Vísindaport: Tvívíðir líkanreikningar og snjóflóðahættumat
Eiríkur mun halda erindi sama efnis á alþjóðlegri ráðstefnu um snjóvísindi ISSW (International Snow Science Workshop) í Davos í Sviss um næstu mánaðarmót.
Snjóflóðahættumat á Íslandi byggir meðal annars á tölfræðilegri greiningu á skriðlengd sögulegra snjóflóða en skriðlengdin hefur verið mæld í svokölluðum rennslisstigum. Tvívíða snjóflóðalíkanið samosAT var notað til að herma hluta flóðanna í gagnasafninu og rennslisstiga¬hugtakið hefur verið víkkað í tvær víddir. Tvívíðu rennslisstigin voru notuð til að bera saman skriðlengdir flóðanna og þær niðurstöður sýna marktækan mun samanborið við niðurstöður fengnar með einvíðu líkani. Það bendir til þess að lögun farvegarins skýri að hluta mun á endurkomutíma snjóflóða í mismunandi farvegum. Þessi aðferð gerir tíðnimat áreiðanlegra en áður og þar með verður hættumat hlutlægara og vægi huglægs mats snjóflóða-sérfræðinga í ferlinu minnkar.
Eiríkur Gíslason útskrifaðist með meistarapróf í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands vorið 2007. Hann hefur frá útskrift starfað á Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði m.a. við rannsóknir tengdar líkanreikningum á snjóflóðum.