miðvikudagur 11. júní 2014

Vistvæn ferðamennska á Hornströndum

Fimmtudaginn 12. júní næstkomandi munu tveir alþjóðlegir nemendur við Háskóla Íslands, Matthias Kühn og Victor Pajuelo Madrigal, kynna rannsóknarverkefni sem þeir vinna að um vistvæna ferðamennsku á Vestfjörðum með sérstakla áherslu á friðlandið á Hornströndum. Nemendurnir tveir dvelja um þessar mundir við Háskólasetur Vestfjarða og munu á fimmtudaginn kynna verkefnið fyrir hagsmunaaðilum og öllum öðrum sem hafa áhuga á þróun ferðamennsku á Hornströndum.

Kynningin hefst klukkan 12.10 og lýkur kl. 13.00, gestum er velkomið að taka með sér hádegissnarl eða kaupa samloku í Háskólasetrinu. Kynningin fer fram á ensku og er sem fyrr segir opin öllum áhugasömum.

Hér á eftir fer lýsing á verkefninu en hana má einnig nálgast á ensku:

Vöxtur vistvænnar ferðamennsku á Vestfjörðum hefur ekki aðeins í för með sér auknar tekjur því þessum vexti geta einnig fylgt ógnir fyrir viðkvæmt náttúrulíf, ekki síst á svæðum eins og í friðlandinu á Hornströndum sem hefur að geyma mikin líffræðilegan fjölbreytileika. Efnahagslegt gildi slíks svæðis felst að hluta til í ósnortinni náttúru þess og því hve afskekkt það er. Segja má að þetta sé einmitt „varan“ sem ferðamönnum er seld. Af þessum sökum er afar mikilvægt að stýra ferðamannastraumnum til að halda gæðum „vörunnar“ í hámarki bæði fyrir ferðamenn og heimamenn. Stjórnlaus nálgun á ferðamennsku getur leitt til óæskilegra efnahagslegra, félagslegra og visfræðilegra áhrifa, sem mætti koma í veg fyrri með skýrri áætlun.

Tveir meistaranemar við Háskóla Íslands vinna nú að rannsóknarverkefni sem tekst á við þessi viðfangsefni og hafa til þess hlotið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið miðar að því að greina raunveruleg áhrif sem ólíkir þættir ferðamennsku á Hornströndum hafa, með það að markmiði að meta hverjum þeirra skuli stýra betur. Til að tryggja sjálfbæra ferðamennsku á svæðinu er mikilvægt að hagsmunaaðilar komið að þessari stjórnun. Af þeim sökum miðar verkefnið einnig að því að útbúa stjórnunar verkfæri þar sem allir hagsmunaðilar taka þátt. Þetta verkfæri nýtist svo í því að stýra ferðamennskunni og ólíkum þáttum hennar sem kunna að hafa skaðleg áhrif á umhverfi, samfélag og í framhaldinu á efnahagslegt gildi.