fimmtudagur 25. september 2008

Vopnaburður í Vísindaporti

Í fyrsta Vísindaporti haustannar verða vopn og vopnaburður víkinganna til skoðunar. Bandaríski fræðimaðurinn Dr. William Short mun Í erindi sínu á föstudaginn ræða rannsóknir sínar um þetta efni. Hann mun fjalla um þær heimildir sem handhægar eru til að rannsaka vopna og bardagalist á miðöldum. Þá fjallar hann um vopn víkinganna og að lokum mun hann fjalla um niðurstöður rannsókna sinna og ræða hvernig vopn voru notuð af venjulegu fólki í daglegu lífi á víkingaöldinni.

Niðurstöður rannsóknanna eru óvæntar og sýna meðal annars fram á að víkingarnir bjuggu yfir árangursríku bardagalistakerfi. Bardagaðferðir þeirra voru hvorki grófar né einfaldar, heldur hárfínar, fágaðar og háþróaðar. Athugið að fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Dr. William Short hlaut doktorsgráðu sína frá Massachusetts Institute of Technology árið 1980. Síðastliðin ár hefur hann starfað á vegum Higgins Armory Museum, sem er safn um vopn og varnir í Bandaríkjunum.

Starfsmenn safnsins hafa unnið að rannsóknum á bardagalist í Evrópu á miðöldum. Vegna áhuga síns á Íslendingasögunum og öðrum íslenskum miðalda bókmenntum hefur dr. Short rannsakað vopn og bardagatækni víkingatímabilsins, sem hann sýnir safngestum reglulega. Bók hans um rannsóknir á vopnum og vopnaburði á víkingaöldinni verður gefin út af Westholme Publishing í nóvember næstkomandi.

Nánari upplýsingar
Higgins Armory Museum
Westholme Publishing
Viking Weapons and Combat Techniques



Dr. William Short
Dr. William Short
1 af 2