Nemendur

Árlega koma hingað nemendur víðsvegar að úr heiminum með fjölbreytta reynslu og ólíkan náms bakgrunn. Við hjá Háskólasetri Vestfjarða erum afar stolt af okkar fjölþjóðlega nemendahópi.

Leiðir nemenda að meistaranámi við Háskólasetrið eru afar ólíkar, sumir koma til Ísafjarðar að loknu grunnnámi á meðan aðrir hafa víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Þessi fjölbreytti bakgrunnur og þverfaglega færni nemenda auðgar námið á allan hátt. Fjölbreytt lífsreynsla og ólík sjónarhorn nemenda skapa líflegt námsumhverfi þar sem kennarar og nemendur miðla af eigin upplifun og fyrri reynslu. 

Meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða býður upp á sveigjanleika sem gefur nemendum tækifæri til að aðlaga námið að eigin þörfum. Fjölbreytt námskeið eru í boði og nemendur geta sótt um að fá einingar úr starfsnámi eða öðrum námskeiðum metnar. Skipulag námsleiðanna er þverfaglegt og undirbýr  nemendur undir fjölbreytt störf að námi loknu.

Skapast hefur sú hefð að nemendur Háskólaseturs Vestfjarða útskrifast að á þjóðhátíðardag Íslendinga þann 17. júní við hátíðlega athöfn að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Að loknu námi fara margir erlendis á meðan aðrir nýta menntun sína hérlendis og skjóta rótum á Íslandi. Hvað sem nemendur ákveða að gera að námi loknu þá fara þeir héðan með haldbæra menntun sem veitir þeim fjölbreytt tækifæri á alþjóðavettvangi.

Tölulegar upplýsingar um útskrifaða nemendur og atvinnumöguleika þeirra að námi loknu má finna í starfsskýrslu um starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða. Einnig hefur Daniel Metzger útskriftarnemi frá árinu 2013 skrifað áhugavert blogg um tækifærin að loknu meistaranámi í Haf- og strandsvæðastjórnun.