Á föstudaginn var haldin útskriftarhátíð í Háskóla unga fólksins hjá Háskólasetri Vestfjarða. Háskóli unga fólksins er ein vika þar sem í boði eru stutt námskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 12-16 ára þar sem háskólamenntað fólk kynnir fræðasvið sín fyrir unga fólkinu og segir frá þeim möguleikum sem fyrir hendi eru í rannsóknum og störfum að loknu sérhæfðu háskólanámi.
Námskeiðin sem í boði voru afbrotafræði, fiskeldisrannsóknir, landslagshönnun, leiklistarfræði, lögfræði, læknisfræði, matvæla- og næringarfræði, snjóflóðafræði, umhverfisfræði, verkfræði og loks var námskeið um Vísindavefinn þar sem krakkarnir fengu að spreyta sig á því að leita að svörum við spurningum sem höfðu komið á Vísindavefnum.
Það er skemmst frá því að segja að viðtökurnar við Háskóla unga fólksins voru mjög góðar og þátttakan fór fram úr björtustu vonum. 42 krakkar af svæðinu, þar á meðal frá Hólmavík og Tálknafirði, sóttu námskeiðin þessa viku og voru krakkarnir yfir höfuð mjög ánægð með námskeiðin og kennarana.
Við útskriftina fengu börnin viðurkenningarskjal ásamt trjáplöntu sem vonast er til að þau setji niður og geti þannig fylgst með vexti hennar eftir því sem árin líða og þau ná lengra og lengra í námi. Vonandi verður Háskóli unga fólksins til þess að sýna börnunum okkar að það er björt framtíð á Vestfjörðum og ýmislegt spennandi hægt að starfa við hér á svæðinu að loknu háskólanámi.