þriðjudagur 3. ágúst 2010

Yfir hundrað nemendur læra íslensku

Í gær hófst þriggja vikna námskeið í íslensku við Háskólasetur Vestfjarða. Meira en hundrað nemendur frá Evrópu, Norður-Ameríku og meira að segja frá Hong Kong komu til Ísafjarðar og á Núp í Dýrafirði í gær til að taka þátt í námskeiðinu sem nú er haldið þriðja árið í röð fyrir Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. Flestir nemendurnir eru Erasmus og Nordplus styrkþegar sem hefja háskólanám á Íslandi í haust. Einnig taka þátt í námskeiðinu nemendur sem koma á eigin vegum, auk meistaranema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið sem hefja nám september.

Þótt flestir komi vestur á hefðbundinn hátt, með flugi eða rútu, ákvað Victor Francisco Pajuelo Madrigal, nemandi í heimspeki og málvísindum frá Barcelona, að hjóla alla leið frá Reykjavík til Núps í Dýrafirði þar sem stærstur hluti nemendanna dvelja. Hjólreiðaferð Victors tók tólf daga og tókst honum að skoða margt á leiðinni auk þess að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur frá Stykkishólmi. „Þegar ég var kominn á Vestfjarðakjálkann bilaði hjólið mitt og ég þurfti að teyma það um 20 kílómentra. Fólk var ótrúlega hjálpsamt alla ferðina en sérstaklega hér á Vestfjörðum." Segir Victor og bætir því við að honum hafi jafnvel verið boðið að borða nokkrum sinnum.

Á næstu þremur vikum munu nemendurnir fá alhliða þjáfun í íslensku og verða kennsluaðferðirnar fjölbreyttar og nútímalegar. „Við leggjum mikla áherslu á samkiptafærni, enda viljum við að nemendurnir geti notað tungumálið í sínu daglega lífi. Til þess sameinum við bekkjarvinnu, hópavinnu og vettvangsvinnu í kennslunni til að gefa nemendunum sem besta námsreynslu og útkomu", útskýrir Heiðrún Tryggvadóttir, verkefnastjóri.

Námskeiðið er því síður en svo aðeins vinna og ekkert gaman. Til að kynnast íslenskri menningu og samfélagi sem best gefst þátttakendum kostur á að velja úr fjölmörgum valnámskeiðum á borð við dans, kórsöng og verslunarrallí, en einnig er boðið upp á hefðbundnari valnámskeið svo sem um málfræði, sögu og bókmenntir.

Mikilvægast af öllu er þó að gefa nemendunum tækifæri til að sökkva sér í íslenskuna í þrjár vikur og kynnast málinu sem best á þeim tíma. Undanfarin ár hafa Ísfirðingar verið mjög hjálpsamir og aðstoðað nemendurna í náminu með því að tala við þá íslensku. Með því að viðhalda þessari hefð má segja að fjöldi ómetanlegra aðstoðarkennara taki þátt í kennslunni.

Victor Francisco Pajuelo Madrigal frá Barcelona gerði sér lítið fyrir og hjólaði alla leið frá Reykjavík. Þrátt fyrir að hjólið hafi bilað á leiðinni var hann ánægður með ferðalagið og ekki síst allt hjálpsama fólkið sem varð á vegi hans.
Victor Francisco Pajuelo Madrigal frá Barcelona gerði sér lítið fyrir og hjólaði alla leið frá Reykjavík. Þrátt fyrir að hjólið hafi bilað á leiðinni var hann ánægður með ferðalagið og ekki síst allt hjálpsama fólkið sem varð á vegi hans.