Með bréfi þann 23. maí s.l. var það staðfest af deildarforseta heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri að skólinn hygðist verða við beiðni Háskólaseturs Vestfjarða um að nýr hópur á Ísafirði hefji fjarnám í hjúkrunarfræði við skólann haustið 2008.
Á haustmisseri 2007 býður Símenntun Háskólans á Akureyri í þriðja sinn tvær þriggja missera námsleiðir samhliða starfi. Í samstarfi við Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, stjórnunarnám með áherslu á viðfangsefni sveitarfélaga og í samstarfi við viðskipta- og raunvísindadeild HA, rekstrar- og viðskiptanám.
Útibú Háskólans á Bifröst á Ísafirði var opnað í gær. Útibúið verður til húsa og í umsjón Háskólaseturs Vestfjarða. Tilgangurinn með opnun slíks útibús er að þjónusta nemendur Háskólans á Bifröst og þá er um að ræða bæði væntanlega nemendur og þá sem nú þegar stunda nám á Bifröst.
Í dag kl. 15:00 verður nýtt útibú Háskólans á Bifröst opnað á Ísafirði. Útibúið verður til húsa í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða. Martha Lilja Olsen, kennslustjóri Háskólasetursins, mun sjá um útibú Háskólans á Bifröst. Martha Lilja þekkir vel til skólastarfs á Bifröst en hún útskrifaðist með MA gráðu í Evrópufræðum frá skólanum árið 2006.