Hvað gerir iðjuþjálfi?

Harpa Guðmundsdóttir er fyrirlesari vikunnar í Vísindaporti. Harpa er iðjuþjálfi að mennt, útskrifaðist með BS gráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri árið 2003. Hún hefur starfað á Ísafirði síðan, fyrst við Heilbrigðisstofnunina og nú einnig við Vesturafl.

Í fyrirlestrinum mun Harpa fjalla um hvað iðjuþjálfun er og fyrir hverja. Einnig kemur hún til með að tala aðeins um námið sjálft en það er einkar vel við hæfi núna þar sem til stendur að bjóða upp á iðjuþjálfanám í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri í fyrsta sinn haustið 2008. Þeir sem hafa áhuga á að fara í fjarnám í iðjuþjálfun eru því sérstaklega hvattir til að mæta og kynna sér um hvað starfið snýst.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Háskólasamfélag tekur við af námuvinnslu

Longyearbyen er höfuðborg Svalbarða með 1.645 íbúa og var lengst af þekktur fyrir námuvinnslu. Undanfarin ár hefur ferðamennska átt vaxandi þátt í efnahagslífi Longyearbyens og nýlega tók einnig til starfa háskólasetur, sem er sameiginlegt verkefni fjögurra norskra háskóla.

Ian Watson var á Svalbarða í fyrra, og mun sýna myndir og útskýra stuttlega hvernig takmarkaðar auðlindir, breyttir markaðir, og ferskar hugmyndir hafa knúið fram breytingar í samfélaginu á Svalbarða. Ian nefnir fyrirlestur sinn: Longyearbyen á Svalbarða: Námuvinnsla hverfur, ferðamennska og háskólasamfélag taka við.

Ian Watson er lektor við Háskólann á Bifröst. Hann hefur lengi haft áhuga á Norðurskautsmálum og átti frumkvæði að því að koma Bifröst í Háskóla Norðurslóða (University of the Arctic), en Háskólasetur Vestfjarða er einnig meðlimur í University of the Arctic. Ian er með B.A. gráðu í málvísindum frá Harvard og Ph.D. gráðu í félagsfræði frá Rutgers University.

Þetta vísindaportserindi er ekki síst áhugavert vegna þess að hjá Háskólasetrinu á Svalbarða taka árlega um 350 námsmenn frá öllum heimshornum þátt í einu eða fleiri námskeiðum, en háskólasetrið þar var sett á laggirnar árið 1993. Helmingur námsmanna þar eru Norðmenn og helmingur alþjóðlegir. Þegar nýja námsleiðin hjá HSvest í Haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management), sem á að byrja haustið 2008 í samvinnu við HA, var hönnuð, var reyndar höfð til hliðsjónar þessi fyrirmynd á Svalbarða: www.unis.no

Rektor Háskólans í Reykjavík í heimsókn í Háskólasetri Vestfjarða

Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, er væntanleg í heimsókn í Háskólasetur Vestfjarða miðvikudaginn 12. september.

Sumarháskóli í íslensku á háskólastigi

Sumarháskóli í íslensku á háskólastigi stendur nú yfir við Háskólasetur Vestfjarða. Þessa dagana stunda 15 námsmenn frá Bandaríkjunum, Norðurlöndum og Þýskalandi þetta nám.
Nemendur og kennari í Íslensku
Nemendur og kennari í Íslensku

Fyrirlestur í Háskólasetri: Kennsla í töluðu máli

Í dag, föstudag kl. 17:00, mun Sigríður Þorvaldsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, halda erindi sem hún nefnir: Kennsla í töluðu máli - Aðgerðir og árangur. Í erindinu verður sjónum beint að töluðu máli og sérstöðu þess í kennslu íslensku sem annars máls.
Eldri færslur