fimmtudagur 31. janúar 2013

Vits er þörf þeim er víða ratar - Snjóflóðaspá Veðurstofu Íslands

Veðurstofan birtir nú í fyrsta sinn upplýsingar um fallin snjóflóð allstaðar á landinu og snjóflóðahættu á þremur völdum svæðum á vef sínum. Þessar upplýsingar eru mikilvægt tól fyrir almenning, hvort sem er í leik eða starfi. Slíkar snjóflóðaspár eru birtar víða um heim þar sem mannskepnan þarf að takast á við náttúruöflin.

Í Vísindaporti föstudaginn 1. febrúar mun Rúnar Karlsson, starfsmaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands, fara yfir hvernig spáin er gerð, annmarka hennar og sýna nokkur dæmi um notkun slíkra spáa hér og annarsstaðar í heiminum. Líkt og fyrr hefst Vísindaportið kl. 12.10 og fer það fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjaðra.

Kortið á vedur.is sýnir snjóflóðatilkynningar tíu daga aftur í tímann, sem geta verið gagnlegar upplýsingar fyrir ýmsa, t.d. þá sem eru á ferðinni í fjalllendi, þó vitanlega geti fleiri flóð hafa fallið án þess að þau hafi sést eða verið tilkynnt. Því hefur það lítinn tilgang að telja punkta á þessu korti og segja að það sé sá fjöldi snjóflóða sem hafi fallið. En táknin á kortinu segja samt sína sögu um snjóflóð og snjóflóðahættu.

Til viðbótar við þetta kort er nú í fyrsta sinn birt snjóflóðaspá á þessari síðu fyrir valin landsvæði. Reiknað er með því að fleiri landssvæði bætist við þegar fram í sækir. Notast er við alþjóðlegan mælikvarða og er snjóflóðahættunni skipt upp í fimm stig: lítil, nokkur, umtalsverð, mikil og mjög mikil hætta og er litaskali einnig notaður til að tákna hættuna. 


Nánar má lesa um málið á heimasíðu Veðurstofu Íslands.


Skjámynd af ofanflóðakortasjá Veðurstofu Íslands.
Skjámynd af ofanflóðakortasjá Veðurstofu Íslands.