Náms- og starfsráðgjöf á vinnustöðum

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Björn Hafberg, náms- og starfsráðgjafi. Björn mun segja frá þriggja ára verkefni á vegum stjórnvalda um náms- og starfsráðgjöf á vinnustöðum. Björn hefur unnið að verkefninu á Vestfjörðum og mun gera grein fyrir helstu niðurstöðum sem varða Vestfirði samkvæmt áfangaskýrslu verkefnisins sem skilað var nýlega.

Björn Hafberg er fæddur og uppalinn á Flateyri og starfar við kennslu og ráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum ásamt því að starfa við náms- og starfsráðgjöf m.a. hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hann er með B.ed próf frá Kennaraháskóla Íslands, BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið námi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Starf fagstjóra í Haf- og strandsvæðastjórnun / Master´s program director

Nú hefur verið auglýst eftir fagstjóra í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Staðan er auglýst á alþjóðlegum vettvangi og er ein af þeim sem fjármagn fékkst fyrir í Vestfjarðarskýrslunni á vormánuðum. Staðan er ein af þremur sem komu til í kjölfar Vestfjarðaskýrslunnar, en hinar tvær eru verkefnisstjóri og sérfræðingur á alþjóðasviði, en þegar hefur verið ráðið í þær stöður. Umsóknarfresturinn hefur verið framlengdur til og með 19. nóvember n.k.

Auglýsingin á íslensku
In English

Umhverfiskerfi: Grænþvottur fyrirtækja eða leið að sjálfbærni?

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Gunnar Páll Eydal.  Gunnar Páll mun fjalla um hvernig og hvers vegna fyrirtæki hafa tekið á umhverfismálum fyrr og nú. Tekið verður dæmi um innihald og notkun á umhverfiskerfum og þeirri spurningu varpað fram hvort þau séu einungis grænþvottur fyrirtækja eða hvort þau séu mikilvægt tæki til að stuðla að sjálfbærri þróun. Jafnframt verður spurt hvaða erindi umhverfiskerfi eigi við fyrirtæki á Vestfjörðum, t.d. í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

 

Gunnar Páll fluttist til Ísafjarðar ásamt fjölskyldu sinni árið 2004.  Hann er með BS gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands og meistarapróf í umhverfis- og auðlindastjórnun frá Simon Fraser University, The School of Resource and Environmental Management.  Hann starfar nú hjá Teiknistofunni Eik á Ísafirði.

 

Nýr starfsmaður Háskólaseturs

Fyrsta nóvember síðastliðinn hóf Ingi Björn Guðnason störf hjá Háskólasetri Vestfjarða. Ingi Björn er verkefnastjóri og mun til að byrja með hafa umsjón með uppbyggingu nýrrar vefsíðu Háskólaseturs. Hjá Háskólasetri er í uppbyggingu frumgreinanám og ný námsleið á mastersstigi í Haf- og strandsvæðastjórnun, í því samhengi var nauðsynlegt að hugsa vefsíðuna í stærra samhengi en hún er hönnuð af Ágústi Atlasyni hjá Snerpu. Ingi mun í framhaldinu einnig sinna almannatengslum sem og námsmannakomum, námskeiðum og ýmsu öðru. Hann er bókmenntafræðingur að mennt og er að ljúka MA-prófi frá Háskóla Íslands en lokaritgerð hans fjallar um skáldsögur Jóns Kalmans Stefánssonar.

Málþing um hafrannsóknir

Átta vísindamenn frá stofnuninni Villfiskforum í Noregi eru nú í heimsókn hjá Háskólasetri Vestfjarða. Miðvikudaginn 31. október verður málþing um hafrannsóknir í Háskólasetrinu í tilefni af komu Norðmannanna.
Eldri færslur