miðvikudagur 6. janúar 2010

Vísindaport: Synjunarvald forseta Íslands

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða hefur göngu sína á ný eftir jólafrí föstudaginn 8. janúar í kaffisal Háskólaseturs kl. 12.10. Þá verður tekið til umfjöllunar málefni sem brennur á vörum flestra Íslendinga þessa dagana - synjunarvald forseta Íslands. Það er Ragnhildur Sigurðardóttir lög- og sagnfræðingur, starfsmaður Þýðingarmiðstöðvar Utanríkisráðuneytisins á Ísafirði, sem flytur erindi um þetta efni undir yfirskriftinni "Túlkun forseta Íslands á synjunarvaldinu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar". Fyrirlesturinn byggir m.a. á verkefni Ragnhildar í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík sem fjallaði um túlkun forseta Íslands á synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Nú hefur það gerst í annað sinn á lýðveldistíma þjóðarinnar að forseti Íslands hefur neitað að staðfesta umdeild lög frá Alþingi. Samkvæmt stjórnarskrá ber Alþingi í kjölfarið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu svo fljótt sem auðið er, eða fella lögin úr gildi. Hver svo sem niðurstaðan í þessu máli verður er ljóst að ágreiningur ríkir um meðferð þessa valds forsetans og að öllum líkindum mun neitun á staðfestingu laganna hafa veruleg áhrif á framtíðar stjórnskipun ríkisins.


Ágreiningurinn um meðferð synjunarvalds forseta liggur helst í því að stjórnarskráin kveður ekki skýrt á um framkvæmd þess. Nokkuð skiptar skoðanir eru á því meðal almennings, fræðimanna og handhafa löggjafarvaldsins hvort beiting synjunarvaldsins gangi gegn sjónarmiðum um ráðandi stöðu þingsins og stjórnskipuninni.


Hér verður leitast við að skoða þennan ágreining með því að líta til sögulegs og lagalegs bakgrunns stjórnarskrárinnar og stjórnskipunarinnar. Þá verður gerð grein fyrir synjunarvaldi forseta samkvæmt stjórnarskránni og hvernig forsetar lýðveldisins hafa túlkað þetta vald.