín. Hér er ég með skrifstofu sem ég get deilt með einum öðrum doktorsnema og það er allt gert til að láta manni líða vel. Svo er líka margt skemmtilegt fólk hér, fræðimenn og nemendur og eiginlega mjög alþjóðlegt samfélag. Ef aðstaðan og starfsumhverfið hér í Háskólasetrinu væri ekki  fyrir hendi þá hefði verið mjög erfitt að réttlæta það að flytja til Ísafjarðar, allavega upp á námið að gera. Það þarf að halda vel utan um svona aðstöðu og byggja hana upp því að hún mun laða að brottflutta heimamenn með þá þekkingu, sem þeir hafa aflað sér. Það er mjög mikilvægur liður í að upplýsa unga fólkið okkar og styrkja samfélagið hér fyrir vestan. Ég tel að það sé eftirspurn eftir svona góðri aðstöðu því ég held að það séu margir nemar og útskrifaðir fræðimenn sem eru ‘’fastir’’ í borginni og sjá ekki hvernig þeir geta komist þaðan án þess að fórna miklu.

 

Tvö börn og hundur

Eiginkona Sigurðar er Magnea Ósk Sigrúnardóttir frá Reykjavík en hún er ættuð frá Litlabæ í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi. Þau kynntust þegar Sigurður starfaði við plöntuerfðarannsóknirnar í Háskóla Íslands. Langafi Magneu var skipstjóri á Djúpbátnum Fagranesinu áður en afi Sigurðar, Halldór Gunnarsson, tók við af honum. Magnea er á þriðja ári í hjúkrunarnámi og vinnur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði samhliða náminu. „Við eigum tvö börn, hann Alexander Sebastian sem er átta ára og er í þriðja bekk í grunnskólanum og hana  Mýrúnu Halldóru, sem er 18 mánaða og er í leikskólanum Sólborg. Svo er einn fjölskyldumeðlimur í viðbót, hundurinn Megas, en hann elskar langa göngutúra í fjörunni, vestfirskan harðfisk og lítil börn.“

Fjölskyldan vildi öruggan stað til að búa á til framtíðar

Sigurður segir að það hafi ekki verið sjálfgefið að koma hingað vestur til að vinna að rannsóknunum en hann og fjölskylda hans hafi samt alltaf verið á heimleið til Ísafjarðar.„Ég bjó fyrir norðan, á Hólum og á Sauðárkróki, fyrstu tvö árin í doktorsnáminu og var það reyndar mjög þægilegt upp á sýnatöku að gera en hún fór fram á hálendinu tvisvar á hverju sumri (2013-2016); í Mývatni,  í Aðaldal og í Borgarfirðinum. En ég er héðan frá Ísafirði og einhvern veginn hef ég öll þessi ár alltaf verið á leiðinni „heim aftur“ enda fór ég aldrei suður... bara lengra og lengra vestur. Því var það að þegar við vorum búin að fá nóg af því að borga leigu og að hafa engan öruggan stað til að búa á til framtíðar þá gátum við ekki hugsað okkur að kaupa húsnæði fyrir norðan eða sunnan og ákváðum bara að prófa að koma aftur heim. Það tók svo ekki langan tíma að átta okkur á því að við vildum setjast hér að. Hér er góð rannsóknaraðstaða í Bolungarvík hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands og þessi glæsilega skrifstofuaðstaða hér í Háskólasetri Vestfjarða, þar sem er góður félagskapur við annað fræða- og námsfólk sem og Ísfirðinga almennt.“

Nokkuð er um liðið síðan Sigurður flutti inn á nýju skrifstofuna og hefur hann komið sér þægilega fyrir og virðist kunna einkar vel við sig. Fallegar teikningar eftir börnin hans prýða veggi og hann hefur fínasta útsýni út á Suðurgötuna og upp í Naustahvilft. Og kaffistofa Háskólaseturs er nánast í seilingarfjarlægð. Það væsir því ekki um doktorsnemann á nýja staðnum. Fyrir áhugasama má geta þess að endingu að skrifborðið við hlið Sigurðar er enn laust til leigu.


Doktorsneminn Sigurður Halldór Árnason við rannsóknir á dvergbleikju.
Doktorsneminn Sigurður Halldór Árnason við rannsóknir á dvergbleikju.
1 af 5