Vísindaport - Rauði krossinn – útbreiddasta mannúðarhreyfing heims

Bryndís Friðgeirsdóttir er gestur í Vísindaporti vikunnar. Bryndís er svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum. Rauði krossinn er elsta, virtasta og útbreiddasta mannúðarhreyfing heims með starfsemi í 185 löndum. Hugsjónargrundvöllur félagsins er fólginn í markmiðunum sjö um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu. Sérhverjum starfsmanni og sjálfboðaliða félagsins um heim allan ber að starfa samkvæmt þessum grundvallarmarkmiðum.

Á íslandi er 51 Rauða kross deild starfandi. Þar af eru á Vestfjörðum virkar deildir með starfsemi í Bolungarvík, Dýrafirði, Súðavík, Súgandafirði, Önundarfirði, Ísafirði,Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði. Bryndís mun segja frá starfi hreyfingarinnar á heimsvísu og helstu verkefnum hér á landi. Sérstaklega verður farið yfir þau verkefni sem Rauði krossinn vinnur á Vestfjörðum.

Bryndís er kennaramenntuð frá Kennaraháskóla íslands og kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í 15 ár. Hún hefur starfað sem svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum í 10 ár.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Háskólasetur Vestfjarða – Framtíðarsýn

Kynnt verður framtíðarsýn Háskólaseturs Vestfjarða sem starfsmenn setursins hafa unnið að undanfarið. Háskólasetrið hyggst byggja upp orðspor með það að markmiði að verða Háskóli hafsins og hefur verið mörkuð stefna sem á að vinna að því markmiði.

Háskólasetur Vestfjarða og Snerpa skrifa undir samstarfssamning

Tölvufyrirtækið Snerpa á Ísafirði hefur nú alfarið tekið að sér umsjón vefmála Háskólaseturs Vestfjarða. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, og Matthildur Helgadóttir, framkvæmdastjóri Snerpu, skrifuðu undir samning þar að lútandi nú í morgunn.

Háskólasetur og Háskólinn á Akureyri skrifa undir viljayfirlýsingu

Laugardaginn 8. september hélt Háskólinn á Akureyri upp á 20 ára afmæli skólans. Á þessum tímamótum skrifuðu forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Peter Weiss, og rektor Háskólans á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, undir viljayfirlýsingu. Í viljayfirlýsingunni lýsir Háskólinn á Akureyri því yfir að skólinn taki að sér að hýsa nýja námsleið Háskólaseturs Vestfjarða í haf- og strandsvæðastjórnun. Í þessu felst að nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða verða formlega innritaðir í Háskólann á Akureyri og útskrifast með gráðu þaðan en námið fer að öllu leyti fram við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði og verður að öllu leyti í umsjón Háskólaseturs Vestfjarða. Háskólinn á Akureyri tryggir gæðaeftirlit með námsleiðinni og viðurkennir námið sem fullgilt meistaranám.

Án þess að nám sé viðurkennt hjá viðurkenndum háskóla telst það ekki fullgilt. Slíkt nám væri erfitt að fjármagna, það væri ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og væri útskrift úr óviðurkenndu námi ekki mikils virði fyrir nemendurna. Samkvæmt háskólalögum þurfa þeir sem bjóða upp á háskólanám að fara í gegnum ákveðið viðurkenningarferli til að tryggja að gráður sem veittar eru í íslenskum háskólum standist alþjóðasamanburð.

Námsleiðin í Haf- og strandsvæðastjórnun hefur verið þróuð hjá Háskólasetrinu undanfarna mánuði. Um er að ræða alþjóðlegt, þverfaglegt 120 ECTS-nám á meistarastigi, kennt í þriggja vikna lotum til að geta laðað að gestakennara, þegar þess er þörf. Stefnt er að því að byrja haustið 2008 með 15 námsmönnum. Námið er ekki sjávarútvegsfræði í þröngri merkingu, heldur gengur það út á stjórnun haf- og strandsvæða út frá víðu sjónarhorni. Fleiri námsleiðir byggðar á þessu mynstri eru í undirbúningi um þessar mundir.

Viljayfirlýsingin sem skrifað var undir á laugardag færir því Háskólasetur Vestfjarða töluvert nærri markmiði sínu að verða Háskóli Hafsins.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þá Þorstein Gunnarsson rektor HA og Peter Weiss forstöðumann HSvest skrifa undir viljayfirlýsinguna og handsala hana að lokinni undirskrift.
Við undirskrift
Við undirskrift

Hvað gerir iðjuþjálfi?

Harpa Guðmundsdóttir er fyrirlesari vikunnar í Vísindaporti. Harpa er iðjuþjálfi að mennt, útskrifaðist með BS gráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri árið 2003. Hún hefur starfað á Ísafirði síðan, fyrst við Heilbrigðisstofnunina og nú einnig við Vesturafl.

Í fyrirlestrinum mun Harpa fjalla um hvað iðjuþjálfun er og fyrir hverja. Einnig kemur hún til með að tala aðeins um námið sjálft en það er einkar vel við hæfi núna þar sem til stendur að bjóða upp á iðjuþjálfanám í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri í fyrsta sinn haustið 2008. Þeir sem hafa áhuga á að fara í fjarnám í iðjuþjálfun eru því sérstaklega hvattir til að mæta og kynna sér um hvað starfið snýst.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.
Eldri færslur