miðvikudagur 22. júní 2022

Ávarp í tilefni Háskólahátíðar 2022

Ágætu útskriftarnemar, ágætu gestir

Prófið allt, haldið því sem gott er.
-Fyrra bréf Páls til þessalóníkumanna 5:21

Þið hafið farið í gegnum þverfaglegt nám, í gegnum fjölbreytilegt nám. Í náminu kynnist þið fjölda samnemenda, og á tveggja, þriggja vikna fresti hefst ný kennslulota með nýjum kennara, nýjum aðferðum og nýjum siðum. Við teljum að nemendur læri ekki síður af samnemendum en af kennurum eða bókum. Og þessir samnemendur, þessir kennarar eru jafn mismunandi og þeir eru margir.

Prófið allt, haldið því sem gott er.

Við bjóðum til Vestfjarða fjölda kennara með ólíkan bakgrunn. Það er ekki bara gert til að bjóða nemendum upp á fagmenn á viðkomandi sviði, það er líka til að gefa þeim tækifæri til að kynnast mis­munandi kennsluháttum, mismunandi aldurs­hópum og mismunandi karakterum. Sumir eru eins og við viljum verða, sumir alls ekki. Gefið öllu sjens, haldið því sem gott er, en endilega komið út úr bergmálshellinum. Nám er til að gefa færi á sér, til að reyna sig, til að læra að umgangast aðra, annað fólk, siði, skoðanir.

Það er gott að hafa einhvern sem hugsar með manni. Það er gott að fá gagnrýni. Vissulega ekki gaman, en það kemur okkur áfram og það er gott.

Mótlæti og gagnrýni hafa verið hluti af náminu ykkar rétt eins og í lífinu sjálfu. Það er engin ástæða til að gefast upp.

Prófið allt, haldið því sem gott er.

En forðist allt illt í hvaða mynd sem er.

Við lærum ekki bara af góðum dæmum. Við verðum líka vör við mál sem hefðu mátt betur fara. Á okkar vegi verður líka fólk sem er ekki til fyrirmyndar. Við verðum fyrir mótlæti. Illska og heimska getur lagt stein í götu okkar.

Þið sem framtíðar sérfræðingar í byggðamálum, í strandsvæðastjórnun, eða í kennslufræðum, þið munið á lífsleiðinni, í ykkar framtíðar starfi hitta fólk, "haghafa", sem hugsa ekki um heildina heldur berst fyrir sínu með kjafti og klóm, af því bara. Sumir virðast hafa gaman af að rífa niður. Illska og heimska eru til í þessum heimi og við þurfum að takast á við það þegar slíkt verður á leið okkar.

Forðist ekki að standa upp í hárinu á illsku og heimsku, en forðist að láta það koma nálægt hjartanu.

... En forðist allt illt í hvaða mynd sem er.

Kannski ér ég kominn svolítið langt út á hálan ís með því að vitna í Pál postúla í útskriftarræðu, en...

Vísindin segja okkur ekki hvað er gott og hvað er illt. Vísindin gefa okkur bara tæki til að leita sannleika og til að rökstyðja niðurstöðurnar. Vísindin geta gefið okkur sjálfstraust til að segja sannleikann og láta ekki taka fyrir munninn á okkur. Vísindinn geta lyft umræðu á hærra plan, upp úr trúarjátningum, út úr bergmálshellunum. Vísindin geta hjálpað okkur að anda djúpt og ræða málin.

Skoðanir nuddast, velkjast og þróast, og festast á endanum. Með því að koma til Vestfjarða fjar­lægðust þið viðteknar trúarjátningar, áhrifa, áhrifa­valda og bergmáls­hella og gáfuð nýjum skoðunum tækifæri. Kannski er þróun persónu­leika á námstímanum mikil­vægara en bóklær­dómur.

Svo er farið út í lífið. Í dag er þessi stóri dagur þegar námið loksins liggur að baki. Þið haldið á ykkar prófskírteini, sem skráir samviskusamlega hæfniviðmiðin – en þegir þó um eflingu persónuleika. Það sem er mesta veganesti er erfiðast að meta, að mæla, að skrásetja, og það er jafnvel það sem við sjalf verðum minnst vör við, nema eftirá.

Í dag standið þið eins og í stafni skips og horfið yfir hafið. Frumskógurinn, sem námið kann að vera, liggur fyrir aftan, en fyrir ykkur haf og himininn.

Þið hafið eflst hér og þið eruð undirbúin fyrir siglingu yfir hafið. Já, og líka fyrir einhverja frumskóga sem kunna að leynast þar handan við sjóndeildarhring. 

Ég óska ykkur eins og við munum syngja í söngnum á eftir, beggja skauta byr, í lífi og starfi.

Peter Weiss, Háskólasetri Vestfjarða
í tilefni háskólahátíðar
Hrafnseyri, 17.06.2022


Ljósmynd: Lura Alice Watt
Ljósmynd: Lura Alice Watt