miðvikudagur 3. ágúst 2011

Yfir eitt hundrað íslenskunemar við Háskólasetrið

Síðla dags þann 1. ágúst tók Háskólasetur Vestfjarða á móti hundrað og sjö nemendum sem munu á næstu þremur vikum stunda nám í íslenskri tungu- og menningu við Háskólasetrið.

Meirihluti nemendanna kemur til landsins sem Nordplus eða Erasmus skiptinemar og dvelja þeir flestir á Hótel Núpi í Dýrafirði á meðan á námskeiðinu stendur. Nemendur læra grunnatriði í íslenskri tungu og menningu á námskeiðinu en hefja svo allir nám við hina ýmsu háskóla á Íslandi.

Þrátt fyrir langan akstur frá Reykjavík voru nemendurnir sem stigu úr rútunni afar spenntir og forvitnir um það sem biði þeirra á næstu dögum. Sumir vildu jafnvel strax hefjast handa við að prófa kunnáttu sína í íslensku. Hópurinn er skemmtilega fjölbreyttur enda eiga einstaklingar innan hans ólík móðurmál auk þess að stunda nám á ólíkum fræðasviðum. Tuttugu af þátttakendum námskeiðsins eru hér á eigin vegum og sáu sjálfir um að bóka gistingu á Ísafirði. Þessir nemendur sækja námskeiðið af einskærum áhuga á íslenskri tungu og menningu. Þessi hluti hópsins sækir námskeið sín í Háskólasetrinu á morgnanna en tekur þátt í fjölbreyttum valnámskeiðum ásamt skiptinemunum eftir hádegi.

Meðfram hinu eiginlega tungumálanámi, málfræði- og orðaforðakennslu, á morgnana sækja nemendur valnámskeið eftir hádegi. Valnámskeiðin veita innsýn í ólíka þætti menningar, náttúru og samfélags, m.a. í gegnum fjallgöngur, kórsöng og hljóðaljóð. Sum síðdegisnámskeiðin miða að því að veita nemendum tækifæri til að nota tungumálakunnáttu sína við raunaðstæður. Eitt slíkt námskeið, að fyrirmynd sjónvarpsþáttanna „The Amazing Race", gengur út á nokkurskonar fjársjóðsleit um Ísafjörð. Í fjársjóðsleitinni þurfa þátttakendur að gefa sig að heimamönnum til að komast yfir vísbendingar sem leiða þá að fjársjóðnum. Við vonum að líkt og fyrri ár verði heimamenn duglegir að tala aðeins íslensku við nemendurna.
Þótt megnið af námskeiðinu fari fram á Núpi og Háskólasetrinu fer námskeiðið fram víðar á Vestfjörðum, þar á meðal í Haukadal í Dýrafirði þar sem Gísla saga lifnar við í flutningi Elfars Loga Hannessonar leikara.

Síðastliðin ár hefur það sýnt sig að dvöl íslenskunemanna á Vestfjörðum hefur fangað hug og hjörtu nemendanna enda snúa þeir gjarnan aftur vestur með vinum og fjölskyldu. Þeir eru því sannkallaðir sendiherrar Vestfjarða um allan heim.


Það var líf og fjör á göngum Háskólasetursins þegar tekið var á móti hópi íslenskunema fyrr í vikunni.
Það var líf og fjör á göngum Háskólasetursins þegar tekið var á móti hópi íslenskunema fyrr í vikunni.