Málþing um hafrannsóknir

Átta vísindamenn frá stofnuninni Villfiskforum í Noregi eru nú í heimsókn hjá Háskólasetri Vestfjarða. Miðvikudaginn 31. október verður málþing um hafrannsóknir í Háskólasetrinu í tilefni af komu Norðmannanna.

Óbeisluð fegurð

Umfjöllunarefnið í Vísindaporti vikunnar er óhefðbundið að þessu sinni en gestur vikunnar er m.a. Matthildur Helgadóttir, einn af forsprökkum fegurðarsamkeppninnar Óbeisluð fegurð. Óbeisluð fegurð er, eins og flestir vita, óhefðbundin fegurðarsamkeppni sem var haldin í félagsheimilinu í Hnífsdal þann 18. apríl 2007.

“Þorparar og þéttbýlismyndun”

Sigurður Pétursson sagnfræðingur heldur fyrirlestur sem hann nefnir “Þorparar og þéttbýlismyndun”í Háskólasetri, n.k. mánudag, þann 22. október kl. 20:00.

Náttúrutengd ferðaþjónusta

Gestur vikunnar í Vísindaporti er Ralf Trylla. Ralf er að vinna að meistararitgerð og er það ástæðan fyrir veru hans á Vestfjörðum. Hann mun kynna meistaraverkefnið sitt í Vísindaportinu, en það fjallar um ferðaþjónustu á Vestfjörðum og er rannsókninni sérstaklega ætlað að skoða náttúrutengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Ralf Trylla er stúdent við Háskólann í Wädenswil í Sviss en þar leggur hann stund á nám á sviði ferðamála- og umhverfisfræða. Hann kom til Ísafjarðar fyrir tveimur vikum og er því nýbyrjaður að vinna að verkefni sínu og því væri mjög gagnlegt fyrir hann að fá innsýn og athugasemdir frá sem flestum sem tengjast ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Kynningin mun fara fram á ensku og hefst kl. 12. Vonast er til að sem flestir sem láta sig varða ferðamál á Vestfjörðum sjái sér fært að mæta og nýti sér tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum og hugmyndum sem gagnast geta við vinnslu lokaverkefnis Ralfs.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Vísindaport - Rauði krossinn – útbreiddasta mannúðarhreyfing heims

Bryndís Friðgeirsdóttir er gestur í Vísindaporti vikunnar. Bryndís er svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum. Rauði krossinn er elsta, virtasta og útbreiddasta mannúðarhreyfing heims með starfsemi í 185 löndum. Hugsjónargrundvöllur félagsins er fólginn í markmiðunum sjö um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu. Sérhverjum starfsmanni og sjálfboðaliða félagsins um heim allan ber að starfa samkvæmt þessum grundvallarmarkmiðum.

Á íslandi er 51 Rauða kross deild starfandi. Þar af eru á Vestfjörðum virkar deildir með starfsemi í Bolungarvík, Dýrafirði, Súðavík, Súgandafirði, Önundarfirði, Ísafirði,Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði. Bryndís mun segja frá starfi hreyfingarinnar á heimsvísu og helstu verkefnum hér á landi. Sérstaklega verður farið yfir þau verkefni sem Rauði krossinn vinnur á Vestfjörðum.

Bryndís er kennaramenntuð frá Kennaraháskóla íslands og kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í 15 ár. Hún hefur starfað sem svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum í 10 ár.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.
Eldri færslur