Námskeið í almannatengslum smærri fyrirtækja og stofnana

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á örnámskeið í almannatengslum fyrir smærri stofnanir og fyrirtæki.  Kennari er Lindsay Simpson, lektor og yfirmaður blaðamennskunáms við James Cook University í Ástralíu.  Lindsay var einn af stofnendum fjölmiðladeildar Háskólans í Tasmaníu og veitti henni forstöðu um skeið.  Hún hefur mikla reynslu af fjölmiðlum og starfaði m.a. í 12 ár sem rannsóknarblaðamaður á The Sydney Morning Herald.  Þá hefur hún skrifað fjölda bóka en nýverið kom hennar fyrsta skáldsaga út á vegum Random House í Ástralíu.

Námskeiðið fer fram í stofu 2 í Háskólasetri þriðjudaginn 13. nóvember frá kl. 9-12 og er öllum opið.  Þátttökugjald er aðeins 2000 krónur, léttar veitingar innifaldar.

Athugið að kennslan fer fram á ensku.

Kvöldfyrirlestur með Lindsay Simpson

Í kvöld klukkan 20.00 heldur rithöfundurinn og háskólakennarinn Lindsay Simpson opinn fyrirlestur í fundarsal Háskólaseturs. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „The Curer of Souls: writing Australias convict past" sem gæti útlagst á íslensku „Sálnahirðirinn: að skrifa um refsifangafortíð Ástralíu." Margar nýlegar ástralskar skáldsögur fjalla um tengsl búsetu hvítra manna í Ástralíu við fortíð landsins sem refsifanganýlendu. Í skáldsögu sinni The Curer of Souls kannar Lindsay Simpson lífið í Van Diemen's Land, sem nú heitir Tasmanía, en þar var í upphafi 19. aldar sett á fót fanganýlenda. Skáldsagan byggir á þremur 19. aldar dagbókum og í henni er leitast við að skapa samtal á milli fortíðar og samtíðar.


Lindsay Simpson er verðlaunaður rithöfundur og háskólakennari, The Curer of Souls, sem út kom hjá Random House á síðasta ári, er hennar fyrsta skáldsaga. Áður hefur hún sent frá sér þrjár bækur sem fjalla um raunverulega glæpi, eina ævisögu og ferðabók um Tasmaníu. Hún er yfirmaður blaðamennskunáms við James Cook University.


Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn sem er hluti af sameiginlegri fyrirlestraröð Háskólaseturs og Vestfjarðaakademíunnar. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Á morgun þriðjudag heldur Lindsay Simpson einnig örnámskeið í almannatengslum fyrir smærri stofanir og fyrirtæki á vegum Háskólaseturs.

Náms- og starfsráðgjöf á vinnustöðum

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Björn Hafberg, náms- og starfsráðgjafi. Björn mun segja frá þriggja ára verkefni á vegum stjórnvalda um náms- og starfsráðgjöf á vinnustöðum. Björn hefur unnið að verkefninu á Vestfjörðum og mun gera grein fyrir helstu niðurstöðum sem varða Vestfirði samkvæmt áfangaskýrslu verkefnisins sem skilað var nýlega.

Björn Hafberg er fæddur og uppalinn á Flateyri og starfar við kennslu og ráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum ásamt því að starfa við náms- og starfsráðgjöf m.a. hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hann er með B.ed próf frá Kennaraháskóla Íslands, BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið námi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Starf fagstjóra í Haf- og strandsvæðastjórnun / Master´s program director

Nú hefur verið auglýst eftir fagstjóra í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Staðan er auglýst á alþjóðlegum vettvangi og er ein af þeim sem fjármagn fékkst fyrir í Vestfjarðarskýrslunni á vormánuðum. Staðan er ein af þremur sem komu til í kjölfar Vestfjarðaskýrslunnar, en hinar tvær eru verkefnisstjóri og sérfræðingur á alþjóðasviði, en þegar hefur verið ráðið í þær stöður. Umsóknarfresturinn hefur verið framlengdur til og með 19. nóvember n.k.

Auglýsingin á íslensku
In English

Umhverfiskerfi: Grænþvottur fyrirtækja eða leið að sjálfbærni?

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Gunnar Páll Eydal.  Gunnar Páll mun fjalla um hvernig og hvers vegna fyrirtæki hafa tekið á umhverfismálum fyrr og nú. Tekið verður dæmi um innihald og notkun á umhverfiskerfum og þeirri spurningu varpað fram hvort þau séu einungis grænþvottur fyrirtækja eða hvort þau séu mikilvægt tæki til að stuðla að sjálfbærri þróun. Jafnframt verður spurt hvaða erindi umhverfiskerfi eigi við fyrirtæki á Vestfjörðum, t.d. í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

 

Gunnar Páll fluttist til Ísafjarðar ásamt fjölskyldu sinni árið 2004.  Hann er með BS gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands og meistarapróf í umhverfis- og auðlindastjórnun frá Simon Fraser University, The School of Resource and Environmental Management.  Hann starfar nú hjá Teiknistofunni Eik á Ísafirði.

 

Eldri færslur