miðvikudagur 1. júlí 2009

Vöktun á ferðum þorsks með merkjasendum

Föstudaginn 3. júlí, kl 12-13, verður Dr. Bruce McAdam með fyrirlestur um vöktun á ferðum þorsks með merkjasendum.  Hafrannsóknastofnunin hefur lengi unnið við að merkja þorsk með merkjasendi sem skráir upplýsingar um dýpi og hitastig sjávarins sem fiskurinn heldur sig á. Fyrir liggja gögn sem ná oft mörg ár aftur í tímann og eru upplýsingarnar skráðar á nokkurra mínutna fresti. Þessi gögn eru borin saman við úttakið úr CODE haffræði líkaninu, til þess að rekja ferð fiskjarins frá merkingu til endurheimtar. Jafnframt er árlegum ferðum þorsksins fylgt eftir.

Bruce McAdam fæst við rannsóknastörf við Háskóla Íslands og felst sú vinna í smíði tölvulíkana sem notuð eru til að rannsaka íslenska þorskstofninn. Eftir að hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði vann Bruce í tvö ár sem fyrirlesari í því fagi áður en hann lauk meistaragráðu í vistfræði þar sem skoðað var sérstaklega áhrif vindmilla á fuglalíf. Áður en hann flutti til Íslands vann Bruce við EU UNCOVER verkefnið, sem snýst um endurheimt fiskistofna með viðeigandi fiskveiðistjórnunar aðgerðum.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku.

Dr. Bruce McAdam
Dr. Bruce McAdam