fimmtudagur 12. mars 2015

Vísindaport: Tækni og fagurfræði snjómoksturs

Snjómokstur snýst ekki bara um tæki og vöðva, heldur líka um tækni og vilja. Og ekki síðst um týpur og vitræna nálgun.

Þó starfsemi Snjóflóðaseturs gangi aðallega út á greiningu á snjó, er greining á sálfræði þeirra sem moka þennan snjó jafnvel áhugaverðari fyrir allan almenning. Í Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði sameinast helstu sérfræðingar landsins í snjó. Ekki er verra að þeir horfi á snjóinn á heildrænan hátt og þá ekki eingöngu út frá sjónarhorni eðlisfræði og veðurfræði, heldur af og til líka frá sjónarhorni félagsvísinda og sálfræði. Þegar nánar er að gáð má meira að segja greina listrænar og fagurfræðilegar hliðar snjómoksturs og ekki sama hver mokar hvaða snjó.

Föstudaginn 13.03.2015 munu Jón Ottó Gunnarsson og Magni Hreinn Jónsson láta gesti Vísindaports horfa í spegilinn og kynnast sínum innra manni með því að greina snjómoksturstýpur á meðal okkar. Allir sem skóflu geta valdið velkomnir.

Jón Ottó er vatnafræðingur að mennt og vinnur m.a. að viðhaldi og daglegum rekstri vatnshæðarmælakerfisins og rennslismælingum, en fæst á Snjóflóðasetrinu þar að auki við vatn í frosnu formi. Magni Hreinn er sérfræðingur í ofanflóðarannsóknum hjá Snjóflóðasetri.

 

Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. 


Magni Hreinn Jónsson og Jón Ottó Gunnarsson verða í Vísindaporti föstudaginn 13.03.2015.
Magni Hreinn Jónsson og Jón Ottó Gunnarsson verða í Vísindaporti föstudaginn 13.03.2015.