Lífið á Ísafirði

Ísafjörður er höfuðstaður Vestfjarða, líflegur og fallegur bær sem státar af öflugu félagslífi, jafnt á sviði menningar og lista sem íþrótta. Ísafjörður er stærstur fimm byggðakjarna sem saman mynda sveitarfélagið Ísafjarðarbæ. Stórbrotin náttúran er í seilingarfjarlægð og örstutt í ósnortnar náttúruperlur á borð við Hornstrandir og Jökulfirði.

Góðar samgöngur eru milli Ísafjarðar og suðvesturhornsins, 5-6 tíma akstur er til höfuðborgarinnar á bundnu slitlagi og einungis tekur um 40 mínútur að fljúga þangað í innanlandsflugi, en að jafnaði eru tvö flug til og frá Ísafirði á dag.

Framfærslukostnaður nemenda á Ísafirði er umtalsvert lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Húsaleiga er allt að helmingi lægri og nær öll þjónusta er í göngufjarlægð frá Háskólasetrinu og flestum af þeim búsetumöguleikum sem eru í boði fyrir nemendur.

Öll þjónusta í Ísafjarðarbæ er eins og best verður á kosið; hér er fullkomið sjúkrahús og heilsugæsla, bókasafn, tónlistar- og listaskólar, framhaldsskóli og grunn- og leikskólar. Í miðbæ Ísafjarðar eru fjölbreyttar verslanir, kaffihús og veitingastaðir.

Á Ísafirði er aðstaða til útivistar og íþróttaiðkunar til fyrirmyndar, fjölmörg íþróttafélög eru starfrækt og líkamsræktarstöð er í miðbænum. Frábærar aðstæður eru til iðkunar vetraríþrótta og fjallamennsku en fjölbreyttar skíðabrekkur og skíðagöngubrautir eru steinsnar frá miðbænum. Auk þess er aðstaða fyrir hverskyns sjóíþróttir afar góð og skemmtilegur golfvöllur er í næsta nágrenni. Mikið sönglíf er á Ísafirði og eru nokkrir ólíkir áhugamannakórar starfandi í bænum.

Menningarlíf bæjarins er þekkt fyrir að vera einstaklega kröftugt, en hápunktar þess eru nokkrar árlegar menningarhátíðir. Tónlistarhátíðirnar Aldrei fór ég suður, sem er haldin um páskana og Við Djúpið sem fram fer í lok júní ár hvert, hafa markað sér sess í íslensku tónlistarlífi. Þá er leiklistarhátíðin Act alone sem fram fer í byrjun júlí, einnig orðinn fastur liður í menningarlífi bæjarins en þar er einleikjaformið í brennidepli. Einnig er vert að minnast á hið árlega og stórskemmtilega Mýrarboltamót um Verslunarmannahelgina, sem hefur verið haldið allar götur frá árinu 2004.

Á Vestfjörðum eru óþrjótandi möguleikar til að njóta fjölbreytilegs mannlífs og einstakrar náttúru og hvetjum við áhugasama til að kynna sér allt það sem fjórðungurinn hefur uppá að bjóða á upplýsingasíðunni westfjords.is.

Starfsmenn Háskólaseturs aðstoða nemendur í hvívetna til að þeir aðlagist fljótt og vel í vestfirsku samfélagi.

Nánari upplýsingar um þjónustu bæjarins má nálgast á vef Ísafjarðarbæjar.

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­Frekari upplýsingar um viðburði í Ísafjarðarbæ má nálgast á viðburðasíðu bæjarins.

Ljósmynd: Kjartan Pétur Sigurðsson.
Ljósmynd: Kjartan Pétur Sigurðsson.

Nemendum við Háskólasetur Vestfjarða stendur til boða fjölbreytt úrval af leiguhúsnæði á Ísafirði, allt frá stökum herbergjum upp í minni íbúðir í einkaeigu. Algengast er að nemendur leigi herbergi með aðgangi að baði og eldhúsi. Almennt séð er húsnæðisverð á Ísafirði umtalsvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu og nær öll þjónusta í göngufjarlægð frá flestum af þeim búsetukostum sem í boði eru.

Háskólasetur Vestfjarða bendir sérstaklega á einkarekna húsnæðisþjónustu, University Center of the Westfjords Housing, sem er sérsniðin að nemendum í meistaranámi við Háskólasetrið.