Öryggi í stað stærðar

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Sigurður Arnfjörð Helgason, starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða.  Sigurður mun byggja fyrirlestur sinn á lokaverkefni sínu í MBA námi sem hann lauk fyrr á þessu ári.  Í ritgerðinni fjallaði Sigurður um þann galla sem hann telur vera á hlutabréfamarkaði þar sem aðallega  3 mánaða uppgjör og skammtímasjónarmið ráða ríkjum. Í ritgerðinni lagði hann til að Save 500 sjóður (500 best reknu fyrirtækin) yrði stofnaður á svipaðan hátt og Fortune 500 (500 stærstu fyrirtækin) var á sínum tíma. Þar yrðu áherslurnar á árangur fyrirtækja til lengri tíma og rekstur fyrirtækja á hlutabréfamarkaði  yrði þá í meira jafnvægi að mati Sigurðar.  Ritgerð Sigurðar nefnist: Save 500 Versus Fortune 500.  Sigurður mun í stuttu máli fjalla um þetta efni í Vísindaportinu á föstudaginn 23. nóvember n.k. 

Sigurður Arnfjörð Helgason er með BS gráðu í stjórnun frá Coastal Carolina University og MBA gráðu frá Webster University í St. Louis í Bandaríkjunum.  Hann hóf störf við Háskólasetur Vestfjarða í september s.l. og starfar sem sérfræðingur á alþjóðasviði.

 

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

 

Háskólasetur skrifar undir samning við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 15. nóvember skrifaði Háskólasetur Vestfjarða undir samning um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík.  Samningurinn felur í sér að frumgreinanám Háskólans í Reykjavík verður kennt við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði.  Námið verður kennt í dagskóla og er ætlað fólki sem ekki hefur stúdentspróf til þess að auka möguleika þess á því að komast í háskólanám.  Frumgreinanám HR er fyrst og fremst undirbúningur fyrir frekara nám í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík en hins vegar gefur frumgreinaprófið nemendum mjög góða möguleika á því að komast inn í annað háskólanám þar sem hér er um mjög gott alhliða undirbúningsnám að ræða.  Frumgreinanám Háskólans í Reykjavík byggir á áratuga reynslu þar sem námið byggir á grunni frumgreinanáms Tækniskóla Íslands sem síðan varð Tækniháskóli Íslands og er nú hluti af Háskólanum í Reykjavík.  Háskólasetrið er þegar farið að taka við umsóknum frá væntanlegum nemendum og er vonast til að hægt verði að mynda sterkan og góðan hóp frumkvöðla sem vilja ríða á vaðið í fullt nám.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér námið frekar er bent á að skoða upplýsingar um námið hér á heimasíðu Háskólasetursins eða hafa samband við Mörthu Lilju Olsen, þjónustu- og kennslustjóra setursins.
Á myndinni má sjá Mörthu Lilju Olsen, þjónustu- og kennslustjóra og Málfríði Þórarinsdóttur sviðsstjóra frumgreinasviðs HR handsala samninginn.  Bak við þær standa Gunnar Guðni Tómasson forseti tækni- og verkfræðideildar HR og Svafa Grönfeldt rektor HR.
Á myndinni má sjá Mörthu Lilju Olsen, þjónustu- og kennslustjóra og Málfríði Þórarinsdóttur sviðsstjóra frumgreinasviðs HR handsala samninginn. Bak við þær standa Gunnar Guðni Tómasson forseti tækni- og verkfræðideildar HR og Svafa Grönfeldt rektor HR.

Veðrið var blítt og hreint en ekki sá til sólar

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Ingi Björn Guðnason nýr starfsmaður Háskólaseturs. Í tilefni þess að á föstudaginn eru liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar mun Ingi Björn fjalla um þrjú lausamálsverk skáldsins, sögurnar „Grasaferð" og „Stúlkan í turninum" ásamt bréfi sem skáldið ritaði í júlí 1841. Verkin þrjú eru ólík en eiga það sameiginlegt að í þeim öllum er undirliggjandi ógn eða hætta.


Ingi Björn lauk B.A-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og starfaði sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini - húsi skáldsins áður en hann hóf störf við Háskólasetur. Hann er að ljúka M.A-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, en lokaritgerð hans fjallar um skáldsögur Jóns Kalmans Stefánssonar.

Námskeið í almannatengslum smærri fyrirtækja og stofnana

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á örnámskeið í almannatengslum fyrir smærri stofnanir og fyrirtæki.  Kennari er Lindsay Simpson, lektor og yfirmaður blaðamennskunáms við James Cook University í Ástralíu.  Lindsay var einn af stofnendum fjölmiðladeildar Háskólans í Tasmaníu og veitti henni forstöðu um skeið.  Hún hefur mikla reynslu af fjölmiðlum og starfaði m.a. í 12 ár sem rannsóknarblaðamaður á The Sydney Morning Herald.  Þá hefur hún skrifað fjölda bóka en nýverið kom hennar fyrsta skáldsaga út á vegum Random House í Ástralíu.

Námskeiðið fer fram í stofu 2 í Háskólasetri þriðjudaginn 13. nóvember frá kl. 9-12 og er öllum opið.  Þátttökugjald er aðeins 2000 krónur, léttar veitingar innifaldar.

Athugið að kennslan fer fram á ensku.

Kvöldfyrirlestur með Lindsay Simpson

Í kvöld klukkan 20.00 heldur rithöfundurinn og háskólakennarinn Lindsay Simpson opinn fyrirlestur í fundarsal Háskólaseturs. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „The Curer of Souls: writing Australias convict past" sem gæti útlagst á íslensku „Sálnahirðirinn: að skrifa um refsifangafortíð Ástralíu." Margar nýlegar ástralskar skáldsögur fjalla um tengsl búsetu hvítra manna í Ástralíu við fortíð landsins sem refsifanganýlendu. Í skáldsögu sinni The Curer of Souls kannar Lindsay Simpson lífið í Van Diemen's Land, sem nú heitir Tasmanía, en þar var í upphafi 19. aldar sett á fót fanganýlenda. Skáldsagan byggir á þremur 19. aldar dagbókum og í henni er leitast við að skapa samtal á milli fortíðar og samtíðar.


Lindsay Simpson er verðlaunaður rithöfundur og háskólakennari, The Curer of Souls, sem út kom hjá Random House á síðasta ári, er hennar fyrsta skáldsaga. Áður hefur hún sent frá sér þrjár bækur sem fjalla um raunverulega glæpi, eina ævisögu og ferðabók um Tasmaníu. Hún er yfirmaður blaðamennskunáms við James Cook University.


Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn sem er hluti af sameiginlegri fyrirlestraröð Háskólaseturs og Vestfjarðaakademíunnar. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Á morgun þriðjudag heldur Lindsay Simpson einnig örnámskeið í almannatengslum fyrir smærri stofanir og fyrirtæki á vegum Háskólaseturs.

Eldri færslur